Þrif og Nokia

Þennan daginn var kennari þeirrar sveimhuga ekki við, svo hún fór ekki í skólann, aðlögun enn í gangi.  Stúlkan byrjar inni í bekk eftir hvítasunnufríið sem verður tveggja vikna langt.  Krakkarnir hér eru að minnsta kosti ári á undan skólanum heima og sveimhuginn fer inn í það námsefni sem hún þekkir.

Sú snögga var svo ánægð á leikskólanum í dag, að það var algjört svekkelsi að komin væri helgi og enginn leikskóli í tvo heila daga!

Sá skapmikli tók smá syrpu á pallinum í dag, hann vildi ekki sitja með sólina í andlitinu en vildi bara sitja í stól sem snéri þannig og allt var ómögulegt!

Frúin og amman þrifu fyrir hádegið í dag og svo gekk hersingin að sækja Unu og þaðan á leikvöllinn í gamla grasagarðinum.  Sú sveimhuga er svo krambúleruð á hnjánum að það var með herkjum að hún gæti leikið sér, en allt hafðist það að lokum.  Sá skapmikli skammaði litla krakka hægri, vinstri og sagðist eiga allt.  Sú snögga skaust um leiksvæðið, af einu tækinu á annað hraðar en augað festi.

Þegar þau voru orðin sveitt af hamaganginum var rölt inn að bestu ísbúð bæjarins og bætt úr því.  Svo röltum við að Stiftskirkjunni þar sem við biðum eftir bóndanum, hann kom með rigninguna og þrumurnar með sér úr vinnunni.  Þar með þurftum við að leita skjóls í H&M!  Á heimleiðinni komum við svo við hjá Deutsche Telekom og fengum okkur farsímanúmer og nýjan Nokia.

Á leiðinni úr strætó litum við inn hjá slátraranum og eftir matinn var loksins komið að Heiðu í sjónvarpinu, sem sú snögga hafði beðið eftir frá því á mánudaginn var.