Og þá er kominn júlí!
Á þriðjudegi fóru krakkar aftur í sinn hefðbundna pakka, sú sveimhuga fékk óvanalega mikið heimanám þar sem hún hafði verið í fríi á mánudegi – fór samt í íþróttatímann sinn og lærði svo frameftir. Sú snögga hafði aftur á móti lítið heimanám þar sem kennarinn sagði að þau ættu að leika sér.
Á miðvikudegi fór sá skapmikli í heimsókn til vinar síns hér örlítið frá – systur voru tvær heima í rúma klukkustund. Vinurinn er af aðeins öðru þjóðfélagsþrepi en við og var merkilegt að heimsækja hann – og voða gaman, ekki síst að synda í 33 gráðu heitu stóru lauginni í garðinum. Fyrir kvöldmat kom bróðirinn aftur með fjölskylduna eftir heimsókn til Vínar og Bratislava.
Á fimmtudegi var heitt og því skroppið í Freibad eftir heimanám – gott að slaka á þar og kæla sig í vatninu. Sú sveimhuga missti eina tönn til viðbótar og hafa þá samtals þrettán tennur dottið.
Á föstudegi skruppu bróðirinn og fjölskyldan í Albana, til Lichtenstein, Ævintýragarðinn og til Zwiefalten. Hér heima þurfti að undirbúa afmæli.
Á laugardegi hafði hugmyndin verið að fara í dýragarðinn, en spáin var heit svo það var ákveðið að fara á safn, Löwentor, þar sem sjá mátti steingerfinga og beinagrindur – mjög skemmtilegt. Þegar heim var komið skruppu bóndinn og bróðirinn í tjald í Waldhausen Ost og horfðu á leikinn þar í stórum hópi fólks.
Á sunnudegi var haldið fjölskylduafmæli fyrir þá snöggu, en hún verður 7 á mánudegi. Hér var eldað afrískt og muffins í eftirmat. Eftir að afmælinu lauk skruppum við í litlu Ameríku og tókum þátt í 4. júlí hátíðarhöldum með fyrrverandi nágrannanum.
Á mánudegi koma nokkrir bekkjarfélagar þeirrar snöggu og svo verður eitthvað bardúsað með gestunum í vikunni. Hér er heitt – var yfir 30 stiga hiti á laugardegi og aðfararnótt sunnudags var brjálað þrumuveður, það stóð yfir í ríflega einn og hálfan klukkutíma um miðja nótt og vöknuðu flestir í húsinu. Eitthvað svalara verður fram eftir viku en svo hitnar aftur.