Síðasta reykmettaða ljóðakvöldið

Síðasta reykmettaða ljóðakvöldið verður haldið með gráti og gnístran tanna á Stúdentakjallaranum, fimmtudagskvöldið 31. maí klukkan 21:00. Upplesarar verða Hildur Lilliendahl, Jón Örn Loðmfjörð, Kári Páll Óskarsson, Kristin Svava Tómasdóttir, Steinar Bragi og Urður Snædal. Undirritaður les einnig og kynnir skáldin til leiks.

Hvað gerist í framhaldinu er óljóst. Ef bjórinn heillar nógu mikið hætti ég kannski að reykja. Búsetusviptingar væntanlegar. Meira um það síðar.

Þrællinn

Ég hef setið í bíl á ferð og skoðað bloggsíður í fartölvunni með hjálp hverrar þráðlausrar nettengingar heimilanna á Húsavík á fætur annarri líkt og vinur minn í bílstjórasætinu væri ekki nógu skemmtilegur

ég hef setið með fartölvu í flugvél og fundist ég fráleitt bisnessmannslegur þrátt fyrir bindið þarsem ég sat með bjórglas og færði inn minnispunkta uppúr vasabók

af hverju lófatölva hefur ekki leyst vasabókina af hólmi er svo aftur allt annað mál en hver á líka lófatölvu nútildags?

Palli litli einokar sandkassann

Ef það er tilgangur Moggans að reyna að vera fyndinn með öllum þessum pervisalegu myndum af Wolfowitz, þá er það líklega mesta afrek hans til þessa. Þetta er eins og bók um furðufílinn Elmar.

Palli litli úlfabarn var vondur strákur. Dag einn átti að skamma hann fyrir að banna öllum krökkunum á leikskólanum nema Söndru vinkonu sinni að vera með í sandkassanum. Palli litli var handviss um að hann yrði ekki skammaður fremur en hinn daginn (mynd 1)

En annað kom á daginn. Palli litli úlfabarn var kominn í meira klandur en nokkru sinni fyrr, og hann fór að velta fyrir sér hvernig nú á því stæði að hann væri kominn í svona mikil vandræði. Af hverju koma mamma og pabbi ekki að sækja hann á leikskólann núna til að gefa honum heitt kókó eins og áður? (mynd 2)

Skyndilega var allur heimurinn á móti Palla litla úlfabarni. En honum fannst hann ekki hafa gert neitt af sér, hann vildi bara leika við Söndru vinkonu sína. Af hverju átti að neyða hann til að leika líka við hina krakkana? Palli litli var að því kominn að gráta, snökt snökt :'( Hann var farinn að sjá eftir því að hafa verið svona eigingjarn (mynd 3)

Framhald í næsta tölublaði Morgunblaðsins.