Sólhlíf

Morguninn var erfiður, sú snögga vildi ekki fara í leikskólann því þar væri leiðinlegt.  Það hafðist þó að koma henni af stað.  Sú sveimhuga átti að heimsækja bekkinn sinn í síðasta tímanum og svo er hún komin í ríflega tveggja vikna langt hvítasunnu frí.  Skóladagarnir hér eru 185 á ári, en dreifast öðru vísi en heima.

Í dag var heitur dagur, eftir að frúin hafði keyrt þau sem keyra þurfti, hengt út þvott og sinnt morgunverkum fór hún í heimagerða fótsnyrtingu á pallinum – það verður pottþétt endurtekið síðar.

Þegar búið var að sækja stelpur, heimanámi lokið og krakkar komin í sundföt var nýja litla laugin vígð og lukkaðist svona líka vel.

Eftir kaffið voru allir svo dasaðir eftir hitann að mynd var skellt í tækið og slakað á fyrir framan skjáinn.  Seinni partinn fóru við hjónin og keyptum sólhlíf á pallinn, svo börnin haldist við úti í sumar.

Eftir kvöldmatinn, sem snæddur var úti á palli, var farið í spurningaleik, þar sem systur voru með þýska orðabók og spurðu fullorðna fólkið um þýðingu nokkurra orða – skemmtilegt kvöld.