Kaldbruggað kaffi

Ég hef aldrei verið hrifinn af kaffi. Það er ekki skrýtið þar sem ég er almennt ekki hrifinn af heitum drykkjum. Ekki einu sinni kakói. En ég mér finnst kaffibragð gott. Nammi, krem og ís með kaffibragði er allt gott. Mér finnst lyktin líka góð. Ég man sumarið sem ég vann hjá Gatnagerðinni á Akureyri og fannst yndislegt að sitja úti þegar Kaffibrennslan var á á fullu.

Ég hef einstaka sinnum prufað kalda kaffidrykki, m.a. kaldbruggað. Það hefur stundum verið gott. En ekki allt.

Um daginn las ég bók eftir Cory Doctorow. Í henni lýsir aðalpersónan því hvernig hann bruggar kalt kaffi og útskýrir hver er munurinn á að brugga með köldu vatni. Kaffið verður ljúfara, sætara. Beisku bragðefnin losna ekki. Þetta er víst japanskt að uppruna.

Þó við Eygló drekkum ekki kaffi þá eigum við bæði pressukönnu og Dolce Gusta vél. Ég ákvað að finna mér kaldbruggunarhylki í vélina og prufa. Fullt af ísmolum. Örlítið beiskt samt þannig að ég setti sykur í. Vandinn er samt að sykurinn leysist ekki upp í köldu.

Eftir nokkra daga af þessu ákvað ég að ég gæti ekki haldið áfram að nota hylki. Ef þetta væri eitthvað sem ég fengi mér einstaka sinnum þá væri það í lagi. En ekki á hverjum degi eða oft á dag.

Ég las mér til um bruggið og leyst best á að brugga með pressukönnunni. Verst var að uppskriftirnar voru meira og minna bandarískar. Sumsé, ekki metrakerfi. Það hefði verið í lagi almennt var verið að blanda saman einingum þannig að maður þurfti að umreikna únsur og bolla í stað þess að fá einföld hlutföll.

Allar uppskriftarnir hvetja til þess að nota grófmalað kaffi. Ég nota bara French Roast sem ætlað er fyrir pressukönnur.

Ég endaði á þessu af því að það passaði ágætlega í könnuna.

  • 1 dl kaffi (reyndar oft rúmlega full skeið)
  • 7 dl vatn

Kaffið fer fyrst í könnuna. Þegar vatnið er komið hræri ég rólega þar til kaffið er að mestu orðið blautt. Ég smelli þessu síðan inn í skáp og leyfi því að standa í um 12 klukkutíma.

Að þessum tíma loknum þrýsti ég síunni varlega niður. Næst helli í kaffinu í annað ílát, losa korginn úr pressukönnunni og skola hana. Ég sting þessu síðan inn í ísskáp þar sem þetta geymist vel (viku allavega).

Þegar ég fæ mér kaffi nota ég um það bil jafna skammta af „þykkninu“ og vatni en fylli líka af ísmolum.

Þetta gerir fínt kaffi en það vantaði smá sykur til að gera þetta fullkomlega ljúft. En það er ekki gott að láta sykurinn beint út í eins og ég nefndi að ofan. Auðvitað er lausn á því. Ég sýð smá vatn og nota til að leysa upp púðursykur. Ég er ekki alveg búinn að ákvarða hlutföllin af sykri enda er það líka smekksatriði. Ég set síðan sýrópið út í kaffiþykknið.

Þannig varð ég kaffidrykkjumaður.

Gervikjötætan ég

Ég er kjötæta. Mér finnst kjöt gott en margt grænmeti vont á bragðið (mér finnst laukur reyndar oft góður en hann var alveg skelfilega illa í mig ef hann er ekki afskaplega vel steiktur). Ég er ekki á leiðinni að hætta að borða kjöt … alveg.

En ég hef lengi verið áhugasamur um gervikjöt af ýmsu tagi. Lengi vel var það rannsóknarstofukjötið sem heillaði mig en síðan tók ég eftir því að allskonar kjötlíki urðu meira áberandi í umræðunni.

Ég man reyndar sérstaklega eftir umræðu um kjötlíki tengdri frétt frá Guardian. Þar voru gagnrýnendur úr tveimur hópum mjög reiðir. Annars vegar grænmetisætur sem töldu að það væri rangt að líkja eftir kjötbragði og hins vegar kjötætur sem töldu það aðför að sjálfsmynd sinni að bjóða upp á svona gervidót. Ég þoli illa þegar fólk reynir að staðsetja sig á hinum gullna meðalvegi en þetta var svo galið í tvær áttir að ég gat varla annað en tekið afstöðu gegn þessum öfgavitleysum.

