Hörkulegt uppeldi!

Dagurinn var frekar snúinn – bóndinn í París og fyrsti dagur eftir frí hjá þeirri sveimhuga, svo allir þurftu að fara út í bíl fyrir klukkan átta í morgun.  Það hafðist allt og allir mættu á réttum tíma.  Við og sá skapmikli skruppum í matvörubúð um hálf níu og náðum okkur í mjólk og það sem til þurfti heimavið.

Svo var mokað, rólað, vegað og leikið sér – ásamt hefðbundum þvottum og frágangi.

Við sóttum svo þá snöggu – sá skapmikli vildi fara í sjóræningjaskipið á leikskólanum hennar, enda snýst allt um sjóræningja þessa dagana hjá honum.  Nema þá helst þær stundir sem hann smeygir sér í Köngulóarmanns búninginn og bjargar prinsessunum systrum sínum.  Stoppið í leikskólanum var of stutt að hans mati og var hann dreginn organdi út í bíl.

Sú sveimhuga var farin að bíða eftir okkur þegar við komum, en sátt og glöð eftir skóladaginn.  Hún fékk fjórar nýjar stærðfræðibækur í skólanum – og gat sagt IK-kennaranum sínum frá Bjarnarhellinum (sjá færslu laugardagsins) alveg sjálf!

Við skruppum svo á McDonalds sem er því sem næst við hliðina á skólanum hennar, en í nokkurn tíma hafði verið rætt um hentugleika þess – svona í hádeginu.  Þar er rennibraut sem var nýtt til hins ýtrasta og voru það sveittir krakkar sem drösluðust út í bíl eftir nokkurt þóf.

Heima var lært og dundað – svo var hugmyndin að skreppa í sund, en þegar við vorum komin aðeins af stað, gafst frúin upp á eilífu tuði og pexti dætranna og dór organdi liðið inn aftur, setti þann skapmikla í einkasundlaugina á baðherberginu og systur í straff.  Þá er komin ástæðan fyrir titlinum.

Þar sem eftir lifði dags leið átakalítið og krakkar fóru snemma í rúmið.

Þess má einnig geta að sá skapmikli brúkar nú klósettið oft á dag – vaxinn upp úr þessum koppi.

2 replies on “Hörkulegt uppeldi!”

  1. harka og harka. er thad ekki bara horkuleg framkoma vid foreldri ad vera med tud og pex? :o)

Comments are closed.