Fronleichnam …

heitir dagurinn í dag og útlegst á því ylhýra sem kristslíkama hátíð og er rauður dagur hér í landi.

Deginum er fagnað hér í borg með Stocherkahnrennen sem er róðarkeppni á Neckar ánni.  Sigla bátarnir í kringum eyjuna niðri í bæ.

Sem sannir Tübingen íbúar fórum við niðureftir til að taka þátt í hátíðarhöldunum, röltum af stað fyrir ellefu með nesti og regnstakka við höndina.  Við fjölskyldan vorum komin niður að brú um tólf – krakkarnir fengu snarl og svo kíktum við yfir brúarhandriðið á milli áhorfenda til að sjá hvað væri í gangi.  Keppnin átti að byrja klukkan tvö en um hádegið var brúin þétt setin fólki og kannturinn við ánna líka.

Við fórum niður á eyjuna og fundum stað þar semvið sáum ánna og þar birtust svo bátarnir hver á fætur öðrum – og margir fagurlega skreyttir.  Rosaleg stemmning var við ána og sungið og klappað fyrir bátunum.  Keppnin hófst svo og voru það tann- og augnlæknar sem börðust um forystuna þegar þeir fóru framhjá okkur.  Keppnin er flókin þar sem þeir sigla í 8 undir brú við enda eyjunnar og skapast þar mikil þvaga og læti.  Við höfum enn ekki staðfestar niðurstöður um það hverjir unnu keppnina.

Að þessu loknu tókum við strætó heim og voru pönnukökur steiktar í tilefni frídagsins – þær runnu ljúffenglega niður með ferskum jarðarberjum og rjóma.

Þá er bara einn vinnu- og skóladagur fram að helgi.