Gestablús og sameiningardagur

Á mánudaginn var allt hefðbundið, skóli, leikskóli, íþróttaskóli og frjálsar.  Amman sá um spilamennsku og lestur fyrir þá sem biðu heima í hvert skipti.

Á þriðjudegi náðir amman að útrétta svolítið, auk þess að lesa fyrir barnabörnin og spila við þau.  Hjónin nýttu tækifærið og skruppu aftur í húsgangabúð til að láta sig dreyma.

Á miðvikudegi keyrði frúin til Frankfurt og kom ömmunni í flug, gekk það allt áfallalaust og stoppaði svo í IKEA á heimleiðinni.  Bóndinn sinnti heimilinu á meðan með snilldarbrag.  Gestablús gerði vart við sig um kvöldið – en það frábæra orð fékk ég að láni frá vinkonu sem bjó í Svíþjóð í nokkur ár.

Á fimmtudegi lagðist bóndinn í rúmið með pest, sú sveimhuga var lengi að læra og missti því af eplatínslu í leikskóla þess skapmikla.  Sú snögga fór upp í tré til að hrista, en kaus að koma fljótlega niður aftur.  Frúin hitti sænsk/ítölsk hjón í leikskólanum og komst að því að þýskan hefur yfirtekið staðinn í heilanum þar sem áður var skandinavíska!

Á föstudegi var bóndinn enn heima, eftir skóla og heimanám hjólaði frúin með krökkunum upp að bóndabæ með viðkomu í fína tréhúsinu þeirra krakkanna.

Á laugardegi var ákveðið að hætta bóndanum út úr húsi til að fara í IKEA þar sem frúnni hafði litist svo vel á úrvalið þar.  Það er skemmst frá því að segja að við erum meira Billy fólk en sérsmíðað!

Sunnudagurinn er sameiningardagur Þýskalands, nú eru 20 ár liðin frá undirritun.  Það var haldið upp á daginn í Bremen og þar hélt forsetinn, Christian Wulff, sína fyrstu stóru ræðu þar sem hann bauð íslamstrúarfólk velkomið til landsins.  Ekki urðum við vör við önnur hátíðarhöld í tilefni dagsins.  Frúin skrapp með krakkana til Ötisheim norð-austan við Stuttgart í berfótagöngu.  Var það vel til fundið í 25 stiga hita og sól.

Það styttist í næstu gesti og nú eru ekki nema sléttir 3 mánuðir þangað til frú og börn flytja til Íslands!