Siðfræði – sjálfshjálp

Íslandsbók MikaelsMér fannst alltaf mjög táknrænt fyrsta daginn minn hér á safninu þegar ég var látinn fjarlægja bækur um siðfræði til að rúma fyrir sjálfshjálparbókum – og það í sjálfri Kringlunni. Ótvírætt tákn tímanna, því þá var raðað eftir vinsældum. Ég var minntur á þetta áðan við uppröðun þegar ég rak augun í rekkann „Siðfræði – sjálfshjálparbækur“. Það virðist engum nema mér detta í hug að þetta tvennt séu andstæður. Í það minnsta er Íslandsbók Mikaels síst siðlegasta leiðin til að ginna af fólki peninga ((„Mikael er kennari frá orsakasviðinu. Fræðsla þessa afls er boðin óskilyrt [merking? innsk. mitt] með það að markmiði að hjálpa mönnum til að skilja betur sjálfa sig og meðbræður sína. Mikael segir þetta fræðsluefni afar gamalt, en framsetning þess sé öðru hverju [hve oft og hver gerir það?] færð í þann búning sem hentar því tímaskeiði sem í hlut á; breytingum í málfari og menningu [þetta á sumsé eingöngu við um hugmyndakerfi hins fróma kennara frá orsakasviðinu, eða hvað? innsk. mitt]“ (bls. 11, leturbreyting mín) )). Eða hvað, áreiðanlega er fullt af fólki sem treystir því að hægt sé að hafa samband við kennara af hinum og þessum sviðum tilverunnar, meira að segja „orsakasviðinu“.

Í hillu 2

Hvernig stendur á því að karlar hlusta aldrei og konur geta ekki bakkað í stæði: Munurinn á kynjunum og hvað er til ráða eftir Allan og Barböru Pease.

Er vandamálið kannski ekki síst fólgið í því að misvitrir einstaklingar halda fram þessum mun og skrifa um hann bækur? Nema kannski séu þeir bestir í að leysa vandamálin sem skapa þau.