Eining á Austurvelli

Í kvöld var farin söguleg ganga frá Hlemmi niður á Austurvöll. Andinn sem sveif yfir vötnum á fjöldasamkomunni við Austurvöll er það sem koma skal. Baráttan fyrir náttúrunni er langt frá því að vera lokið. Raunar verður henni aldrei lokið. Ekki nema þeir drekki þjóðinni með. Og það segi ég afkomendum mínum stoltur að þarna var ég, að ég barðist ásamt öllu þessu fólki fyrir náttúru Íslands, þá og alla tíð síðar.

Ómar Ragnarsson er þjóðhetja. Framlag hans til náttúruverndar og Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason eru einhverjar þær stórbrotnustu gjafir sem þjóðinni hefur hlotnast til lengri tíma. Með framlagi þeirra til affirringar orðræðunnar verður hægt að tryggja að Kárahnjúkavirkjun og afleiðingar hennar verði síðasta hryðjuverk sinnar tegundar sem framið verður í nafni þjóðnýtingar hér á landi.

Þegar ég kom heim uppgötvaði ég að maðkur var kominn í mysuna, þannig lagað, í kattamatinn öllu heldur. Þetta er í annað sinn sem það gerist að fluga verpi í kattamatinn með þessum afleiðingum. Taldi það að sjálfsögðu ekki eftir mér að demba öllu klabbinu undir brennheita bunu og drepa þannig öll þessi helvítis skrímsl á einu bretti. En nú spyr ég: Er nokkur leið til að fyrirbyggja þetta? Aldrei kom þetta fyrir á Laugarnesveginum!

Koníak út í te …

Nei, ég svívirti ekki Islam (skrifaði óvart Ismal) með því að hella koníaki út í þjóðardrykk Marokkómanna. Ég hins vegar hellti því út í Earl Grey. Algjört dúndur.

Annars hef ég ákveðið mig: Flug með Iceland Express til London 26. desember. Ermarsundslestin þaðan, mér er sagt hún komi við í Belgíu. Þaðan til Parísar hvar ég dvel til 3. eða 4. janúar. Þaðan sama leið til baka, nema með British Airways. Er með agent á mínum snærum sem ætlar að komast að því fyrir mig hvað lestin kostar. Flugið til London ætti þó ekki að kosta mig meira en 10.000 krónur. Flugið til baka kannski um helmingi minna.

Veikur

Ég vaknaði í morgun með einhverja þá hroðalegustu hálsbólgu sem ég hef nokkru sinni fengið. Tók deginum rólega og hringdi mig veikan í vinnuna. Er nefnilega mjög gjarn á að láta svona ekki hafa áhrif á mig og mæta samt til skóla og vinnu. Geri ráð fyrir að það sé þess vegna sem ég verð yfirleitt mjög veikur um októberbil. Svo verð ég jafnan aftur veikur í febrúar/mars.
Hef ég því setið hérna pollrólegur og sötrað marokkóskt myntute (var ráðlagt að blanda smá koníaki út í það, veit nú ekki …) með Requiem hans Mozarts í bakgrunni lágt stillt. Horft út um gluggann, lesið bloggfærslur. Mér finnst ekkert sérlega gaman að hanga svona heima. Langar í gönguna hans Ómars Ragnarssonar frá Hlemmi niður á Austurvöll á eftir. Vona að ég geti klárað hljóðfræðiverkefnið áður en hún byrjar, hef bara til miðnættis til að skila.