Kastalar og engisprettur

Við fjölskyldan höfðum það frekar náðugt framan af degi í dag, stelpur lærðu að hoppa inn í snúsnú í staðin fyrir að byrja við bandið, dúllast úti á palli og inni fram að mat.

Eftir hádegið fórum við í bíltúr, fyrst var ekið upp að Hohentringen kastala sem er í jaðri skóglendis fyrir norðan borgina.  Þaðan var fallegt útsýni yfir dal einn mikinn og gögnuleiðir þar allt í kring.  Augljóst var að þetta er vinsæll áningastaður um hádegisbilið á sunnudögum, hjólreiða- og göngufólk auk þeirra sem komu á bílum.  Veitingastaður er á staðnum þar sem setið var úti í fallegu veðri.  Við gengum svolítið út með hryggnum en snérum við þegar stystu lappirnar gáfust upp.

Þaðan ókum við til Rosecke, sem er annar kastali með veitingasölu og göngustígum allt í kring.  Þar var líka afar fallegt og vínviður í hlíðunum fyrir neðan höllina.

Okkur fannst ekki við hæfi að borða nestið okkar við þessar veitingasölur, svo við ókum suðurfyrir borgina og áðum við Hirschau.  Þar lögðum við utan við kirkjugarðinn og gengum smá spöl, við fundum engisprettu og var það mikið fjör.  Eftir gönguferðina fundum við okkur stað í eplatrjáalundi og gæddum okkur á nestinu.  Eftir það fóru krakkarnir að veiða engisprettur og fundu eina sem var eins og gæludýr og flakkaði á milli lófa í rólegheitum.

Þegar heim var komið voru grillaðar pylsur og borðað úti í blíðunni, en í dag var ríflega 25 stiga hiti frá hádegi.