
Byrjað að mála.

Maulað á sýningu.

Gaman á jólamarkaði í Hohenzollern.

Jólamaðurinn heilagi Nikulás mætti á svæðið og deildi út gjöfum, eftir lestur ævintýrs í kapellunni.

Furðuverur mættu líka á svæðið.

Söngstund í startholunum.
Byrjað að mála.
Maulað á sýningu.
Gaman á jólamarkaði í Hohenzollern.
Jólamaðurinn heilagi Nikulás mætti á svæðið og deildi út gjöfum, eftir lestur ævintýrs í kapellunni.
Furðuverur mættu líka á svæðið.
Söngstund í startholunum.
Enn ein vikan flogin hjá.
Á þriðjudaginn var gerðist ekkert markvert, fyrir utan að bóndinn undirbjó utanlandsferð og frúin hnoðaði piparkökudeig.
Á miðvikudag fór bóndinn í ferðina til Toulouse og hingað heim komu 8 krakkar og 3 mömmur í piparkökumálun, bakaðar voru um 300 kökur og skreyttar, eftir það var súpa og pizza í matinn fyrir alla hersinguna. Mömmurnar voru sendar heim með súpu handa bændum sínum. Sú sveimhuga var svo ánægð með daginn að hún gat ekki gert upp hug sinn með hvað hafði verið skemmtilegast.
Á fimmtudag vorum við boðin í Þakkargjörðarmáltíð til amerískra vina fyrrverandi nágrannans í nálægu bæjarfélagi. Þar átu allir yfir sig af ljúffengum mat og áttum góða stund með yndælu fólki.
Á föstudaginn voru fimleikaæfingar og sund eins og vanalega.
Á laugardaginn var jólaskemmtun í fimleikunum, sú sveimhuga var mús og sú snögga var lítill krakki – stóðu þær sig eins og hetjur og höfðu virkilega gaman af. Það var frábært að sjá alla hópana leika listir sínar. Þegar við komum heim þaðan var bóndinn kominn heim. Um kvöldið var aðventukvöld í sjónvarpinu.
Í dag var stíf dagskrá – síðasta smákökusortin bökuð í morgunsárið, skroppið á jólamarkað í Hohenzollern kastala um hádegisbilið, steiktar pönnukökur fyrir kaffið og hingað kom íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan. Við sungumst á um stund og nutum samverunnar, eftir matinn var svo sungið „Við kveikjum einu kerti á…“ um leið og við tendruðum fyrsta aðventuljósið.
Jólakort föndruð eftir heimanámið.
Laufhrúga í skóginum í Wanne - gaman að leika í svona hrúgum.
Nýjasta prjónaæðið á bænum, vettlingar frúarinnar eru enn á prjónunum.
Klifurgrind við Waldorfskólann.
Rugguvegasalt fyrir alla fjölskylduna á leikvellinum í Waldhausen.
Frábært tré til að klifra í á leikvellinum í Waldhausen.
Og flott grjót að leika sér í á sama leikvelli.
Í eitt augnablik voru allir flugdrekarnir á lofti.
Hápunktur mánudagsins fyrir viku var sennilega búðarferð – keyptar buxur á stúlkur, eftir þrælavinnu við að föndra jólakort.
Á þriðjudaginn skruppum við til fyrrverandi nágrannans eftir skóla og skemmtum okkur vel.
Á miðvikudaginn fórum við með ameríkuskvísunum í skógarferð að safna könglum og enduðum á leikvellinum í Wanne. Á fimmtudag var mikill heimalærdómur.
Á föstudag var stuttur skóladagur vegna starfsdags og leikskólinn var lokaður af sama tilefni. Eftir hádegið voru fimleikar og sund eins og vanalega.
Á laugardaginn var fóru krakkar í svínaflensusprautu og kríuðu út Playmobil dagatöl eftir það. Eftir hádegið bakaði frúin vanilluhringi og kornflexkökur og setti krem í IKEA piparkökur, með dyggri aðstoð krakkanna á meðan bóndinn leysti próf inni í herbergi.
