Leikskólinn

Þá er sú snögga orðin að leikskólastelpu hér í Þýskalandi, það var vel tekið á móti henni í morgun og krakkarnir farnir að bíða eftir þessum nýja Íslendingi.  Við mæðgur vorum þar fram að hádegi og tók hún fullan þátt í dagskránni, tvær vinkonur drógu hana svo út á leiksvæðið og þar var svo gaman að ekki var hægt að fara heim fyrr en eftir dágóða stund.  Á morgun verður hún ein allan tímann.

Sú sveimhuga var sátt eftir daginn, kom með heimanám eftir daginn, sat svo og reiknaði eftir hádegið – Þjóðverjarnir eru eitthvað aðeins á undan okkur í skólanum sýnist mér.

Sá skapmikli orgaði í morgun yfir því að fá ekki að fara með!  Hann fór svo vopnaður út á pall og skeytti skapi sínu á illgresinu.

Eftir búðarferðina réðst frúin á mosa, fífla og aðra óværu sem liggur hér á milli hellna.  Brakandi blíða var úti, stelpurnar fóru á leikvöllinn að hitta amerísku vinkonur sínar og amman bónaði gólfið.

Setningu dagsins á sú snögga: „eru bara ALLIR góðir hér í Þýskalandi?“