Stóra útilegan, Sviss og norður Ítalía (Austurríki og Lichtenstein), 2. hluti

Á laugardagsmorgninum var tjaldinu pakkað saman aftur og lagt í Dólómítafjöllin, sveitavegirnir voru eknir alla leiðina til Campitello di Fassa sem er rétt við Canazei í Trentines í Dólómítafjöllunum.  Ætlunin var nú að fara hraðbrautina að einhverju leiti – en enn og aftur gekk það ekki þrautarlaust, svo við keyrðum þess í stað í gegnum ægifagurt umhverfið og framhjá öllu hjólreiða- og mótorhjóla fólkinu.  Ferðalagið tók megnið af deginum og var tjaldað undir kvöldmat.

Til að mynda lentum við í upphafi hjólreiðakeppni og þegar við höfðum blásið af að fara hraðbraut urðum við að éta það ofan í okkur og aka niður úr fjöllunum aftur vegna hennar.  Úr aftursætinu bárust ítrekað beiðnir um að hætta að beygja svona mikið.

Í einu þorpanna var turn bæjarins skreyttur og Tóbías – nei presturinn átti afmæli, en þorpin voru mjög Kardimommubæjarleg mörg hver.

Snarl var keypt í nágrenninu, aðeins rölt um miðbæinn og svo voru krakkar settir í sturtu þar sem þau voru með skítugustu tær í heimi.

Á sunnudeginum fórum við í bíltúr um fjöllin, ætluðum að keyra útsýnisleið í hring norður fyrir Canazei en fórum óvart stærri leið sem samkvæmt kortinu var bara ljót, þó að við tækjum nú ekki eftir því.  Þegar við komum niður úr fjöllunum til Canazei voru 23 merktar beygjur á þeim vegi – en einungis beygjur sem voru meira en 180° voru merktar!  Þetta var lækkun upp á nokkur hundruð metra, ferlega mikil umferð, framúrakstur og reiðhjólafólk út um allt!

Í Canazei keyptum við hjónin okkur nýja gönguskó, við sáum gaukinn í klukkuhúsinu kíkja út, borðuðum ís og keyptum minjagripi.  Heima í Campitello fórum við á veitingastað og í göngu niður að ánni eftir það áður en allir skriðu í háttinn.

Næturnar í Campitello voru kaldar, fyrri nóttina fór hitinn sennilega niður í um 7° sem var skítkalt – lopapeysurnar héldu áfram að sanna sig og verða teknar með í næstu útilegu.

Á mánudagsmorgni var svo pakkað saman enn einu sinni og lagt af stað í norður í átt að Austurríki.  Sá skapmikli var búinn að biðja um að fá að komast heim í 3 daga – hann hafði svo að segja ekkert leikið sér enn að dótinu sem hann fékk í afmælisgjöf og lá á að bæta úr því.  Eftir svolitla umhugsun og akstur var ákveðið að stytta ferðalagið um eina nótt og keyra fram á kvöld í staðinn.

Að vísu var gert pílagrímastopp fyrir bóndann í Kastelruth/Castelrotto þaðan sem Týrólatónlistarmaðurinn Oswald Sattler kemur og hljómsveitin sem hann var meðlimur í á sínum tíma.  Einnig ókum við í gegnum bæ þaðan sem Alex og alpahornasveitin koma frá, Wolkenstein.  Þar er töluð Ladínska og eru öll skilti á þremur tungumálum.

Við ókum í gegnum Austurríki, norður í átt að Innsbruck og þaðan í austur, á leiðinni fórum við í gegnum ein þau lengstu göng sem við höfum ekið sjálf, 13 km.  Við fórum eftir hraðbrautinni alla leiðina, en sáum þó að þarna er ekki byggt eins mikið uppi í fjöllunum og bæði í Sviss og á norður Ítalíu.  Stefnan var sett á Vaduz í Lichtenstein og ókum við í gegnum 2 þorp þess lands líka.  Furstinn var heima, fáninn blakti við kastalann – við keyptm minjagripi og ís.  Listasýning var í gangi í borginni og mikið af fallegum styttum í miðborginni.  Á rennur rétt við borgina og hinum megin við hana er Sviss og tengslin greinilega mjög sterk þar á milli.

Eftir þetta stopp var svo farið út á hraðbraut í Sviss og ekið norður í átt að Bodensee, framhjá Konstaz og svo beina leið heim í ból.

Ævintýralegri útilegu var lokið, allir sáttir og þreyttir en til í að fara aftur í tjald – bara svolítið seinna.