Síðasta útilega þessa árs

Þá er vika flogin hjá – á mánudaginn var gerðist lítið.  Leikið inni og úti, þvottur þveginn, prjónað og lesið.

Á þriðjudaginn var kvennamorgunn á neðri hæðinni, mikið spjallað og upplýsandi hittingur.  Eftir hádegið fór frúin með þá sveimhuga, þá snöggu og þann skapmikla í sund í samfloti við amerísku frúna og hennar dætur.  Ferðin endaði í Rottenburg hér skammt frá, þar er þessi fína útilaug með skemmtilegu smákrakkasvæði og leikvelli.  Allir undu sér þar langt fram eftir degi og komu mátulega heim í kvöldmat.

Á miðvikudag versluðum við fyrri partinn – ný myndavél keypt auk hefðbundari vara og eftir hádegið brunuðum við til Holztgerlingen þar sem nágranninn fyrrverandi var heimsótt.  Þaðan komum við passlega til að elda matinn.

Á fimmtudegi fórum við í bæinn og keyptum skólavörur fyrir systurnar.  Eftir hádegið var pakkað niður fyrir síðustu útilegu þessa árs og lagt í túrinn þegar bóndinn kom heim.

Tjaldstæðið við Freudenstadt í Svartaskógi var áfangastaðurinn, huggulegt tjaldstæði í þröngum dal, svo þröngum að þar var ekki GSM samband!  Eftir að tjaldið var risið (auðvitað fór að rigna um leið og við drógum það út úr pokanum) fórum við inn í borgina.  Þar er ákaflega fallegt minnismerki eftir seinna stríð, stór súla með konu á toppnum og risa gosbrunnur sem er vatnsleikjasvæði, opið 10-13 og 14-20 og bunar vatnið marga metra upp í loftið.  Borgin hafði öll brunnið til kaldra kola 1945 og var byggð upp aftur, því starfi lauk 1956 og þá var þetta minnismerki afhjúpað.

Það var leikið svolítið á nálægum leikvelli, gengið um borgina og niður í nálægan dal, Christophstal.  Þar var hinn huggulegasti veitingarstaður í hallarkríli, Bären Schlössle.  Við fengum ljúffengan mat framreiddan af ömmu í derndl kjól, bangsar og postulínsdúkkur út um allt og voðalega heimilislegt – og hræbillegt í þokkabót!

Á leiðinni upp í bíl gengum við allan matinn af okkur, það var brött ganga.  Heima í tjaldi var skriðið í poka og nóttin var svöl.

Föstudagurinn var svalur, fyrsta stopp var berfótaþraut við Dornstetten.  Rétt um 2,4 km löng ganga á tánum með alls konar undirlagi og köldu vatni hér og þar.  Fjölskyldumeðlimir voru mis ánægðir með undirlagið – sá skapmikli vildi alls ekki verða skítugur og afskrifaði hann mestu drulluna alveg.

Á leiðinni þaðan datt hann á hausinn við eitthvað príl, pabbi hans tók hann, en þegar sá skapmikli fór að kvarta yfir hárum skoðuðum við hann betur.  Efst á hausnum hafði hann skafið af sér blett á stærð við gamlan 50 eyring og þaðan hrundu af honum ljósu lokkarnir, sem betur fer var þetta samt bara grunnt hrufl eins og hann fær oft á hnén, en vonandi vex hárið aftur!

Þaðan fórum við í búð og keyptum snarl í hádegismat og ókum svo í rigningu til Baden Baden.  Við kíktum inn í hið fræga Casino þar, rómversk böð og listasafn borgarinnar.  Fallegir gosbrunnar voru víða og skemmtilegar styttur.  Á heimleiðinni stoppuðum við á veitingastað í Freudenstadt og fengum eldbökur frá Elsass – það eru ekki pizzur, heldur þunnt brauð með ýmis konar áleggi – alltaf lauk og einhverjum osti, og svo einhverju þar fyrir utan en ekki tómatsósa.  Ákaflega bragðgott, en afi Gummi hefði sennilega borðað heldur betur en barnabörnin.  Nóttin var verulega köld og blaut, í bílnum um klukkan 9 var hitinn um 8°.

Á laugardaginn fórum við suður til Löffingen í garð þar sem voru ýmis villt dýr, s.s. villisvín, úlfar, apar, geitur og margar tegundir dádýra.  Mörg dýranna mátti fóðra og var einna skemmtilegast að leyfa bambadýrum að sleikja á sér lófana.  Þarna voru líka leiktæki og leikvöllur sem gaman var að leika sér á.  Nóttin var köld, um klukkan 8 sagði bíllinn 5°!

Í morgun var pakkað saman (tjaldið svolítið rakt eftir nóttina) og keyrt að kastalarústum við Schenkenburg, gengið upp að þeim og þaðan keyrt til Schiltach.  Þar sáum við ákaflega áhugavert safn sögunarmyllu sem hafði verið starfrækt þar frá 15. öld, sútunarverksmiðju og svolítið mynjasafn.  Í þessum bæ hefur verið mikil framleiðsla fatnaðar, bæði leður og vefnaður.

Við ókum svo heim í sól og blíðu og grilluðum heima.