Tómlegt kot

Þá eru fyrstu gestir frá Íslandi þetta árið komin og farin – alltaf er nú hálf tómlegt í kotinu þegar góðir gestir hverfa heim á leið.

Á mánudaginn var sú snögga lasin, fékk hita í kjölfar gubbunnar á sunnudag og lá í bóli frúar allan daginn og vildi fá að vera þar í friði.  Afinn, frúin og hressu börnin fóru út í brekku og skemmtu sér frábærlega, fyrir utan eitt smávægilegt sleðaslys.  Frúin skrapp með afa og ömmu til Reutlingen í smá verslunarferð eftir að bóndinn kom heim.

Á þriðjudag var stúlkan hressari og vildi fá að fara í föt, eitthvað var dúllast heimavið, afinn og frúin skruppu í göngutúr um Wanne hverfið og um kvöldmatarleitið fór hersingin, fyrir utan frú og þá snöggu, í franska hverfið þar sem nornin var brennd!  Var samkoman hálf skuggaleg og fámenn, en ákaflega skemmtileg.

Á miðvikudag var loksins eitthvað gert og við skruppum til Stuttgart í Wilhelma dýragarðinn, þar var gaman að vanda og sá skapmikli þrammaði sjálfur um allan garðinn, allan daginn.  Nesti var með í för og etið inni hjá fiðrildunum, þar var hlýtt og gott.  Litla górillan Claudia var algjört krútt eins og nafnan. 🙂  Við tókum lestina fram og til baka og nýttu sér það sumir á heimleiðinni að þurfa ekki að keyra og dormuðu.

Á fimmtudag röltum við yfir í Waldhausen Ost á leikvöll með skemmtilegu tré – gott að klifra þar, tókum svo strætó heim, þar sem sú sveimhuga var á leið í afmæli.  Eftir að bóndinn kom heim var farið með afa og ömmu í blómabúðaferð þar sem laukar voru keyptir.  Ferðin sú hófst að vísu á því að frúin skellti í lás á eftir sér – án þess að vera með nokkra lykla eða síma, þurfti því að bíða eftir bóndanum til að komast í bíllyklana!

Á föstudag röltum við á listasafnið hér í Wanne og þaðan með strætó niður í bæ að skoða minnismerki um Silcher á Neckar eyjunni, það fór að hellirigna þegar við komum út af safninu og ringdi fram eftir kvöldi.  Við borðuðum Schwäbískt á Wurstküche – allir hálf kaldir og rakir.  Fullorðna fólkið spilaði svo örlítið þegar heim var komið.

Á laugardag gengum við yfir til Bebenhausen og kíktum á klaustrið og villisvín, bóndinn og afinn gengu heim en hin tóku strætó – sá skapmikli búinn að ganga sjálfur í nokkra klukkutíma!  Eftir Maultaschen og kartöfflusalat spilaði fullorðna fólkið á meðan krakkar horfðu á sjónvarpið.

Í morgun var vaknað snemma, enda kveðjudagur – afinn og amman tóku lestina um 9 í morgun og síðan hefur lítið verið gert!  Hversdagurinn tekur við á morgun, skóli, leikskóli og verkefnavinna – framundan er 5 vikna törn í mastersverkefnum hjónanna – þá koma páskar, París og fleiri gestir!  Alltaf nóg að gera. 🙂

One reply on “Tómlegt kot”

  1. Greinilega í nógu að snúast hjá ykkur, flottar myndir. Mannamyndir sem og dýramyndir;) Gangi ykkur vel í törninni Árný mín og til hamingju með daginn.

Comments are closed.