Á faraldsfæti

Á morgun fer ég til Akureyrar. Ég ætlaði að reyna að nýta ferðina og skoða Amtsbókasafnið en yfir sumartímann er það víst ekki opið um helgar – sem mér finnst reyndar til fyrirmyndar. Það er engin ástæða yfirleitt til að hafa almenningssöfn opin um helgar, til þess eru námsbókasöfn.

Ég legg af stað síðdegis, sem er ansi óheppilegur tími, og verð yfir helgina. Kannski maður kíki í Lystigarðinn og líti enn einu sinni eftir því hvort drykkurinn Blanda fáist enn í búðum þar nyrðra. Það væri vel þegið ef einhver gæti sagt mér hvað listasamkundan með latneska nafnið heitir svo ég geti séð hvort eitthvað sé að gerast þar núna.

Annars er það líkast til bara bjór í Hafnarstræti, bækurnar mínar og ég, svona á milli þess sem ég sinni hróinu henni ömmu minni. Þessa stundina eru það Travels in the Scriptorium eftir Paul Auster, Áhyggjudúkkur í annað sinn, Ingibjörg Haralds, Saga Reykjavíkur, Saga Klepps – ekkert þar samhengi þar á milli – ýmsar greinar um borgarlandslag og ýmis íslensk fræði. Ef eitthvert ykkar verður á Akureyri þá er ég í símaskránni. Bjallið.

Þátturinn sem lofað var – gleðjist!

Garðskálinn er risinn úr hýði sínu eftir langan – en fagurfræðilega nauðsynlegan – vetrardvala, en þeir Jón og Arngrímur láta engan bilbug á sér finna fremur en venjulega. Ef eitthvað er mæta þeir hálfu stórkostlegri til leiks í því augamiði að rífa sljóan almenning uppúr dróma sainnuleysis og heimsku (með fullri hógværð).

Garðskálinn er stoltur að kynna glænýja byltingakennda kenningu um endalok hinnar þrúgandi kúgunar landsins ungskálda, sem hingað til hafa ráðið allri bókmenntaumræðu með viðurstyggilega skrúðmæltu náðarvaldi sínu!

Þátturinn er næstum því í lit að þessu sinni, fyrir utan að litarásirnar á myndavélunum voru bilaðar og að settið á til að skipta litum alveg að óvörum, sem hefur slæm áhrif á ljósnæmi viðkvæmra vélanna. Arngrímur var að kaupa sér nýja skyrtu sem hann bara varð að sýna utan á sér. Jón var í sömu fötum og alltaf.

Das Gartenzimmer

Ég má til með að vekja athygli lesenda á þessum tveimur hvannadalshnjúkum andans, sem halda úti bókmenntaþættinum Garðskálanum á youtube. Þetta virðast vera tveir háskólanemar sem hafa tekið að sér að útskýra bókmenntahugtök fyrir umheiminum og reykja og horfa skáldlega upp í þakið á Hressingarskálanum til að magna hughrif áhorfandans. Sumar línurnar þarna eru svo þvingaðar að það er nánast óborganlegt. Ég hvet alla til að fylgjast með Garðskálanum.

Ég tel þetta reyndar vera grín en þeir sem bentu mér á þetta menningarstarf eru ekki á þeim buxunum.
Dóri (fullt nafn viðkomandi væri vel þegið).

Með sumrinu kemur snilldin. Ójá, þér vantrúuðu sem tölduð okkur af þurfið núna að éta hattinn ykkar, trefla og latté meðan við – það er að segja ég – göngum enn með okkar hatta, trefla og drekkum bjór, sem er miklu meira töff en latté. Jón gengur ekki um með hatt, en honum þykir gott að sitja á kaffihúsi og hripa hjá sér punkta í alltumlykjandi mannlífinu.

Já! Það eru Garðskálar á leiðinni. Þið hafið verið vöruð við. Því má raunar bæta við að Garðskálinn sendir ekki eksklúsíft út á YouTube lengur, heldur á Tíuþúsund tregawöttum undir slóðinni tregawott.net/gardskalinn. Greypið það í minnið.

