Myndalaus færsla

og áfram líður tíminn, á mánudaginn fór að kólna fyrir alvöru hér.  Ástæða til að hafa húfu og vettlinga á morgnanna, skólinn gengur eins og vanalega og leikskólinn líka.

Á þriðjudagskvöld var foreldrafundur í leikskólanum, frúin skildi næstum því allt sem þar var rætt.

Í gær fengum við góða gesti, fyrrverandi nágranninn með drengina þrjá kom í heimsókn, kærkomnir gestir þar á ferð.

Í dag var föndrað, systur fengu glingurgerðardót í gær og var það notað í dag á meðan frúin kenndi þeirri amerísku garðaprjón, fyrsta stykkið er pottaleppur.  Spennandi að fylgjast með hvernig það gengur.

Frúin og sá skapmikli voru lengi á leiðinni í leikskólann í morgun, margt að sjá; borgarbíll með gulu ljósi á bílastæði – þurfti að vinka bílstjóranum, heimahjúkrunarkonan að fara á milli íbúða – vinka eins og á hverjum degi, ruslabíllinn að sækja gula ruslið – þurfti að horfa á þá taka poka við tvær blokkir og vinka þeim, þrír hundaeigendur þurftu sína athygli – sem og hundarnir þeirra, grein á jörðinni og flottir bílar.  Allt þarf sína athygli.

Reyndar eru ferðir til og frá leikskóla töluvert auðveldari núna en þær voru fyrst í september, þá voru tvær gríðarlegar hindranir á leiðinni.  Sú fyrri var rétt eftir að við fórum yfir á ljósunum við Philosophen Weg, þar er perutré þar sem mikið af perum lá á gangstéttinni og nauðsynlegt að stikla varlega á milli þeirra til að fá ekki klístur undir skóna og að forðast alla geitungana sem voru að éta perurnar.

Seinni hindrunin var rétt við leikskólann, þar er trönuberjatré og berin lágu á gangstéttinni.  Þar voru engir geitungar, en skelfilegt að fá rautt klístur undir skóna, svo það tók töluverðan tíma að komast þar í gegn.  Það er búið að þrífa perurnar af gangstéttinni og safinn úr trönuberjunum er þornaður.  Ekki meiri ógn þar fyrr en næsta haust.

Frúin og sú snögga sækja þann skapmikla saman þrisvar í viku – geysast niður að leikskóla á hlaupahjólum.  Frúin á hjóli þeirrar snöggu og sú á hjóli þess skapmikla, það er passlega mikið niður í móti til að ekki sé þörf á því að ýta sér mikið áfram, hjólin renna þetta frekar létt.  Svo fara systkinin á sínum hjólum aftur heim og frúin gengur með.  Fáránlega skemmtileg þessi hlaupahjól!

Sú sveimhuga er ánægð í skólanum, það gengur vel og ef hún einbeitir sér þá skilur hún næstum því allt sem kennararnir segja – þó það væri eini lærdómurinn sem hún næði að taka með sér heim eftir veruna hér, þá væri það gott.  Hún fékk hrós fyrir stafsetningaræfingu um daginn og 2+ í stærðfræði, sem er um 8,7 heima – hún fékk fullt fyrir 3 orðadæmi þar sem hún skrifaði svörin í setningum.

Sú snögga er sátt við skólann, á nokkra vini þar og nýtur þess að labba ein heim eftir skóla.

Sá skapmikli er farinn að tala heilmikið við krakkana og leikur við alla á deildinni sinni, fór á bókasafnið í dag og fékk lánaða bók – rosalega stoltur.

Allir telja niður dagana í heimsóknina til Íslands, það verður voða spennandi að koma heim þó stutt verði.