Málið er auðvitað að flest kjöt sem maður borðar er ekki gott nema rétt kryddað og/eða með sósum. Það segir sig sjálft að kjötið sjálft er ekki endilega nauðsynlegt.

Í upphafi árs tókum við ákvörðun á heimilinu að prufa jurtakjötið kerfisbundið. Við vorum nokkuð samstíga um þetta. Þetta er blanda af öllum þessum ástæðum sem þið þekkið. Loftslagsmál og heilsa auðvitað. En líka það að þó ég sé kjötæta þá tel ég að okkur beri skylda bæði til að koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum og að leita annarra leiða til að sækja næringu.

Þannig að við höfum prufað hitt og þetta. Það sem hefur helst hitt í mark hjá mér Oumph! hamborgarinn. Hann er alveg frábær á bragðið. Ég tek fram að ég er ennþá að nota alvöru ost ennþá. Þegar ég er að elda kjöt þá er ég allur á nálum og „gæti fyllsta hreinlætis“ af því að ég er að hugsa um sýkla. En maður getur andað rólega með gervikjötið. Það er þá bara eins og meðhöndla brauð.

Ég hef líka fundið veganhakk sem ég er ánægður með. Það er frá Anamma og fæst í Bónus. Ég hef prufað það í lasagna, með spaghetti og á pizzur. Auðvitað getur maður ekki komið fram við þetta nákvæmlega eins og kjöt en munurinn er hverfandi. Það er líka alveg hræódýrt.

Eftir að hafa borðað gervihakkið nokkrum sinnum í röð og síðan skipt aftur yfir í kjöt þá finn ég fyrir því að það fer verr í líkamanum. Hálfgerð ónot í maganum hafa oft fylgt kjötáti en verður miklu meira áberandi þegar maður finnur ekki fyrir neinu slíku eftir kjötlíkið. Það sama gildir um hamborgarana. Manni líður bara betur að sleppa kjötinu.

Þannig að ég geri ráð fyrir að gervikjöt af ýmsum gerðum verði sífellt meira áberandi á okkar matarborðum næstu árin. Við verðum ekki grænmetisætur eða vegan á einni nóttu en við hver veit hvað gerist með áframhaldandi þróun.

Matreiðsla, matarskólar og uppskriftir

Ég er að dunda mér við að setja uppskriftirnar mínar inn í forrit sem er auðvelt að taka afrit af og senda uppskriftir úr. Það er samt ekki vandalaust.

Fyrsta vandamálið er, eins og alltaf, ég er búinn að breyta uppskriftunum og man ekki alltaf alveg hvað ég gerði síðast sem heppnaðist voðalega vel.

Í öðru lagi þá er góður fídus í þessu þar sem maður getur skráð uppruna uppskrifta. Það er stundum einfalt af því að þær koma beint frá Dagbjörtu, Helgu frænku eða Gulu matreiðslubókinni hennar mömmu. En ég hef breytt mörgum uppskriftum. Sumum smá og sumum mikið. Á hvaða tímapunkti er uppskrift ennþá nægilega lík upprunanum til þess að uppskriftin sé í raun ný?

Í þriðja lagi er valmöguleiki á að skrá matargerðarskóla. Hvað er til dæmis íslensk matargerð? Það segir ýmislegt um mig hvernig ég flokka það. Síðan grunar mig að ég yrði sekur fyrir glæpi gegn ítölskum matargerðararfi ef ég myndi flokka lasagnað mitt sem ítalskt.

Við getum auðvitað tekið dæmi af mexíkanska¹ kjúklingaréttinum okkar. Ég held að við höfum upphaflega fengið uppskriftina frá Hafdísi og Mumma en þau frá Árnýju. Uppskriftin hefur auðvitað gjörbreyst. Þetta er t.d. oftast ekki kjúklingaréttur af því að við erum eiginlega hætt að nota kjúkling og farin að nota baunir í staðinn. Síðan er ég auðvitað skíthræddur við að mexíkanskir matargerðarmenn hreyfi mótmælum ef ég voga mér að flokka þetta sem mexíkanskt.

1

Ég hef aldrei tekið orðin Mexíkói, mexíkósk eða önnur álíka í sátt.

