Amsterdam og eldgos

Enn ein vikan að baki, þessi var hefðbundin að venju – nema að Ameríkanarnir eru á Grikklandi, svo ekkert var leikið við þær þessa vikuna.

Á mánudag voru íþróttir hjá þeim skapmikla og þeirri snöggu eftir skóla og á þriðjudag hjá þeirri sveimhuga.

Á miðvikudag kom bekkjarsystir þeirrar snöggu í heimsókn og var fram eftir degi, um leið og henni var skutlað heim skrapp sú snögga til annarrar bekkjarsystur og með henni í leikfimi – nóg að gera í félagslífinu!

Á fimmtudag fórum við til fyrrverandi nágrannans – þau eru flest að skreppa heim í frí, svo þau voru kvödd í bili.  Sú snögga spurði frúna um daginn hvar nágranninn ætti heim í alvörunni, sko á Íslandi?  Þegar henni var svarað að þau byggju í alvörunni hér og ættu ekki hús þar kom spurningin: En af hverju eiga þau þá ekki dýr?

Hér er beðið um gæludýr svo til daglega um þessar mundir og mikið velt fyrir sér hvaða gæludýr eigi að fá þegar til Íslands verður komið og hverju megi fórna svo hægt verði að fá dýr!

Á föstudag voru fimleikar og sund að venju, heimagerð pizza og svo Barbie mynd í sjónvarpinu – á meðan krakkarnir voru límd við skjáinn var tækifærið notað og þau klippt fyrir sumarið.

Á laugardag var þrifið á pallinum, lauf hreinsuð upp og lagað til – allir með nema sú sveimhuga, hún fór í sund með kínversku bekkjarsysturinni.  Þegar hún kom aftur heim var bóndanum ekið á flugvöllinn í Stuttgart, hann fór til Amsterdam á fund – þurfti að vísu að fljúga í gegnum Zürich, eins bein leið og það nú er. 🙂  Á heimleiðinni af flugvellinum skruppum við í byggingavöruverslun og keyptum svolítinn sand (75 kg – smá strengir í dag eftir að hafa borið það niður í 3 ferðum) í lítinn sandkassa sem verður vonandi keyptur á morgun, mánudag.  Við keyptum líka 3 lítil blóm til að skreyta hér úti.

Í dag, sunnudag, skruppum við á apaleikvöllinn í Entringen og vorum þar þangað til okkur ringdi næstum því niður!  Komum heim og poppuðum og enn er boðið upp á Barbie myndir í sjónvarpinu – frúin veltir því fyrir sér hvað sé eiginlega búið að gera margar svoleiðis myndir!

Bóndinn kemur heim aftur mjög seint á mánudagskvöld – hann sendi SMS í morgun (sunnudag) og lét vita af því að gos væri byrjað í Fimmvörðuhálsi, umsvifalaust var sendur út póstur til vina og kunningja hér til að láta vita af þeim fréttum!

Vorið er aldeilis komið hér, í vikunni er spáð upp að 20 stiga hita, hefur verið vel yfir 10 stig alla daga þessarar viku, allt upp í 17 í gær 🙂

Það styttist óðum í páska, Parísarferð og næstu gesti – allt að gerast á þessum bæ, næsta vika mun örugglega líða jafn hratt og undanfarnar.

Join the Conversation

2 Comments

  1. Takk fyrir fréttirnar og myndirnar, hvað það er létt yfir Loga snoðinkolli, Unu prýðir síða hárið og Hrefna fullorðinsleg með þykka haddinn sinn. Fríða Björg og bræðurnir eru í Vík, ekki svo langt frá eldgosinu, en það er engin hætta á ferðum nema fyrir þau hross sem ekki verður hægt að hýsa –

    amma Fríða

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *