Skólaheimsókn og tásur

Morguninn byrjaði á því að sú sveimhuga, sú snögga ásamt frúnni hlupu niður í Grundschule and der Wanne, skólann sem þær systur fara í næsta haust.  Þær fóru í tveggja kennslustunda heimsókn þangað inn í 2.a sem er bekkur þeirrar sveimhuga.  Krakkarnir tóku mjög vel á móti þeim, stelpurnar himinlifandi yfir að þeim fjölgar enda drengir yfirgnæfandi í bekknum.

Í upphafi sátum við í hring (frúin var með allan tímann) og þær voru spurðar að nöfnum, aldri og hvaðan þær væru.  Einn bekkjarbróðirinn á íslenskan afa og gat fyllt inn upplýsingar um landið, svo sem um skyr og annað merkilegt.  Þær skrifuðu nöfn sín á töfluna og kennaranum þótti mikið til koma að sú snögga gæti skrifað nafnið sitt sjálf.

Svo var sest við borð og farið í smá leik, sú sveimhuga gat svarað og krossgáta ráðin í sameiningu.

Í frímínútunum rölti kennarinn með okkur og við hittum kennarann sem sú sveimhuga fær næsta vetur og sáum í hvaða stofu hún verður – sú mun líka kenna þeirri snöggu stærðfræði.  Svo var kennari hennar fundinn og kynnt fyrir okkur.  Að lokum var ítrekað að gott væri ef þeim yrði kennd meiri þýska í fríinu til að einfalda fyrir þeim skólaupphafið.

Í bekk þeirrar sveimhuga er ein stúlka frá Kína sem hefur búið hér stutt og er orðin prýðisgóð í málinu, hún og önnur til eiga heima hér í þarnæsta húsi.

Eftir skóla var pakkað niður nesti og ekið af stað með dyggri aðstoð nýja Garmsins í átt að Hechingen sem er fyrir neðan Hohenzollern kastalann.  Þar ætluðum við að fara í berfættan göngutúr.

Græjan virkaði fínt og við komumst á leiðarenda og gengum inn í smá dal, þar var búið að setja upp gönguleið sem á að fara berfættur og er undirlagið af mörgu tagi.  Steinar af mismunandi grófleika, ýmist sorfnir eða hvassir, greinar, kurl, trjástubbar, hellur, stórgrýti, gras, mold og allt sem manni gæti dottið í hug.  Einnig var hægt að vaða í læk á einum stað.  Þetta var ákaflega skemmtilegt, þó sá skapmikli væri ekki til í að labba á öllu þessu grjóti – betra að hlaupa í grasinu við hliðina eða láta halda á sér.

Eftir þessa heilsubót – sem er vandlega lýst sem svo í upphafi ferðar, holt fyrir hrygg, stoðkerfi, fætur og örugglega líka andlega líðan ókum við í áttina að Hohenzollern, en komum aftur þangað síðar með bóndann meðferðis.  Sutt stopp var gert við veitingasölu þar sem var leikvöllur og nokkur húsdýr – kýr frá annarri álfu, sennilega íslenskir hestar, lamadýr og hænsfuglar.  Krakkarnir léku sér aðeins, en svo opnuðust gáttir himins og við drifum okkur heim.

Þar var slett í mislitar múffur og þær borðaðar yfir DVD mynd á meðan ringdi eldi og brennisteini úti.