París – varúð, löng færsla.

Á annan í páskum var haldið áfram að japla á súkkulaði og pakka niður fyrir Parísarferðina miklu.

Á þriðjudagsmorgninum tókum við strætó niður að lestarstöð og lest þaðan til Stuttgart.  Þar skiptum við um lest og fórum í hraðlest sem átti að skila okkur til Parísar á þremur og hálfum tíma.  Það tókst ekki alveg, því lestin bilaði á leiðinni og tók ferðin því rúma fimm tíma!

Eftir ferð með Metro og töluverðan flæking í kring um Pompidu safnið hringdum við í íbúðareigandann sem kom og sótti okkur út á götu og lóðsaði okkur í íbúðina sem var stórfín og mælum við eindregið með henni.  Við röltum á „veitingastað“ – gamli bóndinn varð fyrir valinu þar sem komið var langt fram yfir háttatíma.

Á miðvikudeginum höfðum við mælt okkur mót við Parísardömuna, áður en við hittum hana kíktum við aðeins á Notre Dame – kirkjuna hans Quasimodos og röltum í rólegheitum yfir á Vinstri bakkan þar sem við hittum dömuna.  Hún rölti með okkur í dágóða stund og sagði okkur sögur af París og latínuhverfinu sem við gengum um, einstaklega áhugavert og skemmtilegt – við stoppuðum við í Skítafýlustræti og fengum okkur „kreppur“ (Crépes) með osti, keyptum ný jarðarber, sáum pínulitlar götur og risastór hús.  Sorbonne var miðstöð æsings, þar voru löggur á hverju horni og við biðum eftir annað hvort sprenginu eða stórmenni, en urðum vör við hvorugt.

Við röltum á eitt safn (Cluny safnið) og keyptum safnakort og komum svo við á tehúsi í moskunni, sem er ákaflega falleg og Aladínar upp um alla veggi – sá skapmikil var stoltur af því að prófa salerni Aladíns! Fengum okkur ljúffengt te og gengum svo yfir í Grasagarðinn, þar skildum við við Parísardömuna og skoðuðum dýragarðinn.

Labbið heim var frekar langt og stoppuðum við á ítölskum veitingastað, sá skapmikli hafði sofnað á herðum móður sinnar en vaknaði til að borða.  Hresstust allir við næringuna og á heimleiðinni fórum við upp í Pompidu og sáum ljósaskiptin í borginni þaðan.

Á fimmtudeginum var heldur svalt – dagurinn hófst á lestarferð að Effelturninum, reyndar þurftum við að ganga töluvert af leiðinni, þar sem of löng bið var eftir lestinni sem fór alla leið.  Upp fórum við, eins hátt og komist var, sá skapmikli var að vísu mjög mótfallin því að fara svona hátt – en hann sofnaði í biðröðinni að efri lyftunni svo það slapp til.  Útsýnið þarna uppi er magnað – en líklegast er nóg að gera þetta einu sinni á ævinni.

Við tókum lest að D’Orsay safninu og skoðuðum örlítinn hluta af því, þolinmæði yngra fólksins var ekki sú mesta.  Við gengum svo yfir að Louvre sem við skoðuðum ekki – gengum hins vegar í gegnum Tuileries garðana.  Þar sáum við krakka sem fleyttu bátum á tjörn, okkar krakkar fóru í hringekju og svo á trampolín sem staðsett eru í vestari enda garðanna.

Áfram var gengið upp Champs Elysees breiðstrætið – við stoppuðum á Hippopotamus veitingastað sem er algjörlega sniðinn að fjölskyldum, gott verð og hinn ágætasti matur.  Við fórum upp að Sigurboganum (sem sú sveimhuga vildi kalla Silfurbogann fyrsta daginn) og þar upp – sá skapmikli var ekki alveg á því að fara upp allar þessar tröppur, hann gæti hæglega dottið!  Upp fórum við samt og útsýnið þaðan er magnað! Við sáum kvöldljós borgarinnar og glitrandi Effelturninn – erum frekar á því að fara oftar upp í Sigurbogann heldur en turninn.  Eftir allt labb dagsins var ákveðið að taka lestina heim.

Á föstudeginum gengum við út í stærri eyjuna og skoðuðum tvær kirkjur, Saint Chapelle og Notre Dame, við hættum okkur ekki upp í turninn þar með krakkana – röðin var fáránlega löng og frekar mikill stífleiki við fleiri tröppum!  Kreppur voru aftur hádegismaturinn, skoðað í minjagripabúðir og svo fórum við að minningarreit um fórnarlömb Helfararinnar sem er staðsettur á bak við Notre Dame.  Aldurslágmarkið þangað inn var 7 ár – sú snögga slapp samt inn, en frúin og sá skapmikli biðu fyrir utan.  Bóndinn fór svo með krakkana á leikvöll fyrir aftan Notre Dame á meðan frúin fór inn.

Þaðan var rölt yfir á minni eyjuna þar sem átti að vera besti íssali í París – við keyptum ís og hann var ljúffengur.  Áfram var gengið í átt að Bastillunni, stoppað á einum leikvelli og minnismerkið skoðað úr hæfilegri fjarlægð.  Röltið heim á leið var rólegt labb, við litum svo aðeins aftur inn í Pompidu, þar var 50 ára yfirlitssýning á verkum Errós í einum salnum.

Um kvöldið fórum við á hundódýran stað, Flunch, við vorum óheppin að heill bekkur af ítölskum unglingum voru rétt á undan okkur inn, svo við þurftum að bíða heillengi í röðum eftir aðalrétti, því að borga og meðlætinu.  Maturinn var allt í lagi, mælum með þessum stað – nema kannski rétt akkúrat á matmálstíma.

Á laugardeginum var haldið heim, tókum Metro að Gare de l’est og hraðlestina þaðan, hún hélt réttum hraða alla leið svo við náðum lestinni okkar heim til Tübingen.  Alltaf er nú gott að koma heim.

Þegar frúin skrapp í búð til að kaupa inn fyrir helgina datt hún inn á hárgreiðslustofu og bað um að láta klippa sig stutt.  Hárgreiðsludaman rétti frúnni bækur svo hún gæti fundið það sem hún vildi – frúin svaraði því til að hún vildi stutt sem ekki þyrfti að hafa neitt fyrir.  Hárgreiðsludaman sagði að það þyrfti nú alltaf að hafa svolítið fyrir útlinu – og að frúnni færi sítt hár mjög vel.  Loksins fór þó hárið af og átti daman ekki orð yfir breytingunni á frúnni, hún væri gjörsamlega óþekkjanleg, þó að henni fyndist hún sjálf bara koma í ljós undan lubbanum.

Á sunnudegi var þvegið, gengið frá og skroppið í hljólreiðatúr í Grasagarðinn – sá skapmikli hjólaði sjálfur á sínu hjóli, svo frúin var á hlaupahjóli til að geta aðstoðað hann.  Í Grasagarðinum eru mörg tré í blóma og græn slikja um það bil að leggjast yfir garðinn.

Í næstu viku koma gestir, það verður gaman að fá fólk að heiman.