Þá eru allt í einu liðin tíu ár – eins og hendi væri veifað!
Áætlað var að sofa aðeins lengur í morgun, þar sem sú sveimhuga mætir aldrei fyrr en rétt fyrir tíu á föstudögum og sú snögga átti að mæta í skólaheimsókn í Hügelschule á sama tíma. Hún var hins vegar komin inn til okkar um sjö – venjulega þarf að vekja hana að lágmarki tvisvar upp úr klukkan sjö. Spenningurinn var töluverður.
Skólaheimsóknin gekk vonum framar og stóð sú snögga sig með mikilli prýði – sýndi sko hinum krökkunum hvernig á að gera hlutina. Kunni að tromma atkvæðin í nafninu sínu og þekkti hljóð innan orða án aðstoðar.
Sú sveimhuga var sátt við sinn skóladag – leikfimi í dag sem gekk vel. Um það leiti sem hádegismaturinn var að klárast kom póstur frá bóndanum um að hún kæmist inn í fimleika og ætti að mæta eftir einn og hálfan tíma. Hún komst í hóp með dóttur eins af samstarfsaðilum bóndans. Heimanámið og þrifin voru kláruð á mettíma og brunað niður í bæ.
Fimleikarnir eru við skóla rétt við miðbæinn og þurfti tvo hringi til að komast inn í einstefnugötuna – þar voru að sjálfsögðu engin stæði svo frúin lagði inn í kennaraportið. Þegar hún, sú snögga og sá skapmikli komu út var búið að læsa hliðinu og bílinn inni. Frúin sá fram á bíllausa helgi og sekt á mánudagsmorgni, þegar eigandi hins bílsins kom út og opnaði hliðið – frúin brá fyrir sig „ég er aumingja útlendingur og kann ekkert“ leikriti og fékk leiðbeiningar um hvar mætti leggja og komst út með skrekkinn.
Þegar sú sveimhuga var búin í sínum tíma kom í ljós að sú snögga getur líka verið í fimleikum, byrjar klukkutíma fyrr – svo næstu föstudaga munu frúin og sá skapmikli hanga niðri í bæ meðan systur sprikla. Honum finnst það að vísu hrópandi óréttlæti og vill líka fara í fimleika.
Í tilefni dagsins var farið út að borða á grískan veitingastað í nágrenninu, gengum við framhjá bóndabænum og á leiðinni talaði sú sveimhuga um að sig langaði til að flytja til Ameríku eða annars enskumælandi lands. Hana langar að læra ensku, frúin stakk því að henni að fara bara sem skiptinemi, en hún vill búa þar á meðan hún er barn. Dvölin hér er sem sagt ekki alveg afleit fyrst hún er til í að prófa það sama annars staðar. En maturinn á veitingastaðnum var ljúffengur.
Eftir að krakkar voru komin í ró spiluðu hjónin „Spurt að leikslokum“ sem er nýtt íslenskt spurningaspil – ákaflega skemmtilegt.