Játning

• Mér finnst heimskulegt að tala um „skóla lífsins“.

• Stundum er það sama fólk sem vegsamar „skóla lífsins“ og er stolt af því að vera „af gamla skólanum“ (áður en allar þessar andskotans framfarir urðu).

• Ef til vill er þetta sama fólk og heldur að non scholae sed vitae discimus merki „við lærum ekki af skólanum heldur lífinu“. Að minnsta kosti halda margir þeir sömu að raunveruleg merking þessa frasa sé ómöguleg því nám hafi ekkert hagnýtt gildi. Að vera andvígur menntun er líka tegund af menntasnobbi.

• Mér finnst þetta blaður um „skóla lífsins“ vera álíka spennandi og „glíman við Bakkus“. Ég veit ekki af hverju sumir finna sig knúna til að upphefja eins hversdagslega hluti. Það eru margir sem vinna frá 14 ára aldri eða hætta í skóla og það eru margir sem glíma við ýmiss konar fíkn. Það eru að sama skapi margir sem eru langskólagengnir og svo eru margir sem aldrei þurfa að glíma við fíkn. Ekkert af þessu er merkilegt í sjálfu sér.

• Niðurstaðan er að við lærum öll af lífinu á einn eða annan hátt, og svo lifum við lífinu hvert með sínu laginu. Það er ef til vill ekki sérlega merkileg niðurstaða en mér virðist sem hún sé ekki öllum jafn augljós. Fyrst og fremst erum við öll mannfólk og þurfum ekki að hafa ímugust hvert á öðru fyrir að lifa lífinu öðruvísi en við sjálf teljum réttast.

• Ef einhverjum finnst örla á menntasnobbi í þessu bloggi hefur viðkomandi ekki lesið það rétt.

Fræðileg útgáfa Biblíunnar

Ég fór óvart að fantasera á Facebook um að eignast fræðilega útgáfu á Biblíunni. Best væri ef Hið íslenzka bókmenntafjelag stofnlegði ritröðina Erlend fornrit að fyrirmynd Íslenzkra fornrita. Þess í stað höfum við þýðingar Lærdómsritanna, sem að ósekju mætti gera að hardkor fræðilegri útgáfu án þess að almennir lesendur yrðu nauðsynlega fældir frá.

Og nógu déskoti oft hefur Biblían líka verið gefin út og látið með hana einsog hún sé einhver fastur texti. En þannig er það auðvitað ekki. Ef ég ætla að vitna í Biblíuna þá get ég ekki tekið íslensku þýðinguna frá 2007 og fært hana aftur um eitt einasta ár; hún er aðeins nothæf í Biblíutúlkun eftir útgáfuár sitt, það leiðir af sjálfu. Að sama skapi verður King James Biblían ekki til fyrr en snemma á 17. öld svo ég get ekki stuðst við hana í umfjöllun um 13. öld. Vúlgatan verður til seint á 4. öld, á 13. öld er hún orðin opinber Biblía Rómversk-katólsku kirkjunnar og hún er enn gríðarlega mikilvæg seint á 16. öld. Hafi maður áhuga á kristni á miðöldum þá les maður semsagt Vúlgötuna.

Í fljótu bragði sé ég ekki að nein fræðileg útgáfa af Vúlgötunni sé til á Landsbókasafni, og raunar sé ég ekkert á víðáttum internetsins heldur, að minnsta kosti ekki með skýringum. Ég leita þá bara svara annarsstaðar við þessari gátu:

Biblia Sacra Vulgata:
et nomen fluvio secundo Geon ipse est qui circuit omnem terram Aethiopiae

Paradís er staðsett í heiminum með því að fjórar ár sem renna í gegnum hana eru nefndar. Ána Geon eða Gíhon hefur ekki tekist að staðsetja með fullnægjandi hætti, en athygli vekur að í Vúlgötunni og í King James er hún sögð vera í Eþíópíu:

King James Version:
And the name of the second river is Gihon: the same is it that compasseth the whole land of Ethiopia.