Í gær fórum við í göngutúr eftir hádegið, heimsóttum leikvöllinn við Waldorfskólann í Waldhausen og annan leikvöll til þar í hverfi.
Í dag var rok og frúin dreif krakkana út með flugdrekana þeirra, sú snögga var á því að það væri of hvasst fyrir drekann sinn og vildi helst ekki láta hann fljúga. Drekar þeirrar sveimhuga og þess skapmikla flækturst saman á meðan frúin ræddi við þá snöggu, sá skapmikli missti takið á sínum en sú sveimhuga náði honum aftur, en við það slitnaði hennar af bandinu og fauk í burtu með viðeigandi svipbrigðum eigandans. Frúin náði þó drekanum aftur, batt á bandið og áfram flugu þeir þangað til sólin lækkaði sig og kólnaði úti.
Á miðvikudaginn kemur verður málað á piparkökur í góðra vina hópi – að vísu verður bóndinn þá á leið til Toulouse á fund og kemur aftur heim á laugardaginn. Á fimmtudaginn erum við boðin til vina fyrrverandi nágrannans í Þakkargjörðarmáltíð – spennandi vika framundan, fullt að gera og svo fer aðventan að skella á.
Anda svo djúpt og njóta aðventunnar, ljósanna og vináttunnar.
Nýja bílnúmerið.
Ýmislegt fallegt má sjá í skóginum.
Stundum er þoka á morgnana.
Ljóskerið sem gert var í leikskólanum, búið að kveikja á kertinu, mikill heiður að labba um með logandi kerti í skóginum!
Stoppað og sungið: Laterne, Laterne, Sonne, Mond und Sterne.
Klausturkirkjan í Blaubeuren speglast í Blautopf uppsprettunni.
Uppsprettan skoðuð - báðar fjölskyldurnar.
Vatnið er mjög tært.
Við öll, uppsprettan í baksýn.
Krakkarnir fundu hellisskúta sem rúmaði þau öll.
Enn líður tíminn, þriðjudagur var hefðbundinn með kvennakaffi að morgni, heimalærdómi eftir hádegið og skókaupum seinni partinn.
Á miðvikudaginn skrapp frúin með gamla nágrannanum til litlu Ameríku að versla seríos og svoleiðis góðgæti, nágranninn kom svo í heimsókn með sína stráka, við fjórum á bændamarkað í bænum og á leikvöllinn í gamla Grasagarðinum. St. Martin var þann dag, en við gerðum ekkert til að halda upp á hann þá.
Á fimmtudaginn gerðum við það hins vegar, deild þess skapmikla og önnur til fóru í ljóskerjagöngu eftir myrkur – í kringum leikskólann, stoppað á nokkrum stöðum og sungið. Fyrir gönguna var brúðuleikhús og eftir labbið var heitt kakó og brauð fyrir utan skólann, ákaflega huggulegur siður.
Á föstudaginn voru aftur fimleikar hjá systrum og eftir það fór fjölskyldan í sund – frúin byrjaði sundkennslu vetrarins, markmiðið er að sú snögga verði synt í vor.
Í gær var jólagjafaleiðangur – allar gjafir sem fara heim á klakann voru keyptar, pakkaðar inn og gengið frá, fara í sjópóst á morgun.
Í dag var afslöppun og smá jólakortaföndur fyrir hádegið, eftir hádegið fórum við til Blaubeuren að skoða Blautopf sem er ein af stærstu uppsprettulindum Þýskalands, ákaflega fallegt, ameríska fjölskyldan kom með okkur.
Sögur af krökkunum:
Um daginn var sú sveimhuga að segja frá einhverju sem gerðist á Íslandi, hún var spurð hvort það hefði gerst heima, en hún svaraði með hálfgerðri hneikslan – „nei, það var ekki heima, það var á Íslandi!“ Nokkuð ljóst hvar heima er í hennar huga.
