Hversdagsleikinn enn á ný

Og þá er allt í einu vika liðin!

Frúin og krakkarnir þrír sinntu sínum hefðbundnu störfum fyrstu daga síðustu viku, bíllinn fór í viðgerð – að láta gera við það sem við vissum ekki að væri bilað!  Fékk að því loknu skoðun hjá bifreiðaeftirlitinu hér í bæ.

Bóndinn kom svo heim frá Fróni á fimmtudag og glöddust allir.

Á föstudaginn fékk bíllinn ný númer (sem frúin fattar núna að hafa ekki enn verið mynduð, því verður kippt í liðinn sem fyrst).  Engir fimleikar voru þann daginn, en undirbúningur fyrir móttökuhátíð sameignarinnar sem var haldin í gær.

Á laugardaginn fór frúin í bæjarferð með dæturnar og kom í veg fyrir heimsókn jólakattarins þessi jólin.  Um kvöldið kom nýja barnapían í mat og spilamennsku.

Á sunnudaginn var móttökuhátíðin, fólki í húsunum hér í kring (fyrir utan stúdentana í stóru blokkinni) var boðið og allir komu með eitthvað að narta í frá sínu landi – pönnukökur, bæði með rjóma og sultu og sykri komu héðan.  Þetta var ákaflega skemmtileg stund og allir farnir að hlakka til jólaskemmtunarinnar.

Þetta hafa því verið rólegheita dagar og helgi undanfarið, sem er ágætt, því jólastressið er handan við hornið – ef stress skyldi kalla.