Kenningin fallvalta hreina

Kvöldið eftir að ég svaf í bíl síðastliðna helgi átti ég í rökræðum um listhugtakið í útskriftarveislu í Fossvoginum, eða öllu heldur hélt stúlka nokkur því fram að sá verknaður að nota saur til sköpunar – nánar tiltekið í innsetningar – umræðan barst ekki til annarrar notkunar saurs, svo sem í stað málningar á hreinan arískan striga (þar með verður mér hugsað til Bergs Thorberg sem notar kaffi en gæti allteins notað saur ef hann lyktaði af kaffi án þess það gerði hann að minni listamanni hvað mig varðar) – væri ekki list og ég auðvitað fann mig knúinn til að verja slíkan verknað, ekki síst vegna þess að yrðingin sjálf var gölluð og hefði heldur átt að spyrja að því hvenær saur væri list en ekki hvort hann væri það yfirhöfuð.

Umræðunum lauk þannig að hér um bil allir í veislunni lýstu yfir þeirri eindregnu skoðun, gagnstætt minni eigin, að Arnaldur Indriðason (eftir langan veg rökræðna – ég er ekki að líkja honum við saur) hlyti að vera mesti rithöfundur Íslands af því að óumdeilanlega er hann vinsælastur og gæði listar stæðu þarmeð í órjúfanlegu hlutfalli við þann fjölda fólks sem hún höfðaði til. Betri leið til að afskrifa ljóðið sem listform – og ef út í það er farið nær allar bókmenntir og myndlist – er vandfundin. Fólk virtist heltekið þeirri skoðun að stöðnun væri fín, svo ég hætti þar og fór að rífast um barnaníðinga, enda sérstakt áhugamál hjá mér. Ekki fékk ég betri viðtökur þar.

Í gær las ég upp á ljóðakvöldi og hugsaði allan tímann um það hversu afleitur listamaður ég væri að ná ekki að trekkja að eina einustu gamla kerlingu með gleraugu á stærð við undirskálar og var ánægður að hafa ekki með gullofinni listsköpun minni dregið alla helvítis þjóðina inn á takmarkað rými Næsta bars, því í fjandans bænum: Eina meðalið við svoleiðis hávaða er tónlist. Þess vegna þarf tónlist ekki að staðna þótt hérumbil hver einasta sveit Íslands um þessar mundir sé annað hvort fyllt álfum, krúttum eða krúttálfum, því það er jú bara það sem fólk hefur áhuga á einmitt núna. En kenningin er völt. Hún veltur á því hvort annar hver maður verði búinn að láta klippa sig eins og Arnald fyrir tónleikana 28. júní næstkomandi.

Öfuguggaljóðaglíma

Fyrir allri skemmtan er góð ástæða, helst aldarafmæli!

Í tilefni af aldarafmæli Ólympíuþátttöku Íslendinga blæs skátahreyfingin Nýhil til ljóðveislu á Næsta bar klukkan 20:30 miðvikudagskvöldið 18. júní. Kvöldið er haldið sérstaklega til heiðurs glímukappanum Guðmundi Sigurjónssyni Hofdal, þátttakanda á Ólympíuleikunum í London 1908 og eina Íslendingnum sem dæmdur hefur verið fyrir sódómíu. Ýmis ung og öfugsnúin skáld stíga á stokk og hylla lífsvilluna.

Þau eru: Kristín Eiríksdóttir, Ingólfur Gíslason, Kristín Svava Tómasdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Bergþóra Einarsdóttir, Gísli Hvanndal og Arngrímur Vídalín.

Öryggið uppmálað

Ég er farinn að halda að svefntruflanirnar mínar tengist dægursveiflum – ekki nauðsynlega árstíðaskiptum, heldur sirkadíska rytmanum svo ég sletti. Ef ég fer að sofa á skikkanlegum tíma hrekk ég undantekningalaust upp kortéri til hálftíma seinna og sofna ekki aftur fyrr en nokkrum tímum síðar í fyrsta lagi. Hinsvegar get ég sofið heilu dagana eins og ekkert sé, eins og krónísk flugþreyta.