Sem getur ekki verið því Paradís lá í austri í heimsmynd miðalda, í Asíu en ekki í Afríku. Auk þess eru Tígris og Efrat tvær hinna ánna sem renna um Paradís og þær eru báðar í Mesópótamíu, eða í Írak svona í grófum dráttum. Í nútímaútgáfum er Gíhon því sögð renna um Kúsland sem sumir hafa viljað finna stað við landamæri Pakistan og Afganistan nútímans:

English Standard Version:
The name of the second river is the Gihon. It is the one that flowed around the whole land of Cush.

Biblían (1915):
Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.

Á Eþíópíunafninu hef ég ekki skýringu (hún er ábyggilega einföld), en á hinn bóginn hef ég aldrei handleikið Biblíu sem einu sinni nefnir það að ekki beri öllum gerðum Biblíunnar saman um þetta, hvað þá önnur og flóknari atriði sem oss dauðlegum er djöflinum erfiðara að komast að sjálfir. Það þýðir ekki að sú Biblía sé ekki til, bara að ég hef ekki fundið hana. Hér með auglýsi ég eftir krítískri útgáfu á Biblíunni með rækilegum inngangi sem tekur á textafræðilegum forsendum útgáfunnar og málfræðilegum og guðfræði þess tíma sem útgáfunni er ætlað að endurspegla, formála að öllum bókum, gommu af neðanmálsgreinum og orðskýringum í meginmáli og nafna-, orða- og heimildaskrá aftast. Og meira til.

Og þetta bið ég um án þess að finnast Biblían einu sinni neitt sérlega skemmtileg. Ef þetta er til einhversstaðar þá held ég að mörgum væri gagn í að vita um það.

Kaffivélin frá Helvíti

Það var svosem auðvitað að undir eins og ég snerti kaffivélina í Gimli þá hrykki helvítis draslið i sundur með öllu tilheyrandi og kaffikorg flæðandi út um öll op á vélinni. Þannig hefnist manni fyrir að mæta til vinnu á sunnudegi þegar Háma er lokuð, en þannig bar þetta til að ég vildi fylla á vatnstankinn en fann hann ekki, svo ég náttúrlega opnaði eina hólfið sem ég fann hvaðan í kjölfarið flóðu út ósköpin Pandóru; og þá var allt of seint, mér var fyrirmunað að loka vélinni aftur svo ég flýði vettvang í hryllingi. Mér er það enn hulið hvar á eiginlega að bæta á vatni en það kemur ekki að sök því ég mun aldrei koma nálægt þessu skrapatóli framar! Héðan í frá verð ég með bauk af neskaffi á borðinu fyrir neyðartilfelli á sunnudögum og ekki orð um það meir.

A game of thrones

Ég þreytist ekki á að þakka fyrir þá þjónustu sem Háskóli Íslands býður nemendum sínum (munið það næst þegar þið kvartið að ekkert er sjálfsagt). Eftir að hafa skrifað meistararitgerð í svefnherberginu heima að mestu (við misgóðar aðstæður) og sumpart á Kringlusafni (tölum ekki um það) þá fór ég að hugsa mér til hreyfings. Eftir að hafa skoðað helstu möguleikana sem ekki eru ReykjavíkurAkademían þar sem ég áður vann – það eru þá borð á Árnastofnun, skrifstofa á Landsbókasafni eða skilrými (e. cubicle) í Gimli – þá sótti ég um aðstöðu á síðastnefnda staðnum um leið og ég hafði borgað skólagjöldin.

Og nú í vikunni var mér úthlutað borði þar, sem lög gera ráð fyrir að fylgi bókahilla, læsanlegur skápur og hirsla á hjólum. Nema lög gera náttúrlega ekki ráð fyrir fyrri borðbúa sem ekki hefur formlega yfirgefið aðstöðuna. Bókahillan er full af möppum og öðru drasli, skápurinn er læstur (og fullur) og hirslan er læst (og full). Fyrri borðbúi skrapp til útlanda í einsog eitt ár og tók aðstöðuna svona líka hressilega í gíslingu, í þeirri von að hann héldi henni á meðan einsog einhver Kjartan Ólafsson (helst þekktur fyrir að fara í fýlu þegar hann kom aftur frá útlöndum og fann að Bolli fóstbróðir hans hafði fastnað sér unnustu hans. Bolli neyddist loks til að púnktera hann með sverði svo hann dó, svo freklega lét hann með þetta. Það leiðir því bersýnilega af hefðun fyrri borðbúa að hann hefur ekki lesið Laxdælu).

