Það er helst að frétta að allir sváfu út í morgun – mislengi þó. Um það leiti sem síðustu menn vöknuðu var ákveðið að storma út í óvænt góðviðrið, því rigningu hafði verið spáð alla helgina.
Fyrsta stopp var búðin, en svo var farið í franska hverfið, þar sem Hügelschule er. Nemendur þaðan og úr öðrum skóla í hverfinu stóðu fyrir flóamarkaði á torgi þar, sú sveimhuga þekkti marga krakkanna og víða var kallað í hana til að heilsa. Svo gengum við aðeins um þennan borgarhluta sem er afskaplega fallegur.
Eftir hádegissnarl heima (sem samanstóð af pizzuafgöngum krakkanna frá gríska veitingastaðnum) fór kvenpeningurinn bleikklæddur út að skokka kvennahlaup. Á meðan gengu karlarnir frá heima og komu út nógu snemma til að taka mynd af okkur í bakaleiðinni og afhenda verðlaunapeninga.
Fjölskyldan rölti svo niður í hverfið okkar, Wanne, þar sem sumarhátið var við verslanakjarnann. Þar var hoppukastali, Slökkviliðið með fjáröflun, kirkjan og Sparisjóðurinn með kynningar og margt fleira í boði. Krakkar fengu blöðrur og grófu upp eðalsteina úr sandkassa kirkjunnar.
Þegar heim var komið hittum við amerísku stelpurnar, þær komu yfir til okkar og krakkarnir léku sér öll saman úti fram að kvöldmat sem bóndinn grillaði. Lúffengt að vanda.