Hver er ég

HVER ER ÉG?
-síðast uppfært 2. mars 2008-

Nafn:
Eygló Traustadóttir

Aldur:
Ég er fædd 2. mars á því herrans ári 1983…reikni svo hver fyrir sig.

Búsetuferill:
Ég er fædd á Norðfirði og dvaldi þar í 1 mánuð í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa. Eins mánaða gömul kom ég heim í Rauðhóla í Vopnafirði og þar bjó ég þar til 23. júlí 1999. Þá flutti ég úr æskuhögunum í spillinguna á Akureyri, nánar tiltekið í Stekkjargerði 6, í snotra íbúð í kjallaranum hjá ömmu og afa hans Óla. Sumarið 2001 var ég á Vopnafirði en svo fluttum við Óli til Reykjavíkur þann 18. ágúst 2001 í lítinn bílskúr í Hvassaleitinu. Þar bjuggum við í 2 ár. Í september 2003 fluttum við inná stúdentagarða í Eggertsgötu og bjuggum þar í 2 ár á meðan ég kláraði háskólann. Þann 26. ágúst 2005 fluttum við Óli svo í okkar eigin íbúð í Grýtubakka 18 og búum þar enn og ætlum að gera næstu árin. Þetta er um 90 fm íbúð á jarðhæð í blokk. Við erum m.a.s. með garð (sem vefst reyndar svolítið fyrir okkur).

Starfsferill:
Starfsferill minn hófst á unga aldri þegar ég byrjaði að hjálpa til/þvælast fyrir í bústörfum, ég hef t.d. reynslu af 24 sauðburðum og 19 heysköpum 🙂
Fyrsta launaða starfið mitt var hjá Vopnafjarðarhreppi, það var sumarið 1996 og stóð í 3 vikur. Sumarið 1997 vann ég líka í unglingavinnunni hjá Hreppnum.
Sumarið 1998 vann ég í fyrsta skipti í frystihúsi Tanga í nokkra daga ásamt því að vera að vinna hjá Hreppnum. Sumarið 1999 vann ég í frystihúsinu hálft sumarið og í Lystigarðinum á Akureyri hálft sumarið.
Starfið í Lystigarðinum voru fyrstu skref mín á ókunnum slóðum, þar sem ég þekkti ekki alla fyrirfram með nafni, en reyndar fékk ég starfið í gegnum klíkuskap (Starri lagði inn gott orð fyrir mig  svo að ég þurfti ekki að sækja formlega um 😉 ). En engu að síður var þetta stórt skref. Sumarið 2000 vann ég hjá Kristjánsbakarí á Akureyri(fyrsta stafið sem ég þurfti að sækja formlega um), það var ágætt djobb þangað til að ég fékk útborgað, þar sem launin voru um 70000 kall á mánuði(þrátt fyrir að þurfa ekkert að borga í skatt og vera að vinna aðra hverja helgi). Ég þraukaði þó allt sumarið og nokkrar helgar fram á veturinn en þá var ég búin að fá nóg(og hætti um leið og kennaraverkfallið byrjaði, skynsamlegt? kannski ekki).
Sumarið 2001 ætlaði ég mér að fá vinnu á Akureyri og var á útopnu að sækja um, en ég fékk ýmist neitanir eða engin svör, Kristjánsbakarí vildi mig ekki einu sinni(sem betur fer). Svo að ég var eiginlega hálflost. En ég fékk vinnu í frystihúsinu þangað til að það lokaði, en það var heldur lítið. En þá var mér boðin vinna á Hótel Tanga og þá lá það fyrir að ég yrði á Vopnafirði það sumarið og við ákváðum að flytja til Reykjavíkur. (Ef einhver hefði viljað mig á Ak. þetta sumar þá værum við kannski ennþá að kúldrast þar, takk allir sem vildu mig ekki 😉 ) Vinnan á Hótelinu var mjög fín, en kannski hefðu mátt vera aðeins fleiri viðskiptavinir. Sumarið 2002 var stefnan tekin á að vinna í Reykjavík og umsóknum fleygt inn hér og þar, en allsstaðar kom “NEI” nema frá Hrafnistu og þar vann ég í ár, í fullri vinnu um sumarið og svo um helgar yfir veturinn.
1. júní 2003 byrjaði ég að vinna á Foldasafni, sem er eitt af söfnum Borgarbókasafnins. Þá grunaði mig ekki að ég ætti eftir að vinna þar þrjú sumur og heilan vetur í hlutastarfi. En mig grunaði allra síst að ég ætti eftir að fá fastráðningu þar eftir útskrift en það varð samt raunin. Ég vann þar sem bókasafns- og upplýsingafræðingur þangað til í ágúst 2007.
Sumarið 2007 ákvað ég fara að líta í kringum mig eftir nýju starfi því ég hafði áhuga á að reyna fyrir mér í skjalastjórn. Ég fékk starf hjá Menntasviði Reykjavíkurborgar þar sem ég vinn núna við skjalastjórn og vefumsjón ásamt fleiru.