Og undir eins og ég mæti á svæðið stendur varðhundur upp af borði hinumegin þils og tjáir mér að fyrri borðbúi sé væntanlegur innan loka annarinnar. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu; seint um aftan eftir að allir höfðu yfirgefið svæðið, að undanskildum mínum gamla bekkjarfélaga Haraldi Hreinssyni, þá mætti ég og plantaði borðtölvu, pappírshrúgu og gommu af bókum á borðið. Daginn eftir var einsog ég hefði alltaf verið þarna. Ég hef að vísu ekki skápana (og fyrir vikið eru flestar bækurnar mínar ennþá heima), en í trausti þess að þau mál leysist sem allra fyrst (þ.e. á þessu ári) þá uni ég glaður við mitt. Nægilega kembdi ég hærurnar við varðhundinn (af ærnu tilefni) án þess ég fari sjálfur að pakka niður möppum fyrri borðbúa. Það væri hybris, enda er ég að vísu umkringdur kollegum hennar á alla kanta. Það ætti þó varla að verða alvarlegri sitúasjón en svo að staka bitsjslapp gangi á milli borða.

Þjónn, það er kona í mannkynssögunni minni

Mig langar að verða duglegri við að setja inn ýmiss konar hugleiðingar hér, almenns efnis, námsefnis og svo framvegis. Til að mynda rámaði mig snögglega í það – meðan ég beið eftir espressókönnunni rétt áðan (ég drekk kaffi á kvöldin) í samræðu við Eyju um hina karlmiðuðu sögu (ég bjó til þennan Jón Sigurðsson sem fylgir bloggfærslunni, eiginlega alveg óvart, og þaðan spratt umræðuefnið) sem einhverjum gæti þótt móðgandi að tala um sem slíka – að saga, einsog ég man það, var fag sem öllum þótti leiðinlegt, bæði stelpum og strákum. Alltaf. Nema rétt á meðan það var tilkynnt að lesið yrði um aðra hvora heimsstyrjöldina – hvora sem var – þá þótti strákunum gaman í sögu. En svo byrjuðu þeir að lesa og saga varð strax aftur leiðinleg. Það stóðst ekki samanburð að lesa eða horfa á Apocalypse Now í heimabíói (héldu þeir).

Þórður bróðir kvartaði einhvern tíma undan því að honum væri fyrirmunað að lesa línulega atburðarás yfir margar aldir ef hann ætti að muna nokkurn skapaðan hlut hvað hann læsi, sér í lagi nöfn og ártöl. Og að vissu leyti er galið að læra söguna þannig, að vissu leyti er það alls ekki galið. Þegar maður fer að hugsa um þetta þessum árum síðar man maður vissulega að margir svitnuðu fyrir sögupróf. Nemendur grenjuðu einsog Ædolkeppendur á göngum skólans. Þeim gekk jafnan sæmilega sem verst gekk; enginn hafði í raun ætlast til að þeir lærðu þetta allt svona nákvæmlega og áhyggjurnar voru flestar tilefnislausar.

Þessar hugleiðingar eru þó fyrst og fremst sprottnar upp af þeirri staðreynd að mannkynssagan er karllæg, sem er mikilvægt að vera meðvitaður um þegar maður rannsakar sögu; tiltekin tímabil, menningu og bókmenntir þeirra. Það er ekki hægt að rannsaka miðaldabókmenntir nema rannsaka að einhverju leyti sögu þeirra einnig, jafnvel þótt það sé aðeins að litlu marki gert, og saga bókmennta er óhjákvæmilega saga menningar og tímabils í leiðinni. Og það er sáralítið af konum í þessari sögu allri. Ég man að þónokkrum sinnum gramdist bekkjarfélögum mínum það að eiga að læra „endalaust um einhverja löngu dauða karla“ og þær kvartanir komu jafnan frá strákum.

Ég er ekki að segja að við fáum breytt sögunni úr því sem komið er til að gera hana áhugaverðari, heldur að mér finnst þetta áhugavert í sjálfu sér. Það þarf nefnilega ekki nauðsynlega að vera að hið karlmiðaða falli körlum í geð einsog stundum mætti skilja á fólki.

