Vorhret

Passlega var nú búið að hrósa því að hér væri komið vor!

Fyrrihluta vikunnar og fram í hana miðja var sá skapmikli heima vegna hálsbólgu og hitavellu á meðan systur hans stunduðu skólann.  Því var lítið gert annað en að föndra og dúllast inni við, nema hvað systur fóru út að leika á línuskautum á miðvikudag á meðan frúin kenndi einni kínverskri að prjóna húfu.

Einföld uppskrift af snúðum hvarf um kaffileitið þann daginn þegar 5 stúlkur komu inn eftir mikið puð útivið.

Á fimmtudag skruppum við með Ameríkönunum á leikvöll í vesturbænum sem var mjög skemmtilegur, á leiðinni heim þaðan versluðum við, komum rétt heim til að elda og spjalla við barnapíuna þar sem frúin og bóndinn voru á leið út á lífið!

Ferðinni var heitið í Sudhaus, hér sunnan við Tübingen, með krúttunum frá Holtzgerlingen – fyrrverandi nágrannanum og mömmu hennar.  Pétur Ben var með ofurkrúttlega tónleika í Sudhaus og heillaði alla upp úr skónum með frábærum gítarleik, stórgóðum söng og almennum krúttlegheitum.  Sérstaklega þegar hann svaraði tryggingasölukonu í miðju „Billy Jean“ og stillti svo gítarinn sinn inni í „I’ll be here“.  Algjört yfirkrútt!

Á föstudag voru fimleikar og sund og svo kvöldstund með ARD þar sem verið er að velja „Unser star für Oslo“ – sem sagt söngvarann/-konuna sem fer til Oslóar í Evróvision keppnina.

Á laugardaginn vöknuðum við svo við alhvíta jörð!  Það snjóaði allan daginn og var eiginlega hálfgerður skafrenningur um tíma.  Ameríkanarnir komu í kaffi – athöfn sem þeim var algjörlega ókunn áður en þau komu hingað til Þýskalands!

Í dag, sunnudag, fóru krakkarnir svolítið út að leika í snjónum, annars hefur verið föndrað örlítið, bóndinn blés tvö egg fyrir þann skapmikla sem þarf að taka þau með í leikskólann og við bara tekið því rólega.

Vorhretið á að standa í tvær vikur eða svo – frost og snjór í kortum næstu dagana, svo einhver bið verður á frekari vorkomu.

Fyrir forvitnissakir þætti frúnni gaman ef lesendur skildu eftir stutt skilaboð í athugasemdakerfinu hér fyrir neðan – langar að vita hverjir kíkja við 🙂

15 replies on “Vorhret”

 1. Hæ ég er með – fylgist með! Baráttukveðjur, ekki hætta!

 2. Ég fylgist stöku sinnum með, alltaf jafn skemmtilegar færslurnar þínar.
  Bestu kveðjur, SA

 3. Ég kíki reglulega við, frábærar færslur hjá þér.
  Kveðja, Lína í Grundarfirði Ísland:)

 4. Fylgist með ykkur í daglegu lífi og ævintýrum í Tübingen og nágrenni – frábært líka að fylgjast með veðri og viðburðum á „okkar slóðum“.

 5. Árný mín
  ég les alltaf, þú veist það, takk fyrir að leyfa mér að fylgjast með,
  amma Fríða

 6. Ég fæ nú bara Heimweh ;o)
  Ég held ég hafi nú kíkt á þetta áður hjá þér, en ég er að hugsa um að koma reglulegar við hérna!!!

 7. Kvitt.
  Gaman að fylgjast með ævintýrum ykkar í Þýskalandi.

  Kv. Lóla

 8. Hæ,hæ kæra vinkona !!

  Fylgist reglulega með ykkur í útlandinu og gaman að sjá hvað vel gengur með allt og allt 🙂

  Bestu kveðjur yfir hafið
  xxx
  Hugrún

Comments are closed.