Ad hominem

Ég hef heyrt margstaðar frá að Aron Pálmi hafi varla stigið fæti út af öldurhúsinu síðan hann kom hingað. Fólk virðist almennt hissa á því. Það bjóst kannski við að hann yrði skipaður héraðsdómari?

Hýpóþetikal

Aðaluppistaðan í þeirri ansi hreint ósjarmerandi fæðu sem ég lifi á er kjöt. Nauta- og lambalundir er eitthvað það albesta sem ég fæ. Ég er ekki klár á því hvernig þessum skepnum er slátrað eða hverslags tól eru notuð til að búta þær niður til að færa mér vöðva þeirra á diski, löðrandi blóðuga með sinum og öllu. Svo fremi sem ég veit gæti þetta allt eins verið mannakjöt. Í fyllstu hreinskilni finnst mér þetta ansi viðbjóðslegt, en það er líka viðbjóðslega gott á bragðið.

Spurningin er þá þessi: Þegar maður fer á veitingastað og pantar sér steik, hvaða máli skiptir eitt hár til eða frá? Það kemur ekkert slæmt fyrir þótt ég plokki hárið af og taki til við að rífa skepnuna í mig. Í langversta falli þarf ég að bíða annan hálftíma eftir annarri steik ef ég kvarta, nema þá að hárið sé hágeislavirkt og springi við kjöraðstæður í einhverslags efnahvörfum við kjötið ef ég kvarta ekki, annars er ansi hreint lítið sem gæti komið fyrir. Í þau skipti sem kötturinn sofnar hjá mér vakna ég með nógu mikið af hárum uppi í mér til að búa mér til annan kött, og fyrst ég dey ekki af því þá dey ég ekki þótt eitt mólekúl af hárgeli endi á blóðugri steik minni alsettum sinum og – guð hjálpi okkur – gegnsteiktum steindauðum agnarsmáum sníkjudýrum sem enginn tæki nokkru sinni eftir.

Guð hjálpi þeim sem finnur hár á fiskinum sínum og finnst það ógeðslegra en hringormarnir í fiskinum sjálfum en er samt ekki það pjattaður að hann þori ekki að greiða sér á morgnana. Svo gæti sama fólk gæti tekið upp á því að kyssa lík í kistulagningu – nokkuð sem ég skil en get sjálfs mín vegna ekki hugsað mér að gera. En hár á matnum, o seisei nei. Með fullri virðingu finnst mér að kvarta undan stöku hári í matnum álíka órasjónal eins og að varpa handsprengju til að losna við dordingul úr baðkerinu. Ég raunar skynja mig dáldið einan í þeirri afstöðu.

Hversdagsleiki

Í dag hringdi í mig náungi frá símafélaginu Nova. Hann seldi mér ekki neitt, en ég seldi honum bókina mína.

Svo aðstoðaði ég unga konu við að grafa upp heimildir um tákn og táknfræði, leiddumst svo út í spjall um merkingarfræði og arkítektúr (sem ég hef lítið vit á). Í kjölfarið ákvað ég að fá lánaða Atviksbók 8, Borgarmynstur. Víst finnst mér það áhugavert.

Ég sé að ég á alveg eftir að plögga vefmyndasögu Alla á þessum síðum. Kíkið endilega á Púkaland og lesið frá upphafi.

Nær allar færslur síðastliðna viku hafa verið í flokknum úr daglega lífinu. Líf mitt er enda fjarska hversdagslegt þessa dagana, og ekki kvarta ég undan því.

Myndbandasafn og málverk

Davíð Þór hittir naglann á höfuðið hér. Um daginn lenti ég nefnilega á lánþega sem kvartaði yfir að myndirnar okkar á safninu væru svo margar ótextaðar, en hann byggi sko á Íslandi og því væri lágmark að hafa íslenskan texta. Ég benti honum ekkert of vinsamlega á að þetta væri bókasafn, og spurði hvort það hafði hvarflað að honum að fara á vídeoleigu. Það hafði víst ekki hvarflað að honum.

Í dag sóaði ég svo bleki reykjavíkurbúa þegar ég ljósprentaði í vinnunni fjórar myndir eftir Jón Helgason handa sjálfum mér (get alltaf bent á einhvern æðri mér sem er spilltari). Fyrsta myndin er af Austurvelli í sólarupprás, Dómkirkjan í forgrunni hægra megin en Lærði skólinn fyrir miðju bakatil. Næsta mynd er líklega þekktasta mynd sem til er af Læknum, séð til norðurs að vetrarlagi, danskir fánar blakta hvarvetna við hún (til er sambærileg ljósmynd eftir Sigfús Eymundsson, vafalítið notaði Jón hana að fyrirmynd). Þriðju myndina þykir mér vænst um því hún hékk á gangi Öldugötunnar meðan ég bjó þar. Þar er horft frá Austurstræti upp Bankastræti, Innréttingahúsið á hægri hönd og Hollenska myllan trónir hér um bil þar sem Caruso stendur nú. Fjórða myndin er tilkomumest, ljóslifandi málverk af Bankastræti séðu til vesturs, elsta steinhús Reykjavíkur sem gjarnan er nefnt Stella í höfuðið á versluninni sést (þar bjó Jón einmitt), en hin húsin eru ekki lengur til. Þá sést Útvegsbankahúsið við nokkuð torkennilegt Lækjartorg, en nú er þar Héraðsdómur.

Þessar myndir prýða nú veggina í herberginu mínu, og þótt fyrr hefði verið.

Blindi maðurinn

Kisan mín er svo veraldarvön að hún nær skottinu sínu í sérhvert sinn, en treinar sér leikinn og sleppir því jafnharðan aftur.

Sjálfur er ég ekki meiri heimsborgari en það að ég var nærri genginn í veg fyrir bíl þegar ég hélt ég væri á grænu. Það var í janúar.

Í gærkvöldi tók ég frárein uppi í Ártúnsholti á leið í Árbæ og uppgötvaði þá til furðu minnar að rampurinn var horfinn og að ég stefndi beinustu leið í Mosfellsbæ. Það var örskotsstundu áður en ég keyrði upp téðan ramp.

Það var þá sem mér varð ljóst að það þýddi ekki að bíða lengur með að fara í sjónmælingu.