Fyrir vikið er ég oftast heldur þreyttur í vinnunni. Í fyrradag rak ég augun í að ráðningarsamningurinn minn hljóðaði bara upp á 70% starf á safninu. Það hljómaði ekki eins og neitt sem ég hefði skrifað undir og mér reiknaðist til að ég hefði vissulega unnið 40 stunda vinnuviku fram að því, svo ég sendi bréf á manneskjuna sem heldur utan um þetta. Í gær fékk ég svarið: Ég hef verið fastráðinn í 30% starf, sem er hefðbundna vetrarálagið mitt, sumarstarfið bætist svo ofan á. Ég hef aldrei gegnt fastri stöðu neinstaðar áður svo þetta er viss viðburður fyrir mig.

Í gær fékk ég svo enn ánægjulegri fréttir staðfestar, og þurfti ekki Leyndarmál Rhondu Byrne eða neinskonar dagsdaglega jákvæðni til að fá góða hluti upp í hendurnar. Skyndilega er bara allt að gerast á öllum sviðum nema því fjárhagslega, þar sem ég drulla á mig álíka rækilega og venjulega án verulegrar hjálpar einhvurra kreppudrauga. Og stundum þegar maður á engin orð til að lýsa væntingum sem allteins gætu hrunið án fyrirvara eða sjáanlegrar ástæðu, og stenst þá freistingu að gefa vafaatriðum einn einasta gaum, þá langar mann helst að hlaupa í bæinn á skyrtunni, öskrandi af gleði.

Sjortarar

Hella var fín. Ég reyndar eyddi mestum tímanum á hótelinu, en ég er hvort eð er með blæti fyrir hótelum svo ekki spillti það fyrir. Skrifborðið inni hjá mér virtist ófullgert án viskíglass. Ég er líka með blæti gagnvart slíkum skrifborðum, svo það er aldrei að vita nema ég snúi aftur með flösku og glas til að fullgera stemninguna.

Í öðrum fréttum horfði ég í kvöld á tvær myndir sem fékk mig til að líða illa. Fyrst var Death of a President sem var algjörlega vannýtt tækifæri til að segja merkilega hluti og kanna pólitískar afleiðingar þess að myrða George Bush. Innantóm þvæla sem hefði allteins getað verið nútímauppfærsla á Kennedymorðinu.

Seinni myndin var Paris, Je T’aime sem ég hef haft í láni núna ansi lengi án þess að horfa á hana. Sum atriðin voru afskaplega plain, falleg, rómantísk. Önnur voru hlutlaus en þau voru fæst, helst þrjú, en flest voru beinlínis trist. Gaman að sjá Samönthu úr Glæstum vonum þarna. Síðasta mynd sem ég sá með henni var líka andskoti trist á „fallegan“ hátt. Stundum vantar bara hærri aldurstakmarkanir á myndir. Sú mynd var líklega helst ætluð fimmtugum og eldri, en þessi var ágæt fyrir flesta aldurshópa yfir tvítugu. Frekar mannlegt stöff.

Annars er bara enn ein vinnuvikan hafin og ég er þegar farinn að bíða næstu helgar. Sögur af safninu spilla ekki fyrir svo ég dembi einni á ykkur. Fyrir ekki svo löngu kom nefnilega kona á sjötugsaldri á safnið mitt og bað um sjortara.

Sagan er ekki búin!

Svo ég fór upp í hillu og sótti bók sem heitir Sjortarar: kynlíf fyrir önnum kafið fólk og spurði hvort þar væri umrædd bók. Konan flissaði vandræðaleg inní sig, hristi hausinn pínupons og sagði „Nei, tíhí, nei, það var ekki þessi, flissifliss.“ Hún átti víst við nýju spennusöguna hans James Pattersons.

Og sagan heldur áfram að endurtaka sig …