Líbanon

Úps!Lesið greinina. Skoðið myndirnar, ef það sóðar þá ekki út fallegu húsin ykkar (æ, úps, birti óvart eina!). Skiptir það máli „hver byrjaði“? Skiptir ekki andskotans máli. Stríð er glæpur, gegn öllu mannkyni.

Skrifið undir þessa áskorun. Ég veit að þeir sem geta stöðvað stríðið munu enn síður taka mark á henni en eigin siðferðiskennd og „kristilegu gildum“. En ef allur heimurinn brygðist ókvæða við, hvað haldið þið? Helvítis sinnuleysið er alveg jafn stór þáttur í að draga fólk til dauða þegar ráðamenn ganga af göflunum eins og ráðamennirnir sjálfir. Eða hvers vegna skyldu þeir halda að þeir muni komast upp með þetta? Vegna þess það er alveg rétt hjá þeim?

Lesið svo það sem Svertla hefur um málið að segja. Ha, minnir þetta á eitthvað?

Laugardagskvöld og SigurRós

Ég hafði aldrei farið á tónleika með SigurRós fyrr en í gærkvöldi. Nú veit ég að ég mun fara á fleiri.

Laugardagskvöldið var afar mikið ‘touch-and-go’ kvöld, var síflakkandi á milli fólks. Hitti fyrst Kára, þá Lárus, þá Baldur og Ármann, þá Silju, Tótu og Rannveigu, næst hittum við Silja þá Bjössa og Dofra.

Fyrsta lexía kvöldsins: Ekki gera þetta, haldið ykkur við einn hóp.

Önnur lexía kvöldsins: Það fást tveggja lítra bjórkönnur á Kaffibrennslunni fyrir tólfhundruð kall. Tveir fyrir einn svo að segja. Maður þangað.

Fyrsta leiðrétting kvöldsins: Ég er ekki alvarlegur, ég bara tek ekki gríni.

Önnur leiðrétting kvöldsins: Það er talsverður munur á að vera vingjarnlegur eða á fjörunum. Treysti því að enginn haldi að ég hafi verið hið seinna.

Gönguferð í sólinni

Átti afar erfitt með að rífa mig framúr í dag. Það hafðist þó á endanum og ég gat fengið mér göngutúr í sólinni. Mér varð gengið fram á stórt og tígulegt hús neðar á Öldugötunni, eitt það flottasta sem ég hef séð hér í grenndinni. Svo auðvitað, ögn til hliðar við gatnamót Öldugötu og Garðastrætis, stendur Unuhús. Grjótaþorpið er án efa eitt fallegasta og mest heillandi svæðið í borginni.

Gegnum það lá leið mín, niður Grjótagötu, gegnum Aldamótagarðinn og yfir Austurvöll, þar sem fjölskyldur ferðamanna léku við börn sín og ánægðir kaffihúsagestir sátu við útiborð, drekkandi ýmist bjór eða léttvín.

MartiniqueÞar sem ég á enn eftir að kaupa mér kaffivél settist ég örskotsstund inn á Prikið til að fá mér sárnauðsynlegan kaffibolla, þaðan lá leið mín svo í Skífuna. Þar keypti ég mér nýju plötuna hans Thom Yorke, The Eraser, og Bogartmyndina The Desperate Hours. Mér líst ansi vel á þessa plötu, búinn að hlusta á hana hálfa og hún er bara nokkuð góð við fyrstu hlustun. Henni svipar nokkuð til Radioheadplötunnar Kid A, en þessi er samt algjör haustplata, en Kid A ísköld vetrarplata. Myndina með Bogart horfi ég líklegast á í kvöld, enda hef ég ákveðið að vera heima megnið af kvöldinu, kannski líta fyrst við í eitt, tvö, þrjú afmæli. Þá er þetta fyrsta Bogartmyndin mín á DVD. Hyggst koma mér upp veglegu safni.

Og mikið sækir Vesturbærinn í. Hvers vegna í ósköpunum flutti ég ekki hingað fyrr?

Sigur mannsins

Í gærkvöldi lenti ég í þeirri hryllilegu aðstöðu að hafa eytt hálfum deginum í að flytja, ætla í sturtu eftir herlegheitin, en uppgötva mér til ægilegrar skelfingar að auðvitað var ekkert sjampó til. Gerði mér það að góðu (foj!), en gerði það að mínu fyrsta verkefni eftir vinnu í dag að kaupa slíkt og brúka það.

