Rigningarvika

Ekki stóð vorblíðan lengi, þessa vikuna hefur rignt á hverjum degi og verið frekar svalt – eiginlega kalt suma morgnana, en það er víst að breytast. 🙂

Á mánudaginn gekk allt sinn vanagang, nema hvað óvanalega lítið heimanám var hjá þeirri sveimhuga.

Á þriðjudegi skrapp öll fjölskyldan saman í matvörubúð, nokkuð sem gerist varla – og við rifjuðum upp hvers vegna það er. 🙂

Á miðvikudegi fór frúin við fjórða mann í heimsókn til fyrrverandi nágrannans sem er loksins komin heim aftur eftir lengda dvöl á klakanum og voru það ljúfir endurfundir.

Á fimmtudegi var þvílík ausandi rigning að þegar frúin og sá skapmikli komu heim úr leikskólanum (sú snögga ákvað að bíða ein heima og læra á meðan) voru þau bæði blaut inn úr öllu!  Krakkarnir fóru samt út að leika seinnipartinn, vel gölluð og skemmtu sér konunglega að hoppa í pollum og sulla.

Á föstudegi voru fimleikar og sund eins og vanalega – bóndinn grillaði í fyrsta sinn þetta vorið og voru Döner spjótin ljúffeng.

Á laugardegi skrapp fjölskyldan í smá skoðunarferð í yndælis veðri, fyrsta stopp var í Zwiefalten, þar er bruggaður klausturbjór, en bærinn er ekki síður þekktur fyrir hina ægifögru barrokk kirkju sem þar er.  Í sem stystu máli voru allir fjölskyldumeðlimir orðlausir yfir fegurðinni þar inni – meira að segja sá skapmikli varð þögull!  Að vísu var svo kalt þar inni að hann ásamt þeirri snöggu fóru út á undan til að ylja sér.

Eftir að hafa rölt um fyrrverandi klausturgarða (núverandi geðspítala) ókum við upp að helli sem Wimsenerhöhle heitir.  Það er frekar lítill hellir – alla vega sá hluti sem hinn almenni ferðamaður getur séð, en hann er fullur af vatni og þarf að fara inn í hann á báti.  Það er víst hægt að kafa þar, dýptin er um 60 metrar, en það er mjög hættulegt og er sjaldan gert.  Í hellinum er óskaplega tært vatn og þar þrífst ekkert líf, fyrir utan smá mosa við rafljósin í loftinu.  Í boði var ókeypis minjagripur og þurfti ekkert annað að gera en að  reisa sig upp á réttum stað til að taka með heim fyrirmyndar kúlu á hausnum!

Þaðan ókum við að bóndabæ, Loretto.  Þar er framleiddur geitaostur og eitthvað fleira, geiturnar voru ekki heima en lyktin var það. Leikvöllurinn var skemmtilegur og bóndinn kom heim með geitaost.

Í litlu þorpunum í Ölbunum mátti víða sjá maístangir, það eru jólatré, negld á stóra trjáboli, skreytt með merkjum þeirra iðnstétta sem eru hvað algengust í héraðinu og reist á 1. maí.  Stöng þessi stendur svo eitthvað fram eftir sumri, svolítið misjafnt hversu lengi.

Í dag, sunnudag, var alþjóðlegt hádegissnarl hér í kjallaranum.  Allir gestir komu færandi hendi og var margt ljúffengt í boði.  Mikið var spjallað og skipst á upplýsingum.  Um kaffileitið komu svo þau íslensk/þýsk/amerísku – frúin og sú íslensk/þýska eru víst fimmenningar – alveg náskyldar! Gaman var að hitta þau aftur enda langt síðan við höfum haft færi á að spjalla.

Næsta vika verður stutt í skólanum, uppstigningardagur og starfsdagur á föstudeginum í skólanum.

Ekki nema 10 dagar í Íslandsferð og spennan eykst.