Annir hversdagsins

Dagurinn í gær og í dag hafa einhvern vegin horfið án þess að mikið væri gert.  Í gærmorgun fór frúin með þann skapmikla að versla eftir skutlið og svo í kvennamorgun á neðri hæðina.  Þar var mikið spjallað og sá skapmikli sáttari en áður.

Seinniparturinn leið með heimanámi, púsli og almennum ærslum á heimilinu – frúin skrapp aðeins í fatabúð eftir að bóndinn tók við stóra púslinu.

Í dag gengu frúin og sá skapmikli upp að bóndabæ og skoðuðu kýrnar, kálfarnir voru of háværir til að hægt væri að skoða þá vel – þeim skapmikla leist ekki á blikuna þar.  Á heimleiðinni lagðist hann tvisvar í götuna og ræddi málin, skoðaði malbikið og skýin og var í ágætu skapi.  Við settumst svo á bekk og hlustuðum á engispretturnar.

Eftir heimanámið fóru fjórmenningarnir í göngutúr hálfa leið í kringum hverfið okkar Wanne, skógarstíg einn góðan – en miðja vegu lá við að sú sveimhuga hætti við þar sem risa vespa flaug að henni og titruðu á henni hnén lengi á eftir.  Við fundum fínan leikvöll þar sem hægt var að ærslast og svo voru fiskistautar keyptir í búðinni á heimleiðinni.