Viking kebab – Alltaf best

>Viking Kebab
Kebab á Íslandi er alltaf að batna. En besti staðurinn er Viking kebab í Engihjalla (hjá Iceland). Það nær að vera ekki bara gott á íslenskan mælikvarða heldur er það eiginlega það besta sem ég hef smakkað. Ég hef lengi haft þá kenningu að matur þurfi að ferðast til að verða frábært og þetta sýnir það kannski best. Hérna er mið-austurlenskur matur á Íslandi framreiddur af Pólverjum.

Ég byrjaði að stunda staðinn í fyrra. Rakst bara á hann þegar ég ætlaði að sjá hvernig verslun Iceland væri því þeir voru þá alveg að fara að opna í hverfinu. Þetta er bara besti skyndibiti sem er í boði. Engar ýkjur. Það var skipt um eigendur núna í maí en það hafði engin áhrif á gæðin. Yndislegt alveg.

Það er reyndar skrýtnast að við Eygló erum bæði voðalega hrifin af þessu þó hún hafi aldrei verið sérstakur kebab-aðdáandi.

Annars finnst mér líka bara frábært að það sé hægt að fá góðan skyndibita með lambakjöti.

Bombay Bazaar

Ég komst alveg óvart að því að í Hamraborg í Kópavogi er indverskur veitingastaður sem heitir Bombay Bazaar. Við skruppum þangað í gærkvöldi. Ég fékk mér vindaloo-kjúkling en Eygló kasjúhnetukjúkling. Saman fengum við okkur kjúklingasamósur í forrétt.

Ég var afskaplega hrifinn. Ég er reyndar alveg sökker fyrir indverskum en þetta var vel yfir meðallagi. Vindaloo-kjúklingurinn var ekki jafn sterkur og ég hef fengið hann annars staðar en ég er reyndar þannig að mér finnst það ekkert aðalatriði heldur bragðið almennt. Eygló fannst lítið kasjúhnetubragð af sínum rétti en þótti hann góður. Mér þótti hann reyndar líka mjög góður.

Þjónninn mælti með að við myndum setja kjúklinginn og hrísgrjónin ofan á brauð sem fylgdi með (en ég man ekki hvað heitir) og borða þannig. Það var passaði alveg að það rosalega gott.

Samósurnar sem við fengum í forrétt voru góðar en ekki alveg jafn góðar og á Hraðlestinni (en ég dýrka þær alveg). Hins vegar má alveg taka í reikninginn að þessar voru mun ódýrari en á Hraðlestinni.

Reyndar fannst mér fyrirfram smá óþægilegt að það eru engin verð á Facebook-síðu veitingastaðarins – það er líka óþægilegt ef maður ætlar að panta matinn í síma og taka með heim. Annars finnst mér leiðinleg þróun að veitingastaðir séu bara með Facebook-síður en ekki alvöru heimasíður.

Í eftirrétt deildum við Eygló hvítsúkkulaðimús sem var alveg ótrúlega góð.

Kebab Center við Dalveg (þumall upp)

Fyrir viku tókum við Eygló eftir kebab stað við Dalveg. Ég varð sérstaklega spenntur að sjá lambakebab á spjóti – svona alvöru sko. Við vorum nýbúin að borða þannig að við kíktum ekki þangað þá. Í dag kíktum við loksins. Ég fékk lambakebab en Eygló kjúklinga. Gunnsteinn fékk bara bita hjá okkur.

Þetta var framreitt í pítu sem mér finnst eiginlega óþarfi. Það lengdi framleiðslutímann alveg töluvert. Af hverju ekki bara skella þessu á disk með frönskum og sósu (líka gott að geta skammtað sér sjálfur sósu)?
Ég held líka að það myndi auðvelda viðskiptavinunum, sér í lagi þeim sem ekki eru vanir kebab, að hafa myndir með réttunum.

Þetta virðist vera rekið með Castello þannig að þeir sem hafa fjölskyldumeðlimi eða vini sem leggja ekki í kebab geta bent þeim á að kaupa sér pizzu í staðinn.

En maturinn var ákaflega góður. Ég er mjög sæll með þetta og svo heppilega vill til að þetta er í leiðinni fyrir mig þegar ég er að hjóla heim úr vinnunni.

Geysir Bistro

Við Eygló skruppum á Geysi Bistro á mánudaginn fyrir viku. Ég ákvað að panta mér: „Pasta with chichen [svo], bacon and garlic“.

Þegar ég fékk réttinn fór mig fljótlega að gruna að það væri ekki allt eins og það ætti að vera. Kemur í ljós að það er fullt af lauk þarna á meðan enginn hvítlaukur finnst. Það er ekki gaman því þó mér þyki laukur ágætur á bragðið þá fer hann alveg voðalega í mig.

Ég hefði þó getað sætt mig við að veiða laukinn uppúr ef annað hefði verið í lagi. En svo var ekki. Beikonið og kjúklingurinn voru þarna í bitum sem voru alveg hroðalega bragðlausir og öllu drekkt í ólystugri lapþunnri rjómasósu sem gerði ekkert fyrir réttinn.

Ég hefði vissulega getað kvartað en ég var satt best að segja ekki í neinu stuði fyrir slíkt. Ég skildi meiripartinn af matnum eftir og fór fúll út. Ekki fer ég þangað aftur.

Indverski matur kvöldsins – Austurlandahraðlestin

Þegar ég átti afmæli fengum við mat frá Kitchen, í boði Hafdísar, og nú átti Eygló afmæli þannig að við fengum okkur aftur indverskt en í þetta skipti frá Austurlandahraðlestinni. Reyndar höfðum við heimagerðan Tikka kjúkling í matinn í gærkvöld og fyrrakvöld þannig að þetta er mjög indverskt þema hjá okkur.

Við höfðum prufað Austurlandahraðlestina áður án þess að kolfalla fyrir matnum en það var Tikka Masala kjúklingur. Í kvöld gáfum við þessu annan séns. Ég valdi Madras kjúkling en Eygló tók Mangalore kjúkling. Minn réttur er almennt ekki á matseðlinum en hann var alveg æði. Stórkostlega góður. Ég var ekki jafn hrifinn af hinum réttinum. Vandiinn var kannski aðallega að hann myndi mig á ótal „indverska“ rétti sem ég hef fengið í mötuneytum sem eiga það sameiginlegt að vera algjörlega óspennandi. Þessi var mikið betri en vakti upp slíkar minningar. Eygló var hins vegar mjög hrifinn.

Naan brauðið var annars vegar með hvítlauk og hins vegar með smjöri. Hið fyrrnefnda var voðalega óspennandi en smjörbrauðið var ákaflega ljúft.

Í heild var þetta mikið betra en síðast og allar líkur á að maður fái sér að borða þarna aftur – sérstaklega ef þeir verða aftur með þennan Madras kjúkling. Nammnamm.

Jafningurinn og brúnuðu

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með jafninginn sem ég gerði í fyrra með hangikjötinu í fyrra þannig að ég ákvað að skoða málið betur í dag. Ég auglýsti eftir leiðbeiningum á Facebook og talaði við Önnu systur. Ég var með svona rúmlega 100 gröm af smjöri sem ég bræddi á lágum hita, bætti síðan hátt í 100 grömmum af hveiti við, hellt ríflega af mjólk út í þegar ég hafði hrært þetta saman. Ég notaði dáltið af hvítum pipar, rúmlega tvær matskeiðar af sykri og eina teskeið af salti. Ég leyfði þessu síðan að malla í dáltin tíma og bætti við mjólk eftir þörfum. Undir lokin setti ég safann úr grænubaunadósinni ofan í. Þetta svínvirkaði. Málið er náttúrulega að ef jafningurinn er ekki nógu góður þá nýtur maður hangikjötsins ekki nærri jafn vel.

Í gær notaði ég nýstárlega aðferð til að gera brúnar kartöflur. Ég setti bara smjör, sykur og sýróp saman í pott og bræddi (fyrstu skrefin í að gera brúna lagköku). Bætti síðan við smá rjóma. Ég hefði átt að hafa meiri rjóma eða nota einhverja aðra aðferð til að þykkja þetta en þetta var mjög gott. Ekki samt jafn gott og hjá Arnheiði sem gerir heimsins bestu brúnuðu kartöflur og skv. Önnu systur notar hún ekki einu sinni nein trikk.

Þetta er skrifað fyrir Óla sem eldar jólin 2010.

IKEA jólamatarferð

Við Eygló tókum sérstaka ferð út í IKEA í dag. Ekki til að kaupa neitt jóladót. Alls ekki húsgögn. Bara mat. Mig langaði smá að prufa hangikjötið þarna. Það var fínt en jafningurinn, kartöflurnar og baunirnar dugðu ekki alveg með kjötinu. Það skorti laufabrauð. Eygló fékk sér kalkún. Hann var víst fínn líka. Þetta kemur í staðinn fyrir jólahlaðborð hjá okkur. Förum kannski aftur.