Haustfrí og vetrartími

Og enn geysist tíminn áfram.

Mánudagur var eins og þeir eru vanalega, skóli, leikskóli og íþróttir.

Á þriðjudegi voru íþróttir hjá þeirri sveimhuga, annars bara dund heimavið og búðarferð í búðina sem auglýsir „einmal hin, alles drin“ og þeirri sveimhuga fannst það algjörlega vera slagorð sem væri vel við hæfi.

Á miðvikudegi áttum við von á vinkonu í heimsókn, en hún veiktist og kom ekki, við fórum því í staðin í göngu-/hlaupahjólatúr í fallega haustveðrinu upp að bóndabæ og borðuðum grasker með kjúklingnum.

Á fimmtudegi var síðasti skóladagurinn fyrir haustfrí og systurnar áttuðu sig á því hversu stutt það er þangað til við flytjum.  Sú sveimhuga var með miða þar sem á standa dagsetningar fyrir sund þennan veturinn og ég benti henni á að hún eigi bara eftir að mæta þrisvar í skólasund!  Það var eiginlega örlítið áfall en um leið mjög spennandi.  Sú snögga sagði að hún hlakkaði mikið til að flytja heim, en hún yrði örugglega mjög feimin í skólanum.  Hún hlakkar mest til að hitta einn vin af leikskólanum.  Sá skapmikli var leiður yfir að hitta ekki besta vininn í marga daga.

Á föstudegi fórum við í svolitlar útréttingar og út að borða í hádeginu í IKEA.  Sú sveimhuga fór í reiðtíma og gekk vel án þess að vera teymd og á eftir fór fjölskyldan í sund.

Á laugardegi skruppum við til Maulbronn, þar er klaustur sem er á heimsminjaskrá UNESCO – klaustrið starfaði frá því fyrir 1200 í tæp 400 ár og sem mótmælendaskóli síðan – og enn í dag.  Skemmtilegt var að skoða þetta svæði.  Á heimleiðinni fórum við smá rúnt til að dást að haustlitunum.

Aðfararnótt sunnudags var tímanum breytt yfir á vetrartíma, þá var hægt að fara seint að sofa og sofa út en vakna samt snemma!  Eftir hádegið fórum við á skauta og vorum svo boðin í partý um kvöldið – þegar við mættum þangað kom í ljós að tilefnið var afmæli húsfreyjunnar og að krakkarnir voru að fara út í betligöngu, uppáklædd!  Okkar börnum var bjargað með andlitsmálningu og fengu þau yfrið nóg af góðgæti.

Á mánudegi var slakað á fyrripartinn – frúin hálf slöpp vegna magakveisu um nóttina.  En þegar fór að dimma fórum við með þýskum vinum í kirkjugarð í nágrenninu og gengum þar í rökkrinu, en kaþólikkar skreyta leiði með ljósum á Allra-heilagra-messu (sem er almennur frídagur hér).  Þau komu svo í mat til okkar.

Vorum við hjónin einmitt að ræða um daginn hvað þýska orðið yfir kirkjugarð sé fallegt „Friedhof“ (friðargarður) – á eitthvað svo miklu betur við en kirkjugarður, þar sem þessir garðar eru í dag yfirleitt ekki nálægt neinum kirkjum og þar liggur fólk sem á stundum tilheyra þeim ekki heldur.