Jólin nálgast

Á mánudaginn var „Bastelmittag“ í skólanum hjá þeirri sveimhuga, föndur vegna Mali basars sem var haldinn í gær.  Frúin og dæturnar skelltu sér í föndur og höfðu gaman af.

Á þriðjudaginn fór sú sveimhuga til tannlæknis, eftir það fékk frúin húsmæðraorlof og nýtti það til að skoða föt, fara í matvörubúð og skella sér á kóræfingu.  Aðventumessa á ensku verður haldin 16. des og frúin syngur með í þeim kór.

Á miðvikudag skruppum við í eins árs afmæli til lítils búlgversks drengs, þangað mættum við með pönnsur og góða skapið.  Afmælið var alþjóðlegt, búlverska fjölskyldan, við Íslendingarnir, ameríski kvenpeningurinn, kínverskt par og svo litu þjóðverjar við undir lokin.

Á fimmtudaginn var búðarferð á dagskrá, bóndann vantaði buxur og sá skapmikli vildi endilega nota tækifærið og fá sér sjóræningjabuxur, þær fundust að vísu ekki, en köngulóarmanns buxur voru ágæt sárabót.  Drengurinn fékk svo jólaklippinguna um kvöldið.

Á föstudaginn fórum við á súkkulaðimarkaðinn í bænum, krakkarnir fengu að búa til sitt eigið súkkulaði áður en stormað var í fimleika.  Eftir þá var aftur rölt í bæinn, súkkulaði sinnep keypt auk annars smálegs súkkulaðis – ákaflega skemmtilegt og bærinn fallega skreyttur.

Í gær var Mali basarinn hjá þeirri sveimhuga, þar seldist svo að segja allt upp og allir ánægðir með árangurinn.  Seinni partinn var slappað af, krakkar horfðu á jólamyndir og foreldrarnir skrifuðu á jólakort.

Í dag fórum við á jólamarkað í Honau, bæjar fyrir neðan Lichtenstein kastalann, það var afskaplega ljúft, fórum með vinnufélögum bóndans og fjölskyldu – markaðurinn lítill og notalegur.  Á heimleiðinni kíktum við á jólamarkaðinn í Reutlingen, hann er allur sölumannslegri og ekki eins kósý og sá minni.

Við fengum útskýringu á, að því er okkur finnst, skorti á á jólaljósum hér í Tübingen, hér er varla ljós að sjá í íbúðarglugga.  Það er vegna þess að borgin er í hjarta Swäbiu, sem er orðlögð fyrir ráðdeild.  Því er fjármunum ekki sóað í svoleiðis fordild hér í borg.

Sú sveimhuga komst upp á nýtt þroskastig í vikunni, tönnin sem brotnaði á laugardaginn þurfti fyllingu á þriðjudaginn, það þurfti að bora smá og deyfa – í fyrsta skipti sem eitthvað hefur þurft að gera hjá tannlækni.

Sú snögga  fékk hrós í foreldraviðtölum vikunnar – er að vísu dálítið fljótfær í stærðfræðinni (kemur á óvart) en afskaplega brosmild og vinsæl jafnt meðal nemenda og kennara.  Að eigin sögn kann hún orðið heilmikið í þýsku en bara svolitla ensku.

Mesta ósanngirni sem sá skapmikli hefur lent í var 1. des, „ég vil opna hrír!“ (Þrír þýðir semsagt margir) og tók það korter að sannfæra hann um að einn gluggi á dag væri málið, 2. des var kurteislegar spurt „má ég opna hrír?“ og neitun tekið samstundis, 3. des var ekki spurt – tekur þrjá daga að læra nýja hluti.  Hann átti svo stórleik þegar hann ræddi við afa sinn í símann – stóð í sófanum, með krosslagða fætur og handlegg á sófabakinu og ræddi málin með karlaröddinni sinni.