~

Sjálfur hef ég alla tíð verið sögufíkill, þótt þekking mín á sögu hafi látið á sjá sökum vanrækslu síðustu misseri. Ég las allar kennslubækur sem eru alræmdar fyrir að vera leiðinlegar og fannst þær æðislegar, meiraðsegja Sjálfstæði Íslendinga I-III eftir Gunnar Karlsson. Ég hef það mér til afsökunar að ég var barn. Ég hef enga slíka afsökun þegar kemur að bókum Heimis Pálssonar.

Sturlungaöldin var mitt tímabil. Um hana vissi ég tíu ára allt það sem hægt var að læra af kennslubókum og meira til (núorðið man ég harðla lítið). Ég teiknaði ættartré Sturlunga og hending réði því að Snorri leit út einsog fífl á teikningunni en að Sighvatur Sturluson varð svalastur, og fyrir því hafði ég miklar mætur á Sighvati upp frá því og svíður alltaf dálítið í sinnið þegar ég keyri framhjá Örlygsstöðum í Skagafirði. Nú man ég ekki hvort Sturlunga var til á mínu heimili en í stað þess að lesa hana, eða gera tilraun til að lesa hana, þá hófst ég handa við að skrifa hana – á formi myndasögu – út frá því sem ég vissi. Sem var svosem ekki mikið þegar allt kom til alls.

Sighvatur féll við Örlygsstaði eftir hefðbundinni söguskoðun, en í minni útgáfu þá hafði hann falið sig í runna og duldist þar vel á grænu peysunni sinni; hann hefði lifað af bardagann ef pirraður Ásbirningur í leit að honum hefði ekki höggvið til runnans í gremju sinni og óafvitandi hæft Sighvat. Snorri var nokkuð nákvæmlega brytjaður eftir lýsingu Gunnars Karlssonar og fannst mér leiðinlegast að teikna þann kafla (enda lítið svigrúm til sköpunar). Þórður Sturluson varð óvígur í anakrónískri atlögu að skóggangsmanninum Gísla Súrssyni (Þórður bróðir hafði þá nýverið lesið Gíslasögu og mér þótti útlegð vegna sæmdarvíga spennandi) sem hafði víggirt heimili sitt með alls kyns gildrum. Þar féllu allir nema Þórður, slíkt heljarmenni fyrir sem Gísli var, en um örlög Þórðar og ævintýri átti eftir að skrifa lengri sögu. Hans sonur var enda Sturla sem var eiginlegur höfundur þessara frásagna allra, alveg sama þótt ég diktaði þær að mestu upp sjálfur. Inn í þetta hafði ég svo ráðgert að blanda Gretti Ásmundarsyni og fleiri köppum á einhvern hátt. Læt ég eftir mig óklárað verk en þætti vænt um ef ég fyndi varðveitt.

Það var því nokkuð skondið þegar ég sat tíma hjá mentór mínum fyrir réttum áratug og fékk að vita að þeir bróðir hans hefðu skrifað framhald Sverrissögu og verið það ofarlega á merinni að hafa reynt að frumgera fornmál til brúks í sögunni (það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn um að fremja furðuverk). Og þegar maður lítur til sagnaritunar á miðöldum þá má nú vel ímynda sér að vinnubrögðin hafi ekki nauðsynlega verið ósvipuð á köflum, þótt ekki hafi verið með sama vúlgar hætti; sum miðaldarit eru óttalegt kópí-peist með viðbótum, mótsögnum og anakrónisma og engar forsendur endilega til að meta hver heimild er „rétthæst“, sér í lagi þegar viðkemur norrænni trú.

En þessi Sturlunga 2.0 sem ég skrifaði, ég get ekki sagt að hún hafi verið annað en karlmiðuð. Ég minnist þess ekki að í nokkrum einasta ramma hafi komið fyrir kona, hvað þá að minnst hafi verið á konur í sögunni. Einu konurnar sem var að finna voru í áðurnefndu ættartré sem ég felldi fremst inn í söguna til hægðarauka fyrir væntanlega lesendur. Og hvað þýðir þetta? Ætli það þýði ekki bara að það læri börnin sem fyrir þeim er haft, og að hið dularfulla kvenlaga gat í mannkynssögunni sé nokkuð sem maður þarf ætíð að vera meðvitaður um. Sögunni fæst ekki breytt en við ráðum því með hvaða hugarfari við lítum hana.