Annasamt frí

Á föstudaginn eftir að síðast var bloggað fór fjölskyldan til litlu Ameríku til að fagna 6 ára afmæli tvíburasona fyrrverandi nágrannans, það var haldið í keiluhöllinni og allir spiluðu, átu og skemmtu sér konunglega.  Komið var heim seint og um síðir.

Á laugardagsmorgni skruppu mæðgurnar í smá verslunarferð í miðbæinn, keyptu eitt og annað skemmtilegt.  Eftir hádegið var stefnan sett á Neu-Ulm og gömlu vinirnir þar heimsóttir, ríflega ár síðan við sáum þau síðast!  Eins og maðurinn sagði, það er skammarlegt hversu lítið við höfum hist – en nú verður gerð bragarbót þar á!  Við spjölluðum, fórum á leikvelli og vorum enn og aftur seint á ferðinni heim – krakkarnir sofnuðu í bílnum þriðja kvöldið í röð og það fjórða af fimm síðustu kvöldum!

Á sunnudegi tókum við því rólega, fórum út með flugdreka og fengum nýju Ameríkanana í mat um kvöldið – ákaflega notalegt fólk sem við munum örugglega eiga mikil samskipti við næstu mánuði.

Á mánudegi var aftur farið að versla, skólafötin nú komin fyrir veturinn, eftir hádegið skrapp sá skapmikli til vinar síns en þeir höfðu ekki hist í rúmar þrjár vikur!  Hann ákvað svo að tími væri til kominn að fara aftur í leikskólann, svo að…

á þriðjudagsmorgni fór hann þangað til að leika við strákana.  Eftir hádegið fórum við á apaleikvöllinn í Entringen og vorum þar fram eftir degi.  Bóndinn var á símafundi fram undir kvöldmat.

Á miðvikudegi ætluðum við að finna leikvöll í Eningen, austan við Reutlingen, en það gekk ekki svo við enduðum á leikvelli í vesturbæ Tübingen þar sem krakkarnir rennbleyttu sig og skemmtu sér afskaplega vel.  Frúin fór svo seinnipartinn og dressaði sig upp fyrir veturinn.

Á fimmtudegi fékk sá skapmikli að halda strákaafmæli, svo sjóræningjastíll var á deginum, þrír vinir komu og var óskaplegt fjör hjá þeim öllum.

Í fyrramálið er stefnan tekin á Prag – næst bloggað eftir að heim verður komið í næstu viku.

Stúlkur hlakka mikið til að byrja í skólanum eftir rúma viku og sá stutti er sæll með að vera byrjaður aftur í leikskólanum.