Impalúmpur og fleiri sögur

Vikan leið að miklu leiti eins og vanalega og hér koma nokkrar sögur sem urðu til í henni (og reyndar líka fyrr).  Ekki komst þó bóndinn heim eins og til stóð – vonandi verður öskulokunum flugvalla lokið eftir mánuð þegar fjölskyldan fer öll til Íslands.

Sá skapmikli er farinn að hafa mikinn áhuga á blómum, en hann getur ekki munað orðið túlípanar og kallaði þá ýmist úmpalúmpa, impalúmpa eða húmpalúmpa sem okkur finnst óskaplega krúttlegt.  Reyndar virðist orðið impalúmpur (ft., et. impalúmpi) hafa orðið ofan á og hér í garðinum höfum við „hrjár feitar og stórar impalúmpur!“

Annað sem honum er tíðrætt um er Kaufland (ekki vörumarkaðurinn hér í borg með sama nafni), heldur landið hans sem er í Afríku (eða Rússlandi þegar hann bendir á kort).  Þar á hann stórt hús sem getur hýst alla sem vilja koma í heimsókn, á bak við húsið á hann fimm risaeðlur sem borða kjöt og synda í vatninu.  Adam vinur hans og Alexander koma stundum með honum þangað og þeir fara í bílaleik.  Til þess að fara til Kauflands þarf að nota bílinn hans sem getur flogið og er hann bíl-/flugstjóri. Miklar sögur eru sagðar af Kauflandi, svo að segja daglega.  Þar er gott að vera.

Sú snögga upplifði versta dag æfi sinnar á föstudaginn var, í skólanum datt vinur hennar á stólinn hennar og fékk alveg hræðilegar blóðnasir (hann kann eiginlega ekki að vera í skóla sá, stendur uppi á borðum og hvað eina – einungis ein stelpa í bekknum er verri en hann, sú er eiginlega bara barn en ekki skólastelpa!).  Eftir þessa hrollvekju voru hún og tvær aðrar svo lengi á leiðinni í leikfimi að þær læstust úti!  Til að toppa daginn datt hún það illa á leiðinni að sækja bróður sinn að hún fleytti kerlingar á gangstéttinni og skóf bæði af fingri og bringu!

Sú sveimhuga upplifði hins vegar mikla sælu í vikunni – ja það þurfti að vísu heilmikla þolinmæði með sælunni, þar sem hún fór til augnlæknis (sem tók tvo og hálfan tíma!) og fékk staðfestingu á því að hún þyrfti gleraugu.  Þau voru svo pöntuð eftir að hafa mátað nokkrar umgjarðir og má sækja þau á miðvikudaginn kemur.  Fljótlega fer hún líklegast að telja niður í klukkutímum eftir því að fá þau.

Í dag sunnudag var svo stór dagur hjá þeim systrum – það var fimleikamót fjögurra félaga í Tübingen og næsta nágrenni.  Tóku þær báðar þátt, það var slá, jafnvægisslá, gólfæfingar og stökk á hesti/kistu og komu báðar heim með verðlaunapeninga, eins og allir aðrir keppendur.  Það var samt mjög merkilegt að fá pening fyrir fimleika og liðunum þeirra gekk mjög vel.  Sú snögga komst á pall með sínu liði og lið þeirrar sveimhuga lenti í fimmta sæti.

Hér er vorið komið og liggur við að segja sumarið líka, nú um helgina var hitinn yfir tuttugu stigum.

Í næstu viku verður liðið ár síðan frúin og börnin fluttu hingað út og er fjölskyldan farin að upplifa að það verður endir á þessari búsetu hér.  Í vikunni ræddi sú sveimhuga af miklum eldmóð hvað það yrði gaman um næstu páska að fara í messu hér og standa í myrkri og láta kertaljós ganga á milli allra kirkjugesta.  Hún varð hálf svekkt þegar henni var sagt að um næstu páska yrðum við á Íslandi!

Sú snögga sér hins vegar í anda hversu námið á Íslandi verður létt og löðurmannlegt með svo að segja engu heimanámi og ímyndar sér hvernig hún muni spurja kennarann daglega hvað eigi að læra heima.

Hafið það ætíð sem allra best kæru vinir og ættingjar nær og fjær.

Viðbót á mánudegi – saga sem ekki má gleymast:

Á þriðjudeginum skrapp frúin með kjallarakonunum á páskaeggjasafnið í Erpfingen (Sonnenbühl) og var örlítið sein að sækja þann skapmikla (12:05).  Var hún farin að sjá hann fyrir sér útgrátinn með ekka, en þegar hún kom fyrir húshornið á leikskólanum sat hann sæll og rólegur á bekk við útidyrnar og beið.  Var þar rétt nýkomin önnur mamma af deildinni og sagði hún mér að drengurinn hefði sagst vera að bíða eftir mömmu sinni.  Enginn kennari eða umsjónarmaður var í sjónmáli!  Svona er menningin hér – barnið látið bíða eitt utan við leikskólann ef mamman er sein.

Seinna um daginn fór hann svo í sitt fyrsta leikskólavinar afmæli og var það óskaplega skemmtilegt.  Sú snögga kom með en sú sveimhuga var ein heima að læra þangað til bóndinn kom heim.