Námsferill:
Námsferill minn byrjaði árið 1988, þá byrjaði ég í Leikskólanum á Vopnafirði og var þar í einn vetur. Það var afskaplega góður tími og ég á ekkert nema góðar minningar þaðan. Ég verð ávallt þakklát foreldrum mínum fyrir að skella mér á leikskóla 🙂  Úr leikskólanum lá leiðin í Vopnafjarðarskóla og þar stundaði ég nám næstu 10 árin og útskrifaðist þaðan í maí 1999. Því næst ákvað ég að fara í Verkmenntaskólann á Akureyri. Upphaflega var það hugmyndin vegna þess að tvær bestu vinkonur mínar ætluðu að fara þangað, en svo ákváðu þær skyndilega að fara í Húsmæðraskólann á Hallormsstað en þar sem ég var komin með kærasta á Akureyri þá ákvað ég að halda mig við planið. VMA varð frekar fyrir valinu en MA vegna þess að ég nennti ekki að hafa of mikið fyrir náminu, var búin að heyra of margar hryllingssögur úr MA. Þegar við fluttum til Reykjavíkur var ég mikið að spá í að hætta í skóla, en ákvað að halda áfram og það sem gerði líklegast útslagið þar var að amma ákvað að borga skólagjöldin fyrir mig og þar sem hún vissi ekki hvað ég var að pæla vildi ég ekki valda henni vonbrigðum. Ég fór semsagt í Fjölbrautaskólann við Ármúla og sé sko alls ekki eftir því, því að þann 21. desember 2002 útskrifaðist ég sem stúdent af félagsfræðibraut og fékk
meira að segja viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í íslensku og félagsfræði.
Eftir stúdent fór ég beint í Háskólann og fór að læra bókasafns-og upplýsingafræði. Ég tók líka nokkur námskeið í þjóðfræði með. Ég útskrifaðist svo 22. október 2005 með BA-gráðu í bókasafns- og upplýsingafræði. Lokaverkefnið mitt var um ljósmyndasafn Reynis afa og ég fékk 9 fyrir það 🙂

Unnusti:
Ég á unnasta. Hann heitir Óli Gneisti Sóleyjarson og er fæddur 1979. Við kynntumst á IRC, sem mér finnst ákaflega hallærislegur máti til að kynnast kærastanum sínum en það virkaði vel. Við byrjuðum saman 22. apríl 1999 og erum því bráðum búin að vera saman í 9 ár! Við erum líka búin að búa saman í 8 og hálft ár. 23. febrúar 2008 vorum við Óli stödd í London þar sem hann gerði sér lítið fyrir og bað mig um að giftast sér. Svo nú er næst á dagskrá að plana brúðkaup 🙂

Foreldrar:
Foreldrar mínir eru Trausti og Steinunn. Pabbi minn er bóndi. Mamma mín er sérhæfður fiskvinnslumaður 😉
Þau ólu mig víst upp og ég þakka/kenni þeim því alfarið um hvernig ég er.

Systkini:
Ég á einn hálfbróður(sammæðra) sem ég ólst upp með. Hann heitir Svenni og er fæddur 1978. Ég man eftir stundum þar sem ég hékk grenjandi á hurðarhúninum(sem er hálfónýtur eftir þessa meðferð) þegar Svenni var með gesti og ég mátti ekki vera með, en ég man líka eftir stundum þar sem við púsluðum saman og lékum okkur jafnvel saman í Barbý 😉  Það er erfitt að eiga Svenna sem eldri bróður því að hann er alltaf aðeins betri en ég, en ég reyni að halda í við hann  Í dag býr hann á Norðfirði í nýja húsinu sínu með Hrönn sinni og Frey litla sem er eins árs. Hann vinnur sem tölvunarfræðingur hjá Fiskistofu.

Vinir:
Ég á marga og mismunandi vini. Þeim hef ég kynnst á hinum ýmsu stigum í lífi mínu en flestum þeirra kynntist ég í Háskólanum, bæði í bókasafnsfræðinni og þjóðfræðinni. En besti vinur minn er Óli, sem er frekar hentugt 🙂

Gæludýr:
Við Óli áttum eitt stykki gæludýr. Það er hún Grísla(sem nefnd var Zero á unga aldri, en það festist aldrei við hana). Grísla bjó í bláu búri í stofunni og þar eru öll helstu þægindi sem naggrís þarfnast. Grísla hafði mikinn persónuleika þó að fólk væri mishrifið af henni og sumir hafi kallað hana öllum illum nöfnum(s.s. hamstur og rottu). Grísla er fædd um miðjan júní 1999 og er dóttir Bob og Lou. Hún dó í 18. maí 2005.
Núna er ekkert gæludýr á heimilinu (nema við Óli) en kannski fáum við okkur aftur naggrís seinna.
Ég ólst upp með hundi sem heitir Smali, hann kom á heimilið þegar ég var 6 ára.
Hann var vissulega besti hundur í öllum heiminum, þó sumir haldi öðru fram  En hann dó í desember 2001.  Einnig voru ógrynni af köttum heima þegar ég var lítil, þegar mest var áttum við 10 samtímis(þar af slatti af kettlingum)