Á mánudaginn var hefðbundið hversdagslíf við líði, að vísu var slett í vöfflur í kaffinu og ameríska kvenpeningnum boðið heim, þær höfðu aldrei smakkað svona kruðerí og líkaði ágætlega.
Á þriðjudaginn var kvennahittingur í kjallaranum og eftir hádegið var farið í leikvallaveiðitúr um Wanne, þar fundum við fínan leikvöll og ein mamman var með andlitsmálningu með sér, svo heim fóru tveir sjóræningjar og eitt fiðrildi. Bóndinn hitti okkur á vellinum og gekk með okkur heim. Í kvöldgöngunni mætti frúin skokkara sem fannst það ekki nógu mikil æfing, svo hann djugglaði þremur kúlum á skokkinu!
Í gær fór bóndinn í vinnuferð til Hechingen og Hohenzollern – við og amerísku kvennsurnar eltum, eða svoleiðis. Um hádegið fórum við af stað til Hechingen og lékum okkur í berfótagöngunni dágóða stund, ókum þaðan upp að Hohenzollern kastala og skoðuðum án leiðsagnar – sem þýðir að við fórum ekki inn í byggingarnar, en mikilfenglegur var hann utan frá séð og innan úr hallargarðinum.
Eftir að hafa kvatt Ameríkanana ókum við niður og á bak við kastalann þar sem bóndinn var í grilli með vinnufélögum, gerðumst við boðflennur þar og skemmtum okkur fram eftir. Eftir bað var sá skapmikli klipptur.
Í dag skruppum við í IKEA, en annars var hangið inni, hér eru allir að verða þreyttir á þessu góða veðri, búið að vera um og yfir 20 stiga hiti í 4 mánuði og það er að verða ágætt.
Undanfarið hefur frúin hugsað mikið til ömmu sinnar og afa (sem hefði orðið 96 ára í gær, 09.09.09!) Þau hefðu haft mikið gaman af því að vera hér og ekki síst í ferðunum okkar þar sem mikið af alls konar handverki er að sjá, útskurð, útsaum og heilmarga fallega muni.
Um helgina verður haldið upp á afmæli og skólar hefjast í næstu viku – gott verður að fara aftur í skipulagt heimilislíf.