Heilagur Martin

Enn ein vikan þotin hjá.

Mánudagur eins og vanalega með íþróttaskammti og sofandi skapmiklum dreng þegar ekið var frá íþróttasvæði stelpnanna seinnipartinn.

Á þriðjudegi var dundast í jólakortagerð eftir skóla.

Á miðvikudegi var ljóskerjaganga hjá þeim skapmikla, kennararnir byrjuðu á því að sýna stuttan leikþátt og svo var gengið í gegnum skóginn og sungnar Marteins vísur.  Af þessu tilefni var fyrsta jólaskrautið tekið upp, sem er útskorið englaspil (án engla) en með krökkum í ljóskerjagöngu.  Heim var komið seint og um síðir.

Á fimmtudegi fór sá skapmikli í heimsókn til vinar síns en systur fengu að horfa á mynd í friði á meðan.

Á föstudegi var reiðtími eftir skóla, sú sveimhuga lenti í ævintýri – hún missti hrossið svo hrikalega undan sér þegar hún átti að fara á brokk.  Hann hálf prjónaði og rauk á stökki yfir þvera reiðhöllina, stelpan hékk á baki, datt samt úr ístöðum en náði að ríghalda í taumana og hrossið stoppaði svo í hinum endanum!  Hún var nokkuð slegin en kláraði þó tímann á baki.  Er þá reiðtímum hérlendis lokið.

Á laugardegi skrapp frúin í verslunarferð fyrir hádegið og í sænskan samsöng seinni partinn.  Þar voru sungin lög Bellmans í útsetningu ensks stjórnanda – hríðlækkaði meðalaldur söngvara við innkomu frúarinnar!  En ákaflega var þetta skemmtileg stund.

Á sunnudegi komu góðir gestir í kaffi, ný fjölskylda í borginni – sonur þeirra er á deild með þeim skapmikla.  Faðirinn er Ítali en móðirin sænsk/þýsk.  Áttum við ákaflega góðar stundir og sýndum þeim sleðabrekkuna og bóndabæinn.  Um kvöldið skrapp frúin til fyrrverandi nágrannans og sótti hjól sem hún hafði keypt fyrir þá sveimhuga.  Sátu þær stöllur úti á palli á peysunum fram yfir miðnætti!  Hugsanlega verður keypt annað hjól fyrir þá snöggu.

Á mánudegi var leikfimi og íþróttir auk foreldrafundar hjá þeirri sveimhuga, kennaranum finnst leitt að við flytjum aftur heim þar sem stúlkan er að ná svo góðum tökum á tungumálinu.