Ég hef aldrei verið hrifinn af kaffi. Það er ekki skrýtið þar sem ég er almennt ekki hrifinn af heitum drykkjum. Ekki einu sinni kakói. En ég mér finnst kaffibragð gott. Nammi, krem og ís með kaffibragði er allt gott. Mér finnst lyktin líka góð. Ég man sumarið sem ég vann hjá Gatnagerðinni á Akureyri og fannst yndislegt að sitja úti þegar Kaffibrennslan var á á fullu.
Ég hef einstaka sinnum prufað kalda kaffidrykki, m.a. kaldbruggað. Það hefur stundum verið gott. En ekki allt.
Um daginn las ég bók eftir Cory Doctorow. Í henni lýsir aðalpersónan því hvernig hann bruggar kalt kaffi og útskýrir hver er munurinn á að brugga með köldu vatni. Kaffið verður ljúfara, sætara. Beisku bragðefnin losna ekki. Þetta er víst japanskt að uppruna.
Þó við Eygló drekkum ekki kaffi þá eigum við bæði pressukönnu og Dolce Gusta vél. Ég ákvað að finna mér kaldbruggunarhylki í vélina og prufa. Fullt af ísmolum. Örlítið beiskt samt þannig að ég setti sykur í. Vandinn er samt að sykurinn leysist ekki upp í köldu.
Eftir nokkra daga af þessu ákvað ég að ég gæti ekki haldið áfram að nota hylki. Ef þetta væri eitthvað sem ég fengi mér einstaka sinnum þá væri það í lagi. En ekki á hverjum degi eða oft á dag.
Ég las mér til um bruggið og leyst best á að brugga með pressukönnunni. Verst var að uppskriftirnar voru meira og minna bandarískar. Sumsé, ekki metrakerfi. Það hefði verið í lagi almennt var verið að blanda saman einingum þannig að maður þurfti að umreikna únsur og bolla í stað þess að fá einföld hlutföll.
Allar uppskriftarnir hvetja til þess að nota grófmalað kaffi. Ég nota bara French Roast sem ætlað er fyrir pressukönnur.
Ég endaði á þessu af því að það passaði ágætlega í könnuna.
- 1 dl kaffi (reyndar oft rúmlega full skeið)
- 7 dl vatn
Kaffið fer fyrst í könnuna. Þegar vatnið er komið hræri ég rólega þar til kaffið er að mestu orðið blautt. Ég smelli þessu síðan inn í skáp og leyfi því að standa í um 12 klukkutíma.
Að þessum tíma loknum þrýsti ég síunni varlega niður. Næst helli í kaffinu í annað ílát, losa korginn úr pressukönnunni og skola hana. Ég sting þessu síðan inn í ísskáp þar sem þetta geymist vel (viku allavega).
Þegar ég fæ mér kaffi nota ég um það bil jafna skammta af „þykkninu“ og vatni en fylli líka af ísmolum.
Þetta gerir fínt kaffi en það vantaði smá sykur til að gera þetta fullkomlega ljúft. En það er ekki gott að láta sykurinn beint út í eins og ég nefndi að ofan. Auðvitað er lausn á því. Ég sýð smá vatn og nota til að leysa upp púðursykur. Ég er ekki alveg búinn að ákvarða hlutföllin af sykri enda er það líka smekksatriði. Ég set síðan sýrópið út í kaffiþykknið.
Þannig varð ég kaffidrykkjumaður.