Hversdagurinn geysist áfram alveg hreint! Á þriðjudaginn var þvegið (4 vélar – eins gott að það var brakandi þurrkur úti!) og slakað á eftir ferðalagið mikla.
Í gær var síðasti frídagur bóndans í þessari lotu, slappað af heimavið fyrri hluta dags, en eftir hádegið vorum við boðin í afmæli tvíburasona fyrrverandi nágrannans í keiluhöllinni í litlu-Ameríku. Það var óskaplega skemmtilegt og amerískt, svaka stuð að fara í keilu og allir krakkarnir smelltu sér í fínu skóna. Við komum heim seint og um síðir sem var í góðu lagi, því bóndinn var sá eini sem þurfti að vakna. Ekki að það hafi truflað neinn annan því um sjöleitið í morgun voru allir komnir á fætur.
Í dag var frúin svo að drepast úr leti – ekkert gert nema lesið fyrir sjálfa sig og börnin, reyttur arfi, prjónað og svo hefðbundin fóðrun heimilismanna og frágangur. Undir kvöld var svo skellt í eina vél á meðan stelpurnar okkar töpuðu fyrir Noregi, heimilsmönnum til mikillar armæðu – eins og landsmönnum öllum.
Ástæða tiltilsins í dag er rekin til þess skapmikla, hann fór á klósettið og fékk skýr skilaboð um að koma fram í brækur þegar hann væri búinn. Frúin heyrði vatn renna í vaskanum og kallaði tvisvar á hann að koma strax – því var engu gengt, ástæðan var sú að hann hafði hellt úr því sem næst fullum handsápubrúsa ofan í vaskann og var að skoða froðuna sem myndaðist! Var þetta óþægð eða er hann bara svona vísindalega sinnaður? Hann heldur því staðfastlega fram að hann hafi ekki gert þetta af óþægð.