Í gær fór sú snögga á leikskólann og skemmti sér afar vel. Á meðan hún var þar, þreif frúin heima og plantaði hinum krökkunum fyrir framan sjónvarpið á meðan slett var í eina skúffuköku í nestið.
Eftir að búið var að sækja leikskóladömuna var pakkað niður og stokkið upp á bóndabæ til að kaupa jarðarber í nesti fyrir sveitaferðina heim til vinnufélaga bóndans, en hún býr í um 40 mín. akstursfjarlægð frá borginni. Foreldrar hennar reka hótel þar sem við ásamt tveimur öðrum barnafjölskyldum úr vinnunni gistum – stóru stelpurnar (þar með taldar okkar tvær) voru saman í íbúð og foreldrar með minni börn í nálægum herbergjum.
Eftir að við höfðum komið okkur fyrir var lagt af stað í gönguferð um Svebísku Albana (Die Swebische Alben) og var gengið í dágóða stund um skóga og akra, hóla og hæðir. Á einum staðnum var gengið í gegnum gamlar kastalarústir sem voru byggðar á svipuðum tíma og Ingólfur skrapp fyrst til Íslands! Þar kom sá skapmikli auga á eldspúandi munn- og magastóran dreka sem flaug burtu áður en frúin kom á svæðið, refi sem hann lamdi með prikinu sínu og stökkti á brott – algjört ævintýraland.
Stutt stopp var gert við leikvöll uppi á miðri heiði, en haldið svo ótrautt áfram, með grillsprek í hendi. Eftir um 2 klst ferð var komið í stórt rjóður þar sem unnusti vinnufélagans var byrjaður að kynda bál og hafði ekið með allt nestið á staðinn. Þarna var leikið um stund, svo grillaðar pylsur, fiskur og grænmeti, etið og spjallað langt fram eftir kvöldi. Svo var sest við varðeldinn og sungið – gítarleikari mætti á svæðið og spilaði undir.
Þreytt börn fengu far heim, en gangan þangað var mjög stutt þar sem við höfðum gengið í stóran hring. Þeirri snöggu gekk erfiðlega að sofna í fyrstu tilraun en það hafðist þó allt saman. Sá skapmikli hafði sofnað við kvöldsönginn hjá varðeldinum, svaf á milli og tókst að halda svefni frá foreldrum sínum mest alla nóttina.
Eftir vel útilátinn morgunmat var farið aftur af stað, það rigndi svo við keyrðum í hesthúsin, sem voru spölkorn í burtu. Þetta var stórt hesthús og hestarnir úr ýmsum áttum, frá Hjaltlandseyja smáhesti til stórra þýskra hrossa og svo leyndist þarna líka ein íslensk meri – hún kom fyrir nokkrum vikum og var mjög taugaóstyrk og feimin. Við fundum mjög til með henni að vera svona ein á nýjum stað, skilja ekkert og þekkja ekki umhverfi sitt, fóður né lykt.
Farið var með einn stóru hestanna inn í reiðhöll og þar fengu allir krakkar að prófa að fara á bak – þeirri sveimhuga fannst það nú heldur lítill reiðtúr, að láta teyma svona undir sig innanhúss nokkra hringi. Þeim skapmikla fannst þetta hins vegar mikið fjör og veifaði konunglega í hvert skipti sem hann fór framhjá okkur. Sú snögga skoppaði fram og til baka, ofsalega hamingjusöm með þetta allt.
Eftir reiðtúrinn hafði stytt upp og við ókum að pastaverksmiðju sem staðsett er úti í miðri sveit – þar var veitingastaður sem seldi hádegismat sem rann ljúflega niður, ekki síst í barnamaga. Þar fyrir utan var söluskýli með jurtum og þar hafði líka verið komið með einn farm af flögusteini þar sem finna mátti steingerfinga. Sú sveimhuga fann einn sjálf og ein af stelpunum gaf henni einn heilan – það var á við gull þar sem hún sagðist aldrei hafa trúað því að hún ætti eftir að sjá svona steingerfing með eigin augum, hvað þá að eiga einn!
Þaðan var keyrt á bjarnaslóðir, gengið inn í langan helli sem birnir höfðu dvalist í einhvern tíma í fyrndinni – fólk hafði líka búið þar, en áhugaverðast var þó að sjá alla dropasteinana. Sú snögga hafði að vísu margt við þetta að athuga, hvort þarna væru hugsanlega enn birnir, eða klær, eða tennur sem við gætum slasað okkur á. Sá skapmikli nennti þessu ekki og vildi fara heim en sú sveimhuga var algjörlega dolfallin yfir þessu öllu.
Þegar þessu var lokið kom ausandi rigning og allir drifu sig í bílana og heim. Áhugaverðri og skemmtilegri ferð var lokið.