Venjulega tekur tæpar 15 mínútur að keyra þá sveimhuga í skólann en í dag tók það um 50 mínútur! Ástæðan var „Stau“ eða umferðasulta af verstu gerð, skólastúlkan var því rúmlega 20 mínútum of sein í tíma.
Stærðfræðibókin hennar er fyrir 2. bekk, þar er bæði margföldun og deiling – hún var að byrja að læra margföldun heima, undir lok þriðja bekkjar. Fleiri orð eru óþörf.
Sú snögga var sæl að vanda með leikskólann, að sögn var kennarinn með salat sem var gott fyrir beinin eða hjartað og allir fengu að smakka.
Sá skapmikli pissaði nokkrum sinnum í buxurnar og fannst það agalegt!
Annars fór dagurinn allur í að vera of seinn og að takast ekki það sem átti að gera. Til að setja punktinn yfir i-ið á annalitlum degi röltum við fjölskyldan í næstu sundlaug, til að komast að því að á þriðju- og fimmtudögum er skólasund og almenningur kemst ekki í laugina. Til að toppa það var ekki hægt að fá árskort afgreidd í þessari laug, heldur þurfum við að fara niður í bæ til að leysa það út.
IKEA kjötbollurnar klikkuðu þó ekki og engu er logið um bragðgæði þeirra 😉