Enn lenti ég í andstöðu við máttarvöldin þegar ég vaknaði eftir of lítinn svefn í morgun (grannarnir á hæðinni fyrir neðan héldu partí í gærkvöldi …). Ekkert var tilfáanlegt tannkremið. Aldrei, eins og í morgun, var ég því eins ánægður með að hafa týnt farangri á leiðinni frá Stokkhólmi til Helsinki. Orsakasamhengi? Jú, það er nefnilega svo að í sárabætur fyrir skipulagsklúður Stokkhólmsflugvallar var mér fengin sjálf Neyðartaska ferðalangsins, hvar í mátti finna rakvél og -sápu, handklæði, sjampó, svitarlyktareyði, tannbursta og -krem. Þetta hafði ég óafvitandi haft með mér niður í Vesturbæ. Hve gleði mín var algjör. Hve.

Og hvað haldiði? Klukkan tæplega sjö nú í kvöld uppgötvaði ég þyrfti að haska mér út í Nóatún í JL-húsinu, áður það lokaði. Þar keypti ég mér Orasveppi, Tagliatelle, ostasósu og pott af mjólk (já, pott!!!). Heim kom ek, sótti mér potta, setti pastað á hellu (í potti samt, með vatni í). Þá kom að því að finna dósaopnara –

– skúffurnar úti og innihald þeirra á gólfinu, eldhúsáhöld úti um allt (frásögn ýkt), enginn dósaopnari. Ég inn í búr (hobbitinn ég er með svoleiðis), leitaði, leitaði, leitaði. Ekkert. Nema vasahnífur. Með G.A.M.A.L.D.A.G.S. dósahníf á. Sami mechanismi og sjá má hér. Ég reyndi, ó, hve ég reyndi, að negla hnífnum gegnum skaðræðis dósarandskotann, en allt fyrir ekkert. Dósin glotti til mín illyrmislega. -Við sjáum nú til með það! hugsaði ég, og hljóp til nágrannanna. Þeirra allra. Enginn heima. Það eina eftir í stöðunni – eftir að hafa fleygt skúffunum í veggina í annarri brjálæðislegri leit að dósaopnara – var að negla hnífnum þar í gegn, hvar mér áður hafði ekki sóst atlagan vel.

Nú stendur dósin úti á svalaborði, lítandi út eins og eftir loftárás, þjónandi hlutverki öskubakka, húsráðanda til sárrar munaðarbótar. Pastað eldaðist, sveppirnir brúnuðust, sósan sósaðist, allt þetta blandaðist, allt þetta étaðist – af mér. Nei, Arngrímur Vídalín Stefánsson lætur ekki hæða að sér. Allt þetta, er á daga mína hefur drifið síðan í gær, eru merki um sigur mannsins yfir aðstæðum sínum og náttúrunni. Hve langt vér komin erum í þróun.

Öldugata 59

Búinn að taka upp úr flestum kössum, ennþá nokkrir eftir á Laugarnesveginum. Tvær ferðatöskur fullar af fötum sem á eftir að losa. Herbergið mitt er rúmgott og notalegt, þótt ég eigi enn eftir að venjast því að sjálfsögðu. Öll húsgögn komin: Fjórir bókaskápar, skrifborð, rúm, hatta- og fatastandur. Sumsé allt sem nokkurn mann gæti nokkru sinni vantað. Fyrir utan viskí. En ég á svoleiðis líka.

Það fyllir mig undarleg ný stemning. Já, greinilega er ég fluttur, en á ég heima hérna? Kannski ekki ennþá, en von bráðar vonandi. Ég á heldur ekki heima á Laugarnesveginum. Milli þess ég flutti húsgögnin og þess ég kom aftur að sækja bækurnar mínar var komið rúm, náttborð, sjónvarp og tvær mottur inn í gamla herbergið mitt. Litli bróðir alsæll með nýju vistarverurnar.

Nei, ég bý þar ekki lengur og kem líklega aldrei til með að búa þar aftur. Tilfinningin nýja, líklega er það rótleysi. Það er ágætt. Enda eru nýir tímar framundan.

Að hafa, en geta ekki

Nú eru síðustu forvöð að skoða landsvæðið sem enginn hefur komið til, raunverulegt draumaland, stærsta svæði ósnortinnar náttúru sem eimir eftir af í Evrópu. „Við erum forréttindakynslóð,“ sagði Ómar Ragnarsson, „við verðum fyrst til að sjá hálendið í allri sinni dýrð, og sjáum jafnframt til þess að enginn annar muni sjá það aftur“. Hvað er svo sem hægt að sjá við Kárahnjúka? Kannski ekki mikið núna utan drullugar leifar Dimmugljúfra og urmul vinnuvéla, en það sem fyrir handan er, þar liggur ormur á gulli. Eins og sjá má af þessum myndum. Það er meira en bara hnjúkurinn, það er heil veröld ónumin, sem best skyldi haldast ónumin; griðastaður einstakrar náttúrufegurðar og dýralífs í heiminum til árþúsunda; griðastaður sem sjálfum verða engin grið gefin, og senn fer undir vatn.

Pólitíkin hefur firrt okkur svo að kjarni deilunnar hefur snúist um hagvöxt og hvort andmælendur stíflunnar hafi einu sinni komið á fjallið. Enginn spurði þá sömu hvort þeir hefðu siglt niður Yangtze eða Amazon; séð norska skóglendið eða komið að Nílarósum. Alveg áreiðanlega hlýtur að mega rústa þessu öllu. Raunar er verið að rústa þessu flestu, ef ekki er þegar búið að því. Skógarnir sleppa. Hvernig ætli hagvöxtur sé í Noregi?

Ef fórna má hlutum óverulegs fjárhagslegs gildis til að sitja fimm mínútum lengur í sólinni, hlýtur að vakna sú spurning hversu langt við viljum ganga. Ef það skiptir þá nokkru hvað við viljum, hlutirnir virðast ganga ágætlega af sjálfu sér. Annað sem skipt gæti máli eru allar þær virkjanir og álver sem enn sitja á vinnuborðinu, nú þegar Framsóknarflokkurinn þykist hafa snúið baki við stóriðjustefnunni. Fyrst hugvit og nýsköpun þykir skyndilega eftirsóknarverð, þá væri kannski ráð að hreinsa borðið og hugsa hlutina upp á nýtt. Það er ef nokkur innistæða væri fyrir hinni meintu stefnubreytingu Framsóknarflokksins. Það er ef nokkuð annað en fjárhagsleg rök skiptu máli í þessari umræðu.

Hvernig sem á það er litið flykkist nú fólk austur á land til að sjá það sem það getur áður það er orðið of seint. Þau bera náttúrudýrðinni fagurt vitni, prísa og dásama upplifunina af því að hafa komið „til Kárahnjúka“. Meðan það gat. Nú fer fólk þangað í heilu rútuförmunum, vegna þess það hefur aðeins alla ævina til að sjá eftir því að hafa ekki farið. Ef það er þá það sem raunverulega skiptir máli. Að hafa farið, en geta það aldrei aftur.

Hefur þú komið til Kárahnjúka?

Birtist á Múrnum 26. júlí 2006.

Enginn söknuður

Á miðnætti hefst síðasti heili sólarhringurinn sem ég eyði á Laugarnesvegi 100, heimili mínu í hartnær sextán ár. Tómir kassar standa fyrir utan herbergið, hvar inni ég sit og hlusta á tónlist sem ég er löngu hættur að hlusta á nema ef til væri að vekja upp minningar. Það er ekki að virka. Greinilega er ég kominn yfir það; líklega eru það hálf-mislægu gatnamótin og tröllvaxna aðreinin sem verið er að þröngva inn í litlu götuna mína. Það vantar bara álver og stemningin væri fullkomnuð.

Kannski gerist það á morgun, kannski kem ég að sjálfum mér mænandi út um gluggann á kvöldhimininn í minningavímu, brosandi með sjálfum mér. Kannski eitt rauðvínsglas með til að kveðja endanlega. Kannski. Kannski er stærsta orðið.

Tvennt vinnutengt

Í dag tók ég á móti bók um vampírur á safninu. Hún angaði öll af reykelsi. Greinilegt að hún hefur verið „notuð“. Það sem kemur ekki inn á borð til mín.

Annars virðist fólk almennt eiga mjög erfitt með að gera sér grein fyrir því að ég vil ekki að hringt sé í mig þegar ég er í vinnunni, né þá heldur að það getur ekki undir nokkrum kringumstæðum talist eðlilegt að fólk eyði heilu og hálfu vinnudögunum í einhverju prívatstússi. Ekki skipti ég mér af því þótt ónefndir aðilar á safninu séu símalandi í símann, en ég ætla heldur ekki að vera ónefndur aðili á þessu safni. Annað hvort er maður í vinnunni eða maður er að leika sér. Það er svo einfalt. Ég fyrir mína parta geri mitt besta til að standa mig vel á mínum vinnustað.

Dæmisaga dagsins er þessu tengd. Þegar ég vann í IKEA var nefnilega náungi að vinna í næstu deild sem virtist ekki eiga sér nokkurt annað hlutverk í búðinni en að tala í símann. Þegar síminn var tekinn af honum brást hann hinn versti við og þvertók fyrir að hafa ofnotað hann. Þetta kom sér illa fyrir okkur hin, því þetta var eini síminn í grenndinni, og það var vont á álagstímum að geta ekki hringt í yfirmann á ögurstundu.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hann hafi verið vinsæll eftir það.