Forsmekkur föstunnar

Vikan hefur liðið mjög hratt, hér hefur verið horft á handbolta, leikið úti í snjónum og við fengum gesti á miðvikudaginn sem stytta alltaf vikurnar þegar þau koma.

Heimanámið hjá stelpunum hefur gengið vel og sá skapmikli verið sáttur í leikskólanum þessa viku, enda búinn að eignast nýjan vin sem er jafn gamall honum, einungis sex dagar á milli þeirra.

Sú sveimhuga fór í afmæli á laugardaginn, það fyrsta sem hún hefur farið í hér í landi og skemmti sér konunglega.  Þau voru úti að leika í snjónum og hún fékk helling af nammi.

Hér var líka pússlað mikið og þrívíddarpúsl af Nemó og Dóru kláraðist, kvenpeningurinn eyddi miklum tíma í það.

Sá skapmikli var klipptur í vikunni og hárið á systrunum snyrt.

Hér hefur snjóað heil lifandi skelfingar ósköp og virðist ekkert lát þar á, spáin segir snjókomu í kortunum daglega næstu tvær vikurnar!  Ekkert bólar á vorinu, þó forskot sé tekið á föstuna og „Fasching“ farið í gang.

Í dag, sunnudag, fórum við niður í bæ til að kíkja á hvað þetta Fasching væri hér í borg og urðum vitni að tveggja tíma langri skrúðgöngu, 79 félagasamtök, hvert með allt að 4 mismunandi búninga, gengu framhjá okkur.

Ungmenni voru þrifin upp, fólk litað í framan, húfur teknar, hárteigjur gufuðu upp, öskrað á fólk, „confetti“ pappírsrusli dreift yfir fólk og nammi gefið.  Stórkostleg skemmtun fyrir fólk á öllum aldri, þó sumir væru ekki alveg vissir um skemmtanagildið til að byrja með, þá kom það allt eftir því sem vasarnir bólgnuðu út af gotteríi.

Barátta vorsins við veturinn gekk ekki sem skyldi, það var hundslappadrífa hluta tímans sem við vorum niðri í bæ og handboltaleikurinn laut í lægra haldi fyrir þessari skemmtan.

Stefnan er sett á fleiri svona hátíðir áður en yfir líkur og jafnvel að draga fleiri með okkur á þær.

Nú er farið að telja niður í fyrstu heimsókn frá Íslandi á þessu ári, tæpar tvær vikur í eitt sett af ömmu og afa og mikil tilhlökkun yfir því – sá skapmikli spyr reglulega, „eru þau komin?“

Á heimleið úr leikskólanum í vikunni tilkynnti hann að hann vill bara fá „vondar“ gjafir og helst eiga allir í fjölskyldunni að vilja það líka.  Vondar gjafir eru víst risaeðlur, ljón, riddarar og annar óþjóðalýður!

Sú sveimhuga missti eina tönn fyrir rúmri viku, eldhress með það og vill helst missa fleiri, enda munar sorglega litlu á því hvað þær systur hafa misst margar tennur.

Sú snögga var hissa á því í vikunni að mamma sín gæti hlaupið næstum því jafn hratt og hún sjálf!  Dregur svo bróður sinn eins og herforingi á þotu heimleiðis úr leikskólanum, alla vega svona 50 metra eða svo – vill eftir það  gjarnan sitja hjá bróðurnum á meðan frúin dregur þau bæði það sem eftir er af sleðafæri.