Bergfest og flutningar

… ekki samt okkar flutningar. 🙂

Bergfest er hugtak sem notað er yfir verkefni eða tímabil sem er hálfnað – dvöl okkar hér í Þýskalandi er senn að verða hálfnuð, alla vega hjá bóndanum.  Eitthvað mun styttast í annan endann hjá hinum í fjölskyldunni.  Nóg um það nú, meira síðar.

Á mánudaginn varð frúin vör við maurainnrás í íbúðinni, stóð í stórfelldri slátrun fram eftir degi og taldi sig hafa haft sigur!

Skólastúlkurnar fóru á leiksýningu í boði skólans og foreldra í LTT (Landsteater Tübingen) og skemmtu sér konunglega.  Bóndinn kom frá Amsterdam eftir miðnættið og svaf því örlítið út á þriðjudeginum.

Seinni partinn á þriðjudeginum var páskakaffi á deild þess skapmikla, foreldrar mættu með veitingar (pönnsur héðan sem hurfu eins og dögg fyrir sólu), mikið var spjallað og deildin skoðuð.  Verið er að skreyta hana með páska/vor/sumar skreytingum.

Sú sveimhuga lenti í smávægilegu ævintýri, hún var í leikfimi þegar kaffið byrjaði og átti að koma sér sjálf á leikskólann.  Frúin fór fram í gætt öðru hvoru til að athuga með hana.  Þegar sást til hennar rúmum klukkutíma eftir að leikfimi lauk var hún búin að reyna að komast inn á leikskólann, það mistókst svo hún fór heim og aftur til baka aftur niður á leikskólann!  Óttalegt ævintýri það!

Á miðvikudeginum var heimalærdómur og dól úti í góða veðrinu með Ameríkönunum, fimmtudagurinn leið eins og vanalega og á föstudegi var sundinu sleppt eftir fimleikana.

Þann dag hafði páskahérinn falið litlar pappírskörfur sem leikskólakrakkarnir höfðu gert.  Þær fundust svo eftir svolitla leit úti í garðinum og hafði góðgæti verið komið fyrir í þeim, súkkulaði, harðsoðið egg og smákökur voru fyrir hvert einasta barn.  Við fengum svo gesti í kvöldmat sem fögnuðu „Bergfest“ með okkur og var það ákaflega notalegt.

Á laugardagsmorgni kom í ljós að ekki hafði tekist að komast fyrir mauraóværuna, hún er búsett undir gólfdúknum og voru íbúarnir þar lokaðir inni með kanildufti og stefnan sett á að kaupa eitur eftir helgina til að losna við þá.

Nú um helgina höfum við svo aðstoðað vini okkar, íslensk/þýsk/amerísku fjölskylduna við flutninga.  Þau fluttu yfir í annan bæ hér suður af Tübingen og hefur tíminn farið í þá aðstoð.

Aðfararnótt sunnudags var tímanum breytt yfir á sumartíma, svo klukkutímanum á milli 02-03 var sleppt.  Líklegast verður eitthvað snúið að vekja alla í skólann í fyrramálið, en hér er skóli fram á miðvikudag og leikskólinn opinn á skírdag.

Sú snögga missti eina tönn enn á sunnudagskvöldið, þá eru farnar 8 stykki!  Sú sveimhuga missti eina um daginn – sína 10. höldum við, sá skapmikli hefur miklar áhyggjur af þessum tönnum sem detta í sífellu úr systrum hans, athugar reglulega hvort sínar tolli ekki örugglega vel!

Join the Conversation

3 Comments

  1. Las færsluna þína ekki fyrr en á mánudagskvöld. Ég talaði við þrjá fjölskyldumeðlimi í síma í dag en fékk ekki að heyra um tannamissi, maura né laiksýningu Loga. Takk Árný mín, amma Fríða

  2. glelelele paska!

    ef thetta maura-vesen tekur sig upp aftur tha hef eg heyrt og sannreynt ad piparmynta se i hugum maura algjort oged. tha er graupplagt ad taka piparmyntulauf og mylja/mauka og setja oliuna sem kemur ur thessu a leidina mauranna. held ad lyktin kaefi theirra merkingar og thannig viti their ekki lengur hvert their eiga ad fara. (eflaust einhver visindaleg skyring til og a betri islensku lika…)

    knus
    h.

  3. Já Hrönnsa, ég vona að mauravesenið sé búið – kanillinn virkaði vel, en ég vildi bara drepa greyin. 🙂 Kanillinn hélt þeim svo til algjörlega inni í búinu, prófa kannski piparmyntuna næst – ef það verður eitthvað næst.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *