Köln

Þá er fyrstu ferð þessa árs lokið, á mánudaginn fórum við í Sirkus í Stuttgart, þar var Heimsjólasirkus (árlegt) sem var algjörlega þess virði að sjá – nema hvað viðkvæmir áttu svolítið erfitt með eitt eða tvö atriðanna.  Eftir að heim var komið fór bóndinn og keypti vetrardekk undir bílinn og jólatréð fór aftur út á pall.

Á þriðjudagsmorguninn skrapp frúin í búð og keypti ryksugu og sagði köngulóm stríð á hendur – það hefur ekki unnist.

Rétt fyrir hádegið var svo lagt  í’ann, ekið sem leið lá beint norður til Kölnar, eða hérumbil, farfuglaheimilið sem við gistum á var í Hürth (eða fuglahúsið eins og einn fjölskyldumeðlimurinn vill endilega kalla það).  Eftir að hafa komið okkur fyrir fórum við út í snjókast og svo inn í Köln, röltum um Hiroshima-Nagasaki garðinn við Japanska menningarsetrið og leituðum svo að veitingastað.  Sú leit tók lengri tíma en við höfðum ætlað okkur, svo að sumir voru orðnir glorhungraðir þegar þangað var komið og slegist var um leifar þess skapmikla!  Krakkarnir voru svo dugleg að þau voru verðlaunuð með ís – úr vasa vertsins 🙂

Á miðvikudegi var stóri Kölnardagurinn og afmæli bóndans, við vorum komin að Dómkirkjunni fyrir klukkan 10 – þá var messa í gangi og ekki hægt að fara inn að bekkjum, hvað þá altari, en þar fyrir framan var þó hægt að skoða ýmislegt og sjá gluggana.  Við ákváðum þá að koma aftur seinna og skoða kirkjuna og ganga þess í stað að staðnum þaðan sem Kölnarvatnið er upprunnið, afmælisbarnið keypti sér ilm að hætti aldraðra og gladdist mjög.

Eftir einfaldan hádegisverð í 140 ára gömlu lestarstöðinni fórum við upp í annan turna kirkjunna, það eru ekki nema um 530 tröppur þangað upp!  Sú snögga skokkaði þetta létt á undan hinum og spurði hvað við hefðum verið að hangsa þegar við hittum hana aftur rauð og blá af mæði, másandi og blásandi.  Þá voru nokkrir stigar eftir upp á útsýnispallin og hún tilkynnti okkur kát að lappirnar hennar væru sko ekkert þreyttar því hún væri búin að bíða svo lengi eftir okkur.  Sá skapmikli gafst hins vegar upp eftir svona 25 tröppur og fór þægilegri leið upp megnið af restinni.

Útsýnið úr turninum var ægifagurt, þó skýjað væri og lofthræðsla farin að gera örlítið vart við sig, sérstaklega hjá stærsta fólkinu.  Erfitt var að ímynda sér hvernig aðstæður steinsmiðanna hefðu verið þessi rúmu 600  ár sem það tók að byggja kirkjunna – og þeirra sem staðið hafa í viðhaldi síðan!

Enn var messa í gangi svo við fórum í dýrgripasafnið, sem var geymt í 7 sölum undir kirkjunni og var þar margt fagurra muna.  Við röltum svo í súkkulaðisafn borgarinnar, þar er svissneski súkkulaðiframleiðandi Lindt  með aðstöðu, við fræddumst um kakóbaunir, framleiðslu þeirra og þroska, smökkuðum súkkulaði og sáum framleiðsluband.  Keyptum svo örlítið súkkulaði til að taka með heim (og það er enn svolítið til af því!).

Gengt súkkulaðisafninu var sinnepssafn, þangað fórum við – eða inn í búðina, bóndinn fékk að smakka alls konar sinnep og gekk út einni krukkunni ríkari (sem fer í safn með hinum sinnepunum heimavið, þar með talið súkkulaðisinnepinu).

Þar sem við gengum í áttina að bílnum fór sá snöggi að kvarta undan því að geta ekki talað – hann endaði með því að skila hádegismatnum á götuhorni nálægt Dómkirkjunni, að vísu í poka í þetta skiptið en ekki á gangstéttina eins og á afmæli móður sinnar.  Það fer því að verða hefð hjá honum að kasta upp úti við á afmælum foreldra sinna.

Um það leiti sem við vorum í þessu stússi heyrðum við í fyrsta skipti í kirkjuklukkum Dómkirkjunnar, líklega var því messan búin, enda klukkan orðin 5!

Ítalskt varð aftur fyrir valinu um kvöldið og allir glaðir.

Á fimmtudeginum ókum við upp Rínardalinn, fórum í gegnum ýmis þorp, sáum fjöllin sjö, helling af kastölum sem höfðu ýmist verið brenndir eða sprengdir upp af Frökkum árið 1689 og enduðum svo í Mainz.

Þar sáum við dómkirkjuna, sem var frekar lítil í samanburði við þá í Köln, kirkjuverðirnir þar voru samt mjög vakandi yfir því að húfur væru teknar niður og krakkar væru ekki með læti.  Í Mainz er líka Gutenberg safn, en í þeirri borg prentaði hann fyrsta ritið sitt hér forðum.  Borgin er falleg, en ekki mikil ferðamannaborg.

Á föstudaginn var þrifið og þvegið hátt og lágt, jólum pakkað niður.

Á laugardaginn fórum við til fyrrverandi nágrannans, eyddum seinni hluta dags þar (fyrri hlutann voru krakkarnir úti að leika í snjónum) og borðuðum með þeim.

Á sunnudegi voru krakkar úti í snjónum og um kvöldið komu Ameríkanarnir í mat og skipst var á ferðasögum, þau voru í París í vikunni og sögðu okkur hvað væri gott að skoða þar með börnum.

Á morgun, mánudag, fer rútínan í gang, skóli, leikskóli, vinna og meistaraverkefni fara öll í gang og allir frekar sáttir eftir langt og gott jólafrí.