Prag – og hrunin tölva!

Á föstudaginn var keyrðum við af stað til Prag, fórum um 10 um morguninn og ætluðum um 6 tíma í ferðalagið.  Eftir um 40 mínútna akstur varð ljóst að það tækist ekki – STAU!  Í fyrsta skiptið af nokkrum – ferðin tók samt ekki nema um 7 tíma og þegar gatan í Prag var fundin var skilti fremst í henni sem sýndi alla umferð bannaða!  Bóndinn stökk út og rölti inn að húsinu á meðan frúin hringsólaði til að finna aðra aðkeyrslu að götunni, þar sem það tókst ekki, ók hún á  móti skiltinu og ákvað að textinn fyrir neðan þýddi „nema þeir sem þurfa svakalega mikið að keyra inn þessa götu!“

Eftir að hafa komið farangri fyrir og bílnum í nálægri geymslu, röltum við út að Moldóvu og á leikvöll á eyju í ánni, þar sem krakkarnir fengu útrás eftir langan dag í bílnum, heima var svo eldað og skriðið í ból.

Á laugardegi röltum við frekar snemma af stað, framhjá leikhúsinu og inn í bæinn, skoðuðum „Maríubúðir“, þar sem sá skapmikli hafði óskaplega gaman af því að skoða strengjabrúðurnar – eða Marjonetturnar.  Dótabúðir, minjagripaverslanir og leikfangabúðir voru líka spennandi, rétt fyrir hádegið vorum við komin að stjarnfræðiklukkunni sem stendur við stærsta torg í Evrópu og sáum dýrlingana kíkja út og gaurinn spila á trompet í turninum.

Þaðan gengum við niður að Karlsbrúnni og fórum upp í turninn þar við brúarsporðinn.  Hinum megin við brúnna fundum við leikvöll – á leiðinni að honum sáum við líka skemmtilegan gosbrunn.  Við röltum svo heim í gegnum bæinn og borðuðum á leiðinni.

Á sunnudegi gengum við meðfram ánni niður að Karlsbrúnni, yfir hana og upp að kastala.  Þangað komum við fyrir hádegið og passaði ljómandi vel að bíða eftir varðmannaskiptunum, eftir að sú athöfn var um garð gengin kíktum við örlítið inn í kirkjuna og fórum svo niður tröppurnar 190!  Við gengum yfir næstu brú neðan við Karlsbrúna og inn í Gyðingahverfið, þar rákumst við á sýningu frá „Prag fashion week – to the streets“ og sáum nokkur módel sýna sig og föt á pöllunum.  Þaðan fórum við á stóra torgið þar sem við sáum lausa hestvagna, svo við skelltum okkur í svoleiðis ferð um miðborgina og var ákaflega notalegt að sitja í plussklæddum mjúkum sætum í svolitla stund.

Úthvíld röltum við í áttina að Púðurturninum, stoppuðum í sælgætisverslun þar sem verið var að búa til brjóstsykur og fylgdumst við með því frá upphafi, krakkarnir fengu gefins afskurð sem var enn volgur!  Þegar lengjurnar voru tilbúnar voru þær brotnar í mola og áhorfendur fengu að smakka tilbúna afurð.

Þegar við komum upp að Púðurturninum voru hjónin efins um hvort ætti að príla upp, en krakkarnir hoppuðu upp og niður og hrópuðu „upp í turninn, upp í turnin!“  Því var gefið eftir og lagt af stað – eftir um 6 þrep stundi sá skapmikli – „hvenær verðum við komin?“ og uppskar mikinn hlátur frá foreldrunum sem entist næstum því upp í topp!

Á heimleiðinni var tékkneskur matur á boðstólum.

Á mánudegi fórum við í ferðalag til Brno sem er suð-austan í Tékklandi, ríflega tveggja tíma akstur – á algjörum þvottabrettum!!!!!  Frúin hélt að bíllinn myndi liðast í sundur!  Þegar í borgina var komið (þar sem bóndinn dvaldi í um 6 vikur fyrir 15 árum síðan) leiðbeindi hann okkur að torgi við klaustur Mendels þar sem við lögðum bílnum.  Þar stutt frá var bjórframleiðsla bæjarinn, hann sýndi okkur hvar hann keypti inn, pubbinn þar sem hann borðaði hádegismat – en ekki gat hann fyrir nokkurn mun munað hvar vinnustaðurinn var! (Honum til afsökunar vann hann mest uppi í Beskedyy fjöllunum nokkru norðar og austar – en samt!) Að lokum fannst þó vinnustaðurinn með lóðinni þar sem hafði verið kofi þar sem bóndinn svaf – en allt var breytt, meira að segja búið að færa miðbæinn og byggja kastala!

Borgin er ákaflega falleg, óhemju mikið af bókabúðum en engar minjagripaverslanir!  Ekkert staup frá Brno.  Við skoðuðum múmíur biskupa frá 18. öld og dýflissur kastalans.

Um kvöldið voru strengjabrúður og kristall keyptur og ítalskt í kvöldmat.

Á þriðjudegi var haldið heim, þó var stoppað í 7 klukkustundir í Playmobil Funpark við Nürnberg.  Það er risastór leikvöllur með Playmobil ívafi, þó alvöru matur í boði.  Krakkarnir skemmtu sér konunglega, en það hefði verið betra að vera þarna í meiri hita, með handklæði og þurr föt í farteskinu þar sem víða var hægt að sulla.  Playmobil var selt á góðu verði við útganginn – örlítið keypt og ekið heim í nóttinni.

Á miðvikudegi var Playmo raðað saman fyrir hádegið og leikið, sá skapmikli fór til vinar síns eftir hádegið – hann var í fríi frá leikskólanum þennan dag.  Myndum frá Prag var hlaðið inn í tölvuna og svo sótt uppfærsla á iTunes, tölva frúarinnar látin endurræsa sig – nema hvað, hún DÓ!  Myndir frá Prag verða því ekki settar inn fyrr en (ef) þegar búið verður að leysa málið og ná að ræsa gripinn, þangað til verður bóndatölvan notuð.