Rínardalurinn og Bonn

Á föstudaginn var sá skapmikli einn í þrjá tíma á leikskólanum, sú snögga í fjóra tíma í skólanum og sú sveimhuga í tæpa 5 – allir komu sáttir og sælir heim og fóru að undirbúa ferð í Rínardalinn.

Þegar bóndinn kom heim var öllu sem til þurfti skóflað í bílinn og ekið til Bacharach þar sem búið var að panta gistinu á farfuglaheimili í kastala.  Á leiðinni þangað var umferðin treg, mikið um Stau og flugu Stau brandarar á milli hjónanna eins og „þetta er nú alveg Stauandi skemmtilegt“ og „einbeittur Stauvilji“ og svo framvegis.  En að lokum komumst við í kastalann sem stóðst algjörlega allar væntingar.  Krakkarnir hlupu og léku sér um hallargarðinn fram eftir kvöldi, við fengum kvöldmat og ís og allir voru mjög sáttir.

Við fengum fjölskylduherbergi uppi á þriðju (eða annarri eins og það er kallað) hæð, með þremur kojusettum og einu stöku rúmi.  Krakkarnir stukku öll á efrikojur og sú snögga var súr með að þurfa að sofa alein í sínu rúmi.  Frúin var nú ekki alveg örugg með að hafa þann skapmikla fyrir ofan sig og svaf laust alla nóttina, sem gekk slysalaus.

Um morgunin vaknaði hún við einhverjar skrítnar barsmíðar sem virtust koma að utan, þar voru hvítklæddir bardagaíþróttamenn og konur að æfa sig með kústsköft (eða þannig litu prikin út) og hafði æfingin greinilega byrjað klukkan 7!

Eftir morgunmat og frágang á herberginu var ekið af stað í norður eftir Rínardalnum í átt til Bonn.  Bacharach er fallegur bær á vesturbakkanum og eftir þeim bakka ókum við.  Þorpin voru hvert öðru fallegra og allar hlíðar þaktar vínþrúgum.  Fyrsta stopp var við klettinn Loreley – hún var ekki við akkúrat á þeirri stundu, enda líklegast ekki nógu mikil þoka fyrir hana.  Þar keyptum við okkur fína bók sem leiddi okkur svo upp dalinn með frábærum sögum – bæði þjóð- og sönnum sögum.

Þarna voru bæði kattar og músar kastalar, kastalar óvina bræðra (þjóðsaga), hlíðin þar sem Sigurður vó drekann Fáfni í Drachenfels auk fjallanna sjö og skóganna sjö þar sem dvergarnir sjö bjuggu.

Í Boppard stoppuðum við og fórum með stólalyftu upp að Fjögurravatnasýn (Vierseenblick) þar sem hlykkurinn á Rín er hvað mestur og áin lítur út eins og fjögur aðskilin vötn.  Ferðin upp í lyftunni var þess eðlis að við sórum þess að fara aldrei aftur upp í svona kláfi með krakkana – alla vega ekki fyrr en þau hafa stækkað heilmikið!  Þar hittum við nokkra Íslendinga á ferðalagi.

Áfram var haldið til Koblenz þar sem Mósel rennur út í Rín, við fórum að Deutsche Eck þar sem árnar mætast, sáum nokkur minnismerki um styrjaldir og sameiningu Þýskalands, fallegar kirkjur og skemmtilega gosbrunna.  Einnig lentum við inni á miðaldahátíð sem var mjög skemmtilegt.

Stoppið í Koblenz varð lengra en við höfðum ætlað okkur, svo við ókum beina leið þaðan til Bonn þar sem gömul skólasystir beið okkar ásamt dætrum sínum, bóndi hennar (sem er líka gamall skólabróðir) var heima á Íslandi að vinna.  Þar var spjallað langt fram eftir kvöldi, dýrindis kvöldmatur snæddur og krakkar léku sér.

Í morgun fór hersingin niður í garð einn mikinn á bökkum Rínar þar sem stór leikvöllur var heimsóttur áður en við ókum aftur sem leið lá heim til Tübingen.

Hugmyndin er að geyma Köln fram að afmæli bóndans eða eitthvað álíka og finna gistiheimili í helgarferð þangað síðar.