Sú snögga tók þátt í uppákomu á sal í skólanum á miðvikudaginn var, allir fyrstu bekkingar áttu að kynna sig og segja í hverju þeir væru góðir (tala í hljóðnema og allt!). Hún fór með perl og ætlaði að sýna það en fann ekki þegar í skólann var komið, fór aðeins að skæla, en kennarinn hennar benti henni á að hún gæti sagt að hún væri góð í íslensku og sagt eitthvað á íslensku. Þannig reddaðist það og var óskaplega gaman að tala fyrir framan alla krakkana.
Sá skapmikli heldur áfram að vinka og heilsa öllum sem hann mætir, í IKEA um daginn hnippti hann í starfskonu og sagði kampakátur „Das ist mein papa!“ og benti á pabba sinn.
Stóllinn góði er tilbúinn, smá traustabrestir - en virkar vel.
Hópurinn sem mætti í móttökuna, myndasmiður er sú sveimhuga.
Og þá er allt í einu vika liðin!
Frúin og krakkarnir þrír sinntu sínum hefðbundnu störfum fyrstu daga síðustu viku, bíllinn fór í viðgerð – að láta gera við það sem við vissum ekki að væri bilað! Fékk að því loknu skoðun hjá bifreiðaeftirlitinu hér í bæ.
Bóndinn kom svo heim frá Fróni á fimmtudag og glöddust allir.
Á föstudaginn fékk bíllinn ný númer (sem frúin fattar núna að hafa ekki enn verið mynduð, því verður kippt í liðinn sem fyrst). Engir fimleikar voru þann daginn, en undirbúningur fyrir móttökuhátíð sameignarinnar sem var haldin í gær.
Á laugardaginn fór frúin í bæjarferð með dæturnar og kom í veg fyrir heimsókn jólakattarins þessi jólin. Um kvöldið kom nýja barnapían í mat og spilamennsku.
Á sunnudaginn var móttökuhátíðin, fólki í húsunum hér í kring (fyrir utan stúdentana í stóru blokkinni) var boðið og allir komu með eitthvað að narta í frá sínu landi – pönnukökur, bæði með rjóma og sultu og sykri komu héðan. Þetta var ákaflega skemmtileg stund og allir farnir að hlakka til jólaskemmtunarinnar.
Þetta hafa því verið rólegheita dagar og helgi undanfarið, sem er ágætt, því jólastressið er handan við hornið – ef stress skyldi kalla.
Barnaskari - bóndans megin.
Nýi frændinn mátaður.
Innpakkaður hvutti.
Örlítið spilað - Kínversk skák ...
og Ólsen Ólsen.
Afi og amma heimsótt.
Barnaskari - frúarinnar megin.
Snæðings- og leikstopp á heimleiðinni.
Skógarganga með luktir.
Stuttri heimsókn á klakann er lokið, margar heimsóknir og jafnframt margir sem við sáum ekki.
Að heilsast og kveðjast, það er lífsins saga.
Þeim skapmikla fannst mikið til koma hvað allir töluðu íslensku í kringum hann á klakanum! Sú snögga var ánægð með skóla þar sem hægt var að fá heitan mat í hádeginu, þvílíkur lúxus. Sú sveimhuga var lítið sem ekkert heima og ótrúlega ánægð með hvað hún á margar góðar vinkonur.
Það var svolítið erfitt að fara aftur heim, en samt gott að vera kominn aftur hingað, að vísu er leiðinlegt að bóndinn skuli ekki koma fyrr en síðar í vikunni.
Í dag var farið í gönguferð í skóginn með vasaljós í ljósaskiptunum, voða gaman að labba í myrkrinu með vasaljósin.
Nokkrar myndir frá ferðinni fylgja, nú hefst svo daglega amstrið, látlaust fram að jólum!