Fyrri part dags fóru sá skapmikli og amman í göngutúr út að sveitabænum á meðan frúin skutlaði þeirri sveimhuga, hjólið var tekið með en ekki notað þar sem: „ég kann ekki að hjóla!“ varð viðkvæðið. Hestar, kýr og býflugur voru skoðuð af miklum móð enda var liðinn hálfur sólarhringur síðan hann sá þetta síðast.
Eftir göngutúrinn var dundað úti á palli þangað til systur voru sóttar. Heimalærdómurinn kláraðis seint og um síðir, þá var gengið niður í bæ að vinnu bóndans og þaðan í eina lokaða sundlaug og svo tekinn strætó í fínu „upphituðu“ útisundlaug borgarinnar.
Vatnið var svo kalt að varir blánuðu og krakkar skulfu sér til hita – en gaman var það, þrátt fyrir skort á sturtum, óvanalegum klefum og skrítinni aðstöðu. Sú snögga hitti félaga af leikskólanum og foreldrarnir sáu tvo einstaklinga sem þau könnuðust við!
Þegar komið var heim að húsi sá bóndinn svo dauðan garðsnák á gangstéttinni sem börnin prófuðu að handfjatla og voru öll viss um að þora næst að halda á einum lifandi.
Kvöldsnarl var borðað utandyra upp úr klukkan átta í 20°C og logni.