Skúringar og gönguferð

Það felst allt í titlinum sem gert var í dag – eða svona nokkurn vegin.  Sú snögga var heima í dag, að sögn vill enginn leika við hana á leikskólanum þessa dagana, ekki að hún sé að spyrja krakkana – það bara býður henni enginn!  Svo sem allt í lagi að gefa henni frí svona dag og dag, sérstaklega þegar sú sveimhuga er enn í fríi og alltaf heima.  Annars styttist nú í því, skólinn byrjar aftur á mánudaginn.

Eftir hádegið gengum við niður í bæ og fórum á leikvöllinn með nesti – veðrið var heldur svalt svo það voru allir í peysum aldrei þessu vant. Hitamunurinn á pallinum okkar og leikvellinum er reyndar svolítill þannig að allir voru að stikna þegar þangað var komið.

Á kvöldgöngunni tók frúin eftir því að á bóndabænum er farið að selja fyrstu jarðarberja uppskeru þessa sumars, á morgun verður tekinn peningur með í göngutúrinn.