Svalir dagar

Síðustu dagar hafa verið svalir og blautir, það fór að rigna aðfararnótt mánudags og síðan hefur ringt eitthvað alla daga þó ekki samfellt.

Á mánudaginn voru allir þreyttir og dasaðir eftir afmælisgleðina miklu og dagurinn leið í rólegheitum. Skemmtilegar fréttir bárust frá Noregi sem frekar verður sagt frá síðar.  Frúin hjólaði eftir kvöldmat yfir til Bebenhausen, klausturbæjarins í nágrenninu.  Ferðin þangað var fljótfarin með eindæmum – innan við tíu mínútna brjáluð buna niður fjallveginn handan bóndabæjarins.  Hangið á handbremsunum til að ná kröppu beygjunum.

Heimferðin var ekki alveg eins létt og löðurmannleg – frúin hjólaði inn í dal innan við bæinn, fann reiðstíg sem lá upp á við og tókst á við klifið.  Líklegast var það um níutíu prósent leiðarinnar sem hjólið var ekki stigið heldur leitt og frúin móð og másandi við hlið þess.  Samt ekki of móð til að fá sér stöku hindber af runnunum við slóðann.

Í gær fór frúin niður á kvennamorgun, þangað mætti ein frú frá Venesúela, hafði verið heima í Caracas undanfarnar vikur, svo þá voru á staðnum þær fyrrnefndu, ein frá Bandaríkjunum, ein frá Suður-Afríku og tvær þýskar.  Sú bandaríska var hávær sem fyrr, með skoðanir á ÖLLU.  Eftir hádegið rölti frúin með barnaskarann niður í bæ til að útrétta, eftir heimanám og það stúss og í strætó á heimleiðinni bættist bóndinn í hópinn, en þessa þrjá daga hefur hann verið á ráðstefnu.

Í dag voru allir inni við, leikið og dundað og spjallað við Íslending sem býr í næsta nágrenni og bjó fyrir tuttugu og fimm árum í næsta húsi við frúna.  Stefnt að því að hittast fyrr en síðar.

Þessa dagana hefur hitinn ekki farið upp fyrir 21°C, sem sagt kalt, dagurinn í dag þó kaldastur, ekki nema 16 stig – svo það hefur verið lokað út á pall í næstum því allan dag.