Heima á ný

Íslandsferðin tók enda allt of fljótt, þó alltaf sé gott að koma heim í sitt rúm og sæng.

Á mánudegi ókum við austur fyrir fjall og allt að Skógafossi, það var mikil aska í loftinu og sérkennilegt að upplifa þetta ástand í augnablik.  Merkilegt að moka ösku úr grassverðinum í krukku til að gefa vinum í Þýskalandi og einnig að vita af sól og blíðu fyrir ofan öskuskýið.  Eftir ferðina þurftu allir að fara í sund til að skola af sér öskuna.

Á þriðjudegi fórum við í bæinn, heimsóttum bókaútgáfur og ferðamannaverslanir, hittum tengdamömmu og bróður bóndans.  Sú sveimhuga fór og kvaddi vinkonur og stórfjölskyldan safnaðist saman hjá ömmunni og afanum í kvöldverð.

Nánast fyrir dögun á miðvikudegi var ætt af stað út á flugvöll – eins og vanalega.  Allt gekk venju samkvæmt og kom á óvart hvað krakkarnir voru sátt við að fara aftur heim.  Þangað vorum við komin fyrir kvöldmat, nægilega snemma til að hægt væri að komast í búð þar sem fimmtudagur var helgidagur og allar verslanir lokaðar.

Á fimmtudegi var Fronleichnam, kaþólskur helgidagur – við fórum niður í bæ með Ameríkönunum til að fylgjast með siglingarkeppninni árlegu, það helliringdi eins og vikurnar tvær þar á undan!  Icelandair liðið með eldfjallinu komst ekki á blað – en við hrópuðum stuðning til þeirra.

Á föstudegi brast á með brakandi blíðu, eftir skottúr í IKEA fórum við ásamt ameríska kvenpeningnum til Saurucken við Entringen.  Þar er útivistarsvæði með afgirtum villisvínum, dádýrum og geitum, þremur grillsvæðum, læk og leiktækjum.  Vorum við þar fram undir kvöldmat í tæplega þrjátíu stiga hita og sól.

Á laugardegi var alþjóðleg Afríkuhátíð í bænum, við skruppum þangað og seinna um daginn í mat til vinnufélaga bóndans.  Þar var setið úti til að verða 10 um kvöldið í ljúfu sumarveðri.

Á sunnudegi ókum við yfir í Svartaskóg og heimsóttum Árbæjarsafn þeirra – Freilichmuseum heitir það.  Ekki voru nein kot þar til sýnis – sumir búgarðarnir svakalega stórir.  Svo voru kindur, geitur, kýr, hestar, hænur og gæsir sem þáðu grastoppa frá krökkunum.

Á mánudegi fer lífið aftur í fastar skorður, skólinn byrjar aftur hjá stelpum og leikskóli hjá þeim skapmikla – svo bíðum við spennt eftir fyrstu gestum sumarsins og vonum að veðrið leiki við þau.