Síðast gleymdist að nefna að á fimmtudaginn skrapp frúin í klippingu hér í verslanakjarnanum, gekk þar inn á stofu og fékk tíma um leið. Þar var hún klippt í algjörri þögn og með þurrt hárið! Ekki var þetta nú besta klipping sem frúin hefur haft og er ætlunin að spyrjast frekar fyrir um hvert best sé að fara.
Vinirnir kæru voru kvaddir í morgun og var dagurinn hálf dapurlegur og tómlegt heimavið. Flestir frekar þreyttir og óvanalega lítið sofnir eftir helgina, þannig að snemma verður skriðið í ból í kvöld.
Á föstudaginn voru gestirnir heimavið fram yfir hádegið, en svo var gengið niður í bæ og upp að kastala, niður af hæðinni og yfir eyjuna. Þá fór að rigna svo ofboðslega að flestir blotnuðu í gegn þrátt fyrir vindjakka og regnhlífar. Sumarhátíð var við það að fara í gang í gömlu borginni og höfðum við ætlað að taka þátt í henni, en eftir að hafa gengið gegnum bæinn í ausandi rigningunni var næsti strætó nýttur til heimferðar.
Í gær gengum við svo upp að bóndabæ og horfðum yfir Schönbuch þjóðgarðinn sem er hér norðan við okkur, eftir mjög síðbúinn hádegisverð var ekið niður í bæ að taka þátt í hátíðinni. Margt var um manninn en frekar svalt í veðri. Við komum heim aftur um átta og fengum okkur pitsu í kvöldmat og eftir það var „Playdough“ spilað Noregur/Þýskaland og gestirnir höfðu sigur. Krakkar fóru í rúmið og fullorðna fólkið spilaði „Spurt að leikslokum“ fram að háttatíma.
Eftir kvöldmatinn í dag voru stelpur klipptar svolítið – hárið orðið of sítt til að gott sé að sjá